Það eru tvær myndlíkingar sem eru ráðandi í The White Tiger – annars vegar um manneskju sem hvítt tígrisdýr og hins vegar um manneskjur sem hænsn, fastar í hænsnabúinu.

Meðal hænsnanna er Balram, aðalpersóna myndarinnar. Hann er af öreigaættum, hluti af þeim sem eru oft kallaðir hinir ósýnilegu í hinu indverska stéttakerfi. Þeir koma úr myrkrinu – eins og eitt fórnarlamb sögunnar, sem stekkur fram úr myrkrinu, óvænt, sem kostar hana lífið.

En Balram er ákveðinn í að fjarlægast myrkrið, komast inn í ljósið, hlýjuna, í efri stéttir. Fyrst um sinn þýðir það aðeins að hann verður þjónn og ökumaður ríku fjölskyldunnar. Og finnst hann hafa himinn höndum tekið. Hann er fyrst og fremst að sjá um ung hjón sem höfðu kynnst í Bandaríkjunum; Ashok sem er erfingi fjölskylduveldisins og hafði kynnst Pinky, indverskri stelpu sem aldist upp í Ameríku, þegar hann var í Bandarískum skóla. Þau eru frjálslyndari og bera meiri virðingu fyrir Balram heldur en foreldrarnir og aðrir íbúar herrasetursins – en það er samt grunnt á að þau smætti hann á sama hátt – og þá er það eiginlega sárara, voru þau ekki vinir?

Við vitum vel að merkja allan tímann að Balram mun komast út úr þessum aðstæðum; í byrjun myndar heyrum við hann lesa upp úr tölvubréfi sem hann sendir leiðtoga Kína, sem er að koma í heimsókn – og þar mælir frumkvöðull og binsessmaður, þannig er þessi Balram framtíðarinnar í raun sögumaður okkar í gegnum örlög hins fátæka Balrams. Þessi framtíðar-Balram er fjandi orðheppinn – og hefur greinilega takmarkaða trú á indversku lýðræði:

Lýðræði, eitthvað sem þið gulu mennirnir, þrátt fyrir afrek ykkar í skólplögnum, drykkjarvatni og gullmedalíum á Ólympíuleikum, skortir enn.

En hann viðurkennir svo að líklega væri best að byrja á holræsiskerfunum og drykkjarvatninu. Það er þessum framtíðar-Balram sem er tíðrætt um hæsnabúið – þar sem hanarnir sjá öllum meðbræðum sínum slátrað beint fyrir framan þá. En samt gera þeir ekki uppreisn, þeir sjá enga leið út úr sínum aðstæðum.

Það er búið að hamra þetta fyrirkomulag heimsins í þá svo öldum skiptir – og sama gildir um hina ósýnilegu. Balram rekur til dæmis hvernig það steli enginn af hinum ríku – þótt það væri í raun auðvelt – af því þá myndu þeir hefna sín, ekki bara með að myrða þig heldur gjörvalla fjölskyldu þína líka. Af því það tekur enginn eftir því þegar ósýnilegt fólk hverfur.

Balram sjálfur virðist samt oft ekkert mikið skárri, hann fer fljótlega að hundsa þá sem eru af sömu stétt af miklum móð – og stinga þá í bakið, ef þarf – hann sér þá miklu frekar sem keppinauta heldur en meðbræður.

Þannig er hann auðmjúkur þjónn hinna ríku – of auðmjúkur á köflum finnst hinum amerísk menntuðu ungu hjónum – en hrokafullur gagnvart þeim sem eru jafn fátækir og hann sjálfur, þannig tekst hinum ríku að láta hina fátæku keppa sín á milli – og jafnvel að láta þá líta jafn mikið niður hver á annan og þau gera.

Um leið verður samband hans við ungu hjónin sífellt nánara – fyrst helst við Pinky, en þegar á líður miklu frekar við Ashok – og það er jafnvel ákveðin tegund erótíkur á milli þeirra, það er hluti af Ashok sem skammast sín fyrir ríkidæmi sitt og vill kynnast hinu sanna Indlandi í gegnum Balram, og Balram þráir líf Ashoks, að geta hætt að vera þjónn.

En Ashok svíkur hann alltaf þegar á reynir – verndar stöðu sína, hugsar um að græða, er bara vinur þegar það hentar.

Og þar komum við að hvíta tígrinum. Hann er sjaldgæfur – svo sjaldgæfur að hann er bókstaflega til merkis um hið ofur sjaldgæfa, og þegar kennari Ashoks kallar hann hvítan tígur þá er hann að kalla hann yfirburðanemanda – gott ef ekki yfirburðamanneskju.

Þegar hann hittir svo hvítan tígur í dýragarði vitrast honum svo örlög sín – og vitnar í múslimska skáldið Muhammad Iqbal:

Þegar þú áttar þig á hvað er fallegt í heiminum, þá hættirðu að vera þræll.

Þá loks fer hann að leggja fyrir alvöru á ráðin með að verða eitthvað annað en aumur þjónn – og við vitum frá upphafi að það mun takast, þökk sé sögumanninum. Enda snýst spennan um hvernig nákvæmlega það mun takast.

En þegar það hefur tekist, þegar hann er orðinn uppstrílaði hipsterinn sem kallar sig frumkvöðul – þá er honum þó mikið í mun að virða uppruna sinn, segist fara betur með starfsmenn sína og svo framvegis – en hann verður samt einn af þeim. Skárri útgáfa, kannski, en samt einn af þeim. Hann verður að ófyrirleitnum kapítalista, þótt hann leggi mikið upp úr vinnustaðamóral, og við erum í raun bara að horfa á baráttu nýríkra og gamallra ættarvelda. Þetta er dæmisaga um Jón Ásgeir og Davíð Oddssyni, alveg jafn mikið og þetta er dæmisaga um fátæka og ríka.

Maður treystir honum heldur ekki alveg, maður hefur séð hvað hann hefur á samviskunni – og fjölskyldan hans er gerð aðeins of ómennsk – með því að gera hann að svona ótvíræðum ættarlauk platarðu hálfpartinn áhorfandann til þess að vera sama um svipleg örlög fjölskyldu hans, en um leið áttar maður sig á að það sem sker hann frá fjölskyldunni eru ekki bara gáfur og dirfska, heldur ekki síður hvernig hann nær að bæla samkenndina þegar þarf, rétt eins og ríka fólkið fer svo létt með.

Þetta er kapítalismi með mennskt andlit, en samt svo sannarlega kapítalismi. Sú tilraun að græða mennskt andlit á skrímslið er oftar en ekki dæmd til að mistakast, því þetta er játning um að hugmyndafræði hafi endað í blindgötu, afmennskast. Mennska andlitið er bara skítaredding, á endanum rúlla skriðdrekarnir alltaf inn.

Og jafn vel og hann útskýrir hugmyndina um hænsnabúið þá fer hann í raun ekki sérstaklega djúpt í hugmyndina um hvíta tígurinn. En jú, hvíti tígurinn er til marks um að þú sért að segja sjálfum þér að þú sért sérstakur. Einstakt snjókorn. En það er einmitt sagan sem allt yfirstéttarfólkið segir sjálfu sér líka á kvöldin áður en það sofnar; að það eigi allan þennan auð af því þau séu fallegri eða gáfaðri eða jafnvel guðs útvalda stétt – og þess vegna sé ríkidæmið þeirra en ekki hinna.

Þetta er líka andskoti skemmtileg gangsteramynd og buddý-mynd með ríflegum skammti af þjóðfélagsádeilu – og fjallar um heimin allan, ekkert síður en Indland – þótt Indland sé sannarlega málað sterkum litum sem sögusvið.

Aðalpersónan skýtur létt á Slumdog Millionaire þegar hann segir að fátæklingar séu lítið í að vinna háar fjárhæðir í raunveruleikaþáttum – en hún á það þó sameiginlegt með þeirri Óskarsverðlaunamynd að hér er Indland að sumu leyti sýnt með gests augum.

Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu Aravind Adiga og leikstjórinn er gamall skólafélagi hans úr Columbia háskóla í New York, íraninn Ramin Bahrani, og af viðtölum að dæma eru þeir það nánir að þetta sé meira samvinnuverkefni en flestar aðlaganir – enda hafi Bahrani verið samferða skáldsögunni frá fyrstu drögum hennar. En þeir eiga það sameiginlegt að hafa flúið heimahagana – og slegið í gegn, Adiga var raunar aðeins fimmti indversk ættaði rithöfundurinn til að vinna Booker-verðlaunin – og þegar sá listi er skoðaður þá rekur maður augun í Salman Rushdie, Kiran Desai, V.S. Naipaul og Arundhati Roy – en það er tekið sérstaklega fram að hún frumraun hennar hafi selst best af öllum bókum eftir „non-expatriate Indian author.“ Því allir hinir eru fluttir í burtu – fyrir utan Naipaul, sem er af þriðju kynslóð innflytjenda. Margir bestu rithöfundar sögunnar voru expatar – og sá sem þetta skrifar býr erlendis – en það er sam einhver einkennileg skekkja þarna, hversu ríkjandi þetta er með þann indverska kúltúr sem ratar il Vesturlanda.

Ég segi þetta sögunni ekki beint til lasts, þetta er fínasta bíómynd – og Miðnæturbörn Rushdie er ein mín uppáhaldsbók, indverski expata-kúltúrinn er einmitt mjög heillandi.

En það er samt eitthvað órætt, eitthvað einkennilega vestrænt við myndina. Hún er táknsaga fyrir okkur um kapítalismann með dassi af exótíska Indlandi – en maður veltir samt aðeins fyrir sér hvort við þurfum ekki að hlusta betur og lesa betur höfunda eins og Arundhati Roy sem enn búa í þessu tröllvaxna landi, og jafnvel aktívistinn Roy er úr ríkari fjölskyldu en flestir Indverjar – vandinn er kannski helst sá að hinir ósýnilegu verða enn bara sýnilegir í gegnum þá sýnilegu, í gegnum þá efnuðu og vel menntuðu, sem er því miður alltof oft mikilvægt skref í þroska skáldsögunnar í hverjum málheimi.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson