Ég sá Knives Out loksins um daginn. Fíla leikstjórann Rian Johnson oftast en er á móti oftast lítið spenntur fyrir Agöthu Christie-legum sakamálasögum, sem þessi sannarlega er – þetta er Músagildran í nútímauppfærslu.
Það sem fór þó á endanum mest í taugarnar á mér var nútímalega tvistið sem við fyrstu sýn leit ekkert illa út. Og já, hér kemur Höskuldarviðvörun fyrir Knives Out: Aðalpersónan er ekki allar stjörnurnar sem þú þekkir, þær leika allar svívirðilega spillt afkvæmi (eða maka) aldraðs ættarhöfðingjans sem finnst látinn. Nei, aðalpersónan er heimahjúkrunarkonan og ólöglegi innflytjandinn sem hjúkrar þeim gamla og verður sálufélagi hans síðustu æviárin.
Með þessu verður myndin táknsaga um Ameríku Trump-áranna þar sem innflytjendur vinna baki brotnu og halda þjóðfélaginu uppi á meðan hinir ríku tala um sjálfa sig sem gerendur sögunnar þótt þeir séu bara fastir í eilífu kokteilboði og vinni sjaldnast handtak á meðan peningarnir safnast upp. Sumsé, samfélagsádeila sem hefði átt að vera mér að skapi. En fílgúdd-tvistið – sem var sannarlega fyrirsjáanlegt – eyðilagði það snemma. Sá gamli ákveður nefnilega að skrifa spilltu afkvæmin út úr erfðaskránni og arfleiða hjúkrunarkonuna að öllum auðæfunum.
Og ég þóttist muna ágætlega að slíkir gjörningar væru í raun ólöglegir – og það væri góð ástæða fyrir því; hjúkrunarstarfsmenn hafa greiðan aðgang að gömlu fólki á viðkvæmum stundum, lokakafla æviskeiðs þegar fólk er ósjaldan komið með elliglöp, orðið einmana og ringlað – þetta eru aðstæður sem bjóða alveg upp á að vafasamir aðilar misnoti sér aðstöðu sína og heilaþvoi gamalt fólk til að sanka að sér ríkulegum arfi. Þannig að ég ákvað að fá óformlegt lögfræðiálit á Facebook-spjalli og niðurstaðan var sú sem mig grunaði: einmitt út af þessu er þetta bannað á Íslandi sem og á flestum Norðurlöndunum – en ekki í Bandaríkjunum.

Vandinn er svo að í Knives Out er þetta ekki misnotað, hjúkrunakonan er hrekklaus og góðviljuð og á arfinn í sjálfu sér alveg skilinn, svona karmískt séð. En það er samt mjög vafasamt að þetta sé hægt. En á eftir myndinni spilaði Netflix stikklur nokkurra væntanlegra mynda – og ein virtist mögulega vera ágætis mótefni gegn þessari: I Care a Lot.
Sú mynd fjallar um Mörlu Grayson (Rosamund Pike) sem nýtir sér einmitt veikleika Bandarísks réttarkerfis þegar kemur að gömlu fólki. Hún er samt ekki hjúkrunarkona sjálf og bíður þess ekki eftir að þau gömlu gefi upp öndina, heldur féflettir þau í lifanda lífi. Við fáum innsýn í bisnessmódelið hennar strax í upphafi: hún er með lækni sem skrifar upp á sjálfræðissviptingu við minnstu veikleikamerki aldraðra sjúklinga sinna, dómara sem er álíka samvinnuþýður – og ávallt er það Marla sem er skipaður löglegur forráðamaður þessa fólks. Sem hún sinnir svo auðvitað ekki neitt, lætur þau einfaldlega á spillt hjúkrunarheimili þar sem þau gömlu eru algerlega slitin úr sambandi við umheiminn og borgar svo öllum sem koma að þessu sinn hlut eftir að hún er búin að koma öllum eigum þeirra gömlu í verð – því þau þurfa jú að borga markaðsverð fyrir sína elliþjónustu.
Marla flytur nokkrar ræður í upphafi myndar, svo það sé nú alveg á hreinu hvers konar persóna hún er. Rifjar upp að hún hafi sjálf eitt sinn verið fátæk – en það er nú svona nánast það eina sem við vitum um fortíð hennar, fyrir utan að seinna kemur í ljós að hún hatar móður sína – sem miðað við lýsingu hennar („helvítis geðsjúklingur“) hefur einmitt verið nokkurn veginn eins og hún. „Heiðarleiki og sanngirni eru brandari sem hinir ríku nota til að halda okkur hinum fátækum,“ fullyrðir hún í byrjun. En við áttum okkur strax á að Marla er löngu hætt að vera hluti af „okkur.“
Snemma í myndinni kemur svo sonur konu sem Marla hefur lokað inni og hótar henni á bílastæðinu fyrir framan dómshúsið. Sú sena, og nokkrar fleiri, stilla Mörlu upp sem hinni femínísku andhetju. Örvæntingarfullur karlinn óskar þess að hún deyji, henni verði nauðgað og að hún missi allt sitt – hann er vanstilltur og ómálefnalegur, en af því við vitum andstyggilegt samhengið þá hefur maður alveg samúð með honum þótt hann hefði mátt orða þetta betur. Marla hjólar vitaskuld beint í karlmennsku hans – eða skort á henni – og stillir sér upp sem andstæðingi feðraveldisins, uppreisnarsegg.
Sem hún er auðvitað ekki. Hún er bara búin að læra að spila með, þetta er óheftur og eitraður kapítalismi sem notar einfaldlega öll vopnin í bókinni til að græða meira, hvort sem það er femínismi eða eitthvað annað. Þetta þýðir hins vegar að myndin mun bæði vera skoðuð sem réttmæt ádeila á ákveðinn vafasaman anga femínismans (neoliberal girlboss feminism var þessi afskræming kölluð í fróðlegri grein á Salon) – en það má sjálfsagt alveg nota hana líka til þess að berja á réttmætri kynjabaráttu.
Marla virðist með allt sitt á hreinu – og er það þangað til hún finnur gullgæsina. Jennifer (Dianne Wiest), hinn fullkomna eldri borgara – en þetta er auðvitað of gott til að vera satt. Þessi forríka eldri kona sem virðist engum tengd reynist auðvitað móðir mafíuforingjans í bænum, sem dvergurinn knái Peter Dinklage leikur af mikilli snilld.

Það gerir Rosamund Pike líka. Hún hefur leikið ýmis gæðablóð – en hún mun líklega alltaf vera þekktust fyrir að leika ísdrottningar sem einskis svífast, eins og Mörlu og hjónabandsdjöfulinn Amy í Gone Girl. Það er varla hægt að kalla hana andhetju, til þess þyrfti maður að hafa örlitla samúð með henni – því hún er engin, til þess er hún of andstyggileg við gamla fólkið. Þannig að hún er ósköp einfaldlega skúrkur í aðalhlutverki og mann hlakkar til að hún fái makleg málagjöld.
Það breytist að vísu aðeins seint í myndinni, þegar hún er farin að snúast upp í hálf teiknimyndalegan bardaga á milli hennar og mafíudvergsins, nánar tiltekið akkúrat á augnablikinu þegar hún forðast vísan dauðdaga, missir tönn og fer í kjörbúðina til að kaupa mjólk til að varðveita tönnina betur fram að næstu tannlæknaheimsókn. Þá fer andsyggðin að blandast við smá aðdáun – hún er vissulega ódrepandi harðjaxl, það verður ekki af henni tekið. Hún fer hálfpartinn að minna á Tortímanda Scwarzheneggers, það bítur einfaldlega ekkert á henni og hún kemur lifandi út úr öllum háska.
Flóttinn frá elliheimilinu: myndin sem aldrei varð
Þetta snarklikkaða einvígi Mörlu og mafíudvergsins Romans er alveg skemmtilegt, stílíseraður og vel gerður hasar og þau Pike og Dinklage lifa sig inní hlutverkin. Sem slík er þetta fín mynd, skemmtilegur hasar sem manni leiðist aldrei yfir. En myndin gleymir dálítið hvað hún er um.
Þegar Jennifer (Dianne Wiest) birtist þá sá maður eiginlega fyrst fyrir sér hálfgert einvígi á milli hennar og Mörlu, einvígi aldraðrar ljónynju og ungrar ljónynju. Og sumum finnst það ósiður gagnrýnanda að biðja um annað verk en var búið til, en það er satt best að segja alveg réttmæt krafa í þessu tilfelli.
Þetta er nefnilega mynd um gamla fólkið sem er fljót að gleyma gamla fólkinu. Það er líklega ekki nógu töff fyrir stílíseraða hasarinn. Dianne Wiest er samt mjög töff – hefði verið frábær andstæðingur fyrir Mörlu, en hún er sorglega vannýtt og endar í algjöru aukahlutverki.

Við getum kannski bara ímyndað okkur Gaukshreiðrið ef Jack Nicholson og félagar hans á hælinu hefðu varla verið með og myndin hefði snúist nær alfarið um baráttu Ratched hjúkku við einhverja aðstandendur Nicholsons; það gæti alveg verið skemmtileg mynd en myndi seint ná sömu dýpt.
Þetta er nefnilega ýkjusaga um mjög raunverulegt vandamál – eins og þessi grein í New York Times sýnir fram á – og íhyglari leikstjóri hefði getað gert andskoti magnaða mynd um baráttu hjálparlauss fólks á dvalarheimili gegn kerfinu. Mig dreymir um gamalt fólk að plotta flóttann, Flóttinn frá elliheimilinu er mynd sem mig langar að sjá – og slík mynd gæti eftir sem áður nýtt sér ísdrottninguna Mörlu og mafíudverginn Roman – en með alvöru þátttöku mafíudrottningarinnar öldruðu en spræku.
En þess í stað er þetta mynd um þjóðfélag sem afskrifar gamalt fólk alltof snemma – sem myndin gerir einmitt líka.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson