Við erum stödd í leikhúsi fáeinum árum fyrir heimsstyrjöldina og inn gengur búktalarinn Tommy Crickshaw, leikinn af  Bill Murray, með brúðuna sína.

Það eru erfiðir tímar, svo erfiðir að „ ég horfi á þig og sé bara eldivið,“ segir búktalarinn við skelkaða brúðuna. En í kjölfarið fer brúðan að tala um kommúnisma, sem ofbýður vitaskuld búktalaranum, sem er að reyna að vera heiðvirður amerískur borgari, eins og þeir voru skilgreindir á þeim árum sem sérstök rannsóknarnefnd var skipuð til þess að uppræta óamerísk viðhorf – lesist: til að berja á kommúnistum. Þeir rífast um stund, brúðan kvartar yfir launum og húsnæði: „Ég fæ ekkert borgað og sef í íbúð sem er eins og líkkista!“

En brúðan gefst ekki upp og syngur á endanum Internasjónalinn, með búktalarann grátklökkann henni við hlið. Hann gengur svo út af sviðinu, brúðan situr ein eftir.

Forsaga þessa atriðis er að rétt fyrir síðustu aldamót, árið 1999, var myndin Cradle Will Rock frumsýnd. Hún átti það sameiginlegt með Mank að bæði verkalýðsbarátta millistríðsáranna og fortíð Orson Welles komu við sögu, en þessi var hins vegar miklu mun betri en Mank – og aðeins þriðja mynd leikarans Tim Robbins sem leikstjóra. Sú næsta á undan, Dead Man Walking, hafði verðskuldað slegið í gegn en þessi gekk alls ekki jafn vel, þótt hún hefði átt allt gott skilið – og Robbins hefur ekki leikstýrt síðan, sem er mikil synd.

Myndin fjallar um tilraunir Mercury leikhússins, sem Welles var höfuðpaurinn í, til þess að setja samnefnt leikrit á svið – The Cradle Will Rock. En óameríska nefndin virðist hafa gleymt málfrelsisákvæðinu í stjórnarskránni og gerir allt til þess að hindra sýningar verksins.

Það er í kjölfar hótana um atvinnumissi og togstreitu alls leikhópsins um að annars vegar vera trú listinni og hugsjónunum og hins vegar verja lífsafkomuna, sem áðurnefndur búktalari stígur á svið. Yfirvöld höfðu náð til hans, hann var orðinn svikari hópsins, sell-out, hafði gleymt sínum gömlu hugsjónum í baráttunni við að lifa af – en það er að rofa til í hausnum á honum aftur, þótt hann leyfi öðrum haus að miðla því.

Deila þeirra á undan söngnum sýna ágætlega skitsófreníska stöðu verkamannsins í svona ástandi; þeir geta rætt efnahagsástandið en mega alls ekki nefna augljósar lausnir, eins og til dæmis sósíalisma. Til þess þurfa þeir brúðuna, listina, jafnvel þótt jafnvel hana sé reynt að þagga niður.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson