Tveir menn – eða tvær verur, kannski öllu heldur – halda inní eyðimörkina. Bilið á milli þeirra eykst sífellt, það hægist á öðrum þeirra – þangað til hann stoppar, lútir höfði – og þá loksins snýr hinn til baka.
Þegar hann kemur til baka fær hann eina bón – óorðaða – hér er bara þögnin. Að stilla tímasprengjuna og sprengja sig í loft upp. Á hundrað sekúndur, svo hann geti gengið nógu langt í burtu.
Eftir sprenginguna hefst loksins lagið – og upp koma vélmennahendur og ártölin 1993-2021. Daft Punk er öll, hætt. Þetta virðist óvenju dramatísk kveðja – en um leið óvenju laust við drama, þessu fylgja nefnilega engar yfirlýsingar, engin viðtöl, engar ástæður, ekkert til að smjatta á eða mistúlka á samfélagsmiðlum. Nema sprengingin sé vísbending, gafst kannski annar þeirra upp á þessu, er hinn að fara að halda áfram sólóferli?
Ef ástin er svarið ómar svo, kannski pínu klént, en textinn hefur svo sem sjaldnast verið aðalatriðið hjá Daft Punk, ef hann hefur á annað borð verið til staðar. En samt, þegar maður hlustar betur þá heyrist öll línan, síendurtekin:
„If love is the answer you hold, hold on“
Daft Punk fylgdi í kjölfar Kraftwerk með því að gera búningana að lykilatriði í raftónlist sinni, þeir birtust sjaldnast án þessara hjálma.
En hver er pælingin með þessum hjálmum? Að tónlistin geti kannski miðlað tilfinningum sem orðin geta ekki – að tónlistin séu brú á milli geimvera sem tala ekki sama málið, þótt þau kannski þykist gera það?
Forveri raftónlistarinnar sem vinsællar tónlistarstefnu voru meðal annars ýmsar hljóðbrellur í vísindaskáldsögumyndum, myndum sem fjölluðu um fjarlæga framtíð eða fjarlæga hnetti, oft bæði.
Um verur sem heyrðu öðruvísi, skyldu öðruvísi – og svo var kannski bara ódýrara að búa til nýjan hljóðheim en að búa til nýjan heim og nýjar verur. Þá hefur stærðfræði stundum verið kölluð alheimsmálið, öllum skiljanleg, í vísindaskáldskap – eins og til dæmis í Contact Carls Sagan og samnefndri bíómynd. Og tónlist er nátengt stærðfræði, sérstaklega raftónlist sem stundum er jafnvel hægt að setja upp í formúlu.
Daft Punk eru meðvitaðir um þessa arfleifð, það sést ágætlega í mörgum myndböndum þeirra, til dæmis við lagið Something About Us. Við erum stödd í franskri framtíðarmyndasögu, flestar persónurnar virka mennskar að nútímasið – en ekki þó elskendurnir, hann er blár og hún er með einkennileg gleraugu sem mann grunar að sýndarveruleikagleraugu, þau umfaðma andlitið – og minna á að þegar músík framtíðarinnar er í raun orðin meginstraumsmúsík er framtíðin þegar komin – og við öll orðin sæborgir, föst heima þar sem tækin bjarga okkur frá sjálfum okkur.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson