Það er kertaljósatemmning á settinu, ljósakrónan á bak við Phoebe kastar gylltum bjarma á ljóst hár söngkonunnar og hún syngur um Þýskaland og Texas, en fljótlega kemur í ljós að þetta eru dagdraumar, mögulega með hjálp rafrænna ljósmynda, mynda og landakorta í tölvunni.

Somewhere in Germany, but I can’t place it

Man, I hate this part of Texas

Close my eyes, fantasize

Three clicks, and I’m home

Svona eru ferðalög í heimsfaraldri, álíka ómöguleg og í eldgamla daga þegar kostnaður eða frumstæðari tækni var líklegri til að stoppa þau. Það þýðir að maður þarf að breyta sögunni, rómantísera hið hversdagslega.

Romanticize a quiet life

There’s no place like my room

Phoebe Bridges er að syngja lagið I Know the End í lok Saturday Night Live þáttar. Það er lúmskur húmor í textanum, sem kemur varla á óvart – fyrsta platan hennar hét Stranger in the Alps – sem er vísun í það þegar sjónvarpsútgáfa The Big Lebowski ritskoðaði reiðilestur John Goodman og orðunum „That‘s what happens when you fuck a stranger up the ass“ var breytt í „That‘s what happens when you see a stranger in the Alps.“

En svo skellur skyndilega á með fellibyl.

But I’m not gonna go down with my hometown in a tornado

Við vitum öll hvað hvirfilbylur þýðir í amerísku sagnaminni – ferð Dóróteu frá Kansas til Oz. Phoebe er hins vegar að syngja um uppreisnargjarnari Dóróteu, Dóróteu sem ætlar sér sannarlega að yfirgefa Kansas. Það má lesa það á marga vegu; kannski er heimabærinn sem er að sökkva í raun gervöll Ameríka og hún er búinn að fá nóg, kannski er hún búinn að fá nóg að ræðum um að við séum öll í þessu saman þegar það er augljóslega ekki tilfellið.

Svo teiknar hún upp smá road trip fyrir okkur, þetta er myndræn en um leið hugmyndaleg þeysireið um Ameríku 21. aldarinnar, minni á borð við nýjar sköpunarsögur, samsæriskenningar, guðsótta og geimverur rekst á leiktæki, hvít grindverk og sólina yfir sléttunni.

Þetta byrjaði allt mjög rólega, kósí kertaljósatónlist, en leikar byrja aðeins að æsast þegar komið er út á hinn ímyndaða þjóðveg – og svo koma endalokin.

The end is here er endurtekið og leysist á endanum upp í frumöskri, hún öskursyngur og headbangar undir lokin – og svo kemur atriðið sem er orðið alræmt, þar sem hún rústar gítarnum með því að berja honum á næsta hátalara.

Endalok lagsins spilar á heimsendaóttann í heimsfaraldri – en líka bara hvað allir eru búnir að fá nóg að ástandinu.

Í tónlistarmyndbandinu sjálfu er svipuð pæling – þar er hún ein í baði, fullklædd, í sama beinagrindargallanum og hljómsveitarmeðlimirnir í kringum hana eru í í myndbandinu. Seinna í myndbandinu hleypur hún um – en er samt enn í baðinu, í endurliti – þetta er líklega ekki raunveruleiki – og myndbandið endar á að hún finnur hljómsveitina á yfirgefnum leikvangi þar sem þau flytja tónlist líkt og andsetinn – og öskursyngur svo lokakaflann með gamalli konu. Bandið sem þráir bara að geta spilað tónlist fyrir fólk aftur og fólkið sem er í mestu hættunni, mætt saman að öskra yfir þessu öllu saman.

Fæstir hafa samt verið að pæla í þessu – það er tímanna tákn að flestir hafa verið að vandræðast með að hún hafi dirfst að rústa gítarnum. Eitthvað sem er eldgamalt og gilt stef í rokkmúsík, en það er eins og tvennt komi saman – aukin hneykslunargirni og leit að næsta listamanni til að cancela, sem og sú staðreynd að gítarrúst hefur oftar verið karlasport. Lagið spilar einmitt inn á þetta og gerir gjörninginn enn betri, rólegt og krúttlegt fyrst, eins og stelpumúsík „á“ að vera – og svo kemur brjálæðið, stigvaxandi. Og í raun er Phoebe heppinn – meiningin með að rústa gítarnum átti upphaflega að vera sjokkerandi, það er kannski hið besta mál að fólk sé byrjað að sjokkerast aftur.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson