Ég var tiltölulega nýbyrjaður í blaðamennsku þegar reyndur kollegi hafði orð á gildi jafnréttis í faginu. Útskýrði að það sé ekki bara jafnréttismál að hafa sem mestan jöfnuð í ritstjórnum stórra fjölmiðla – jöfnuð eftir kynjum, uppruna, aldri, menntun og fleiru – heldur gerir það fjölmiðlana einfaldlega miklu betri.

Hvernig þá?

Jú, það sé svosem alveg mögulegt að 40 hvítir karlmenn, sem allir búa í sama póstnúmeri og gengu allir í sömu skólana, séu allir sem einn svakalega sniðugir og pennafærir og skarpir. En fréttanefin þeirra eru öll að finna lykt úr sama horninu og finna þar með sömu fréttirnar. Mögulega sömu fréttirnar og allir hinir miðlarnir.

Með því að hafa sem mesta breidd á ritstjórn þá væri einfaldlega verið að kasta netinu miklu víðar; fá fréttir af öllu tagi úr sem flestum kimum samfélagsins og sömuleiðis fjölbreyttari óskir um efnistök sem og hugmyndir að efni. Þegar upplýsingar og hugmyndir berast ekki bara úr karlaklúbbum, heldur líka úr saumaklúbbum og skólastofum og verksmiðjum og leikskólum þá verður miðillinn betri, því hann hefur skýrari og breiðari mynd af samfélaginu og á í virkara samtali við það. Og miðillinn verður um leið síður hættulega háður einum kima samfélagsins, hvort sem sá kimi er stétt pólitíkusa eða viðskipamanna eða einhverra annarra.

Þessi orð rifjuðust upp fyrir mér þegar ég horfði á innslag í Silfri Egils um lélegan lesskilning drengja og hjó eftir þessari tölfræði: aðeins 17,5 prósent grunnskólakennara voru karlar árið 2019. Það hefði verið gaman að sjá fleiri tölur – og kynjatölur eru þægilegar af því við vitum jú að fjöldi karla og kvenna er nánast jafn – en hversu margir grunnskólakennarar eru innflytjendur eða af erlendu bergi brotnir? Hversu margir hafa alist upp í annarri trú en kristni? Úr hvaða stétt koma kennararnir, hvar eru þeir fæddir, hversu margir kennarar eru trans eða samkynhneigðir? Hversu fjölbreytt er menntun þeirra og störf utan kennslu?

Allt þetta skapar og mótar kennarann – og þar með börnin.

Þetta er samt vitaskuld ekki svo einfalt að karlar skilji stráka sjálfkrafa betur eða að konur skilji stelpur sjálfkrafa betur, þar er mögulega fylgni en það er ekki endilega regla, við erum nefnilega flóknari en svo, við erum miklu meira en bara kyn okkar, við erum líka uppruni okkar, stétt okkar, áhugamál og ástríður, persónuleiki og margt fleira. Sjálfur hef ég tengt frábærlega við sumar kennslukonur og alls ekki við suma kennslukarla, og öfugt.

En skekkjan í faginu er samt til marks um skekkju í reynsluheimi og það væri einfaldlega afskaplega dýrmætt að hafa sem mesta fjölbreytni í kennarastéttinni, til þess að sem flestir nemendur finni einhvern tímann á skólagöngunni einhverja kennara sem virkilega skilja þá. Sem virkilega ná að virkja þeirra dýrmætustu hæfileika.

Nú hef ég unnið sem kennari (í framhaldsskólum, þar sem kynjaskiptingin er öllu jafnari) og stundum áttar maður sig á að maður er ekki að ná til ákveðinna nemenda. Ef þetta á við um allan hópinn þá kynni að vera ástæða til að breyta um kúrs – en það sem ég upplifði var kannski oftar það að margir nemendur voru dauðfengnir að fá örlítið nýstárlegri kennsluhætti á meðan aðrir voru búnir að læra á hefðbundnari aðferðir og vildu halda sig við þær. Nemendur eru nefnilega alls konar, til dæmis bæði nýjungagjarnir og íhaldssamir. En verða oft íhaldssamari ef kerfið er íhaldssamt og einsleitt, af því þá læra þeir á það og hafa kannski takmarkaðan áhuga á að læra á annað kerfi.

En þessir nemendur munu fá aðra kennara á eftir mér – og sem betur fer munu sumir þeirra henta þeim óánægðu betur, ná betur til þeirra. Vegna þess að þótt það sé dýrmætt að reyna og prófa og þróa áfram sem fjölbreyttastar kennsluaðferðir er ég ekki frá því að mesta fjölbreytnin í kennsluaðferðum geti hreinlega sprottið úr fjölbreytni kennarahópsins.

Afríska spakmælið „það þarf þorp til að ala upp barn“ snýst vissulega um það að uppeldi sé samfélagslegt samvinnuverkefni þegar best lætur – en ekki bara til að dreifa álaginu og hjálpa börnum sem missa foreldra eða eiga foreldra sem lítið geta hjálpað. Þetta snýst líka um það að börn þurfa að finna speglun og geta talað við fullorðna um alla mögulega hluti – en það þurfa ekkert endilega alltaf að vera foreldrar eða ættingjar.

Foreldrarnir geta verið frábærir foreldrar en þeir hafa ekki endilega sömu áhugamál og barnið, og jafnvel þótt þar sé oft skörun þá verður þar aldrei fullkomin skörun. Þannig hjálpar það ekkert endilega barni úr antisportistafjölskyldu sem fær fótboltadellu að foreldrarnir fari að mynda með sér grunnan uppgerðaráhuga á fótbolta – það hjálpar krakkanum miklu frekar að fá frænku eða frænda eða fjölskylduvin í heimsókn sem hefur alvöru áhuga á fótbolta og getur komið krakkanum á sporið. Því ef foreldrarnir ætlast til þess af sjálfum sér að þau séu barninu allt og fyrirmyndir í öllu þá eru þau bara að hjálpa til við að þroska þær hliðar barnsins sem eru sameiginlegar foreldrinu – sem eru oftast margar, en ekki allar. Og kannski er það einmitt í gegnum þetta líka sem alls kyns trámu og veikleikar erfast á milli kynslóða?

Þessir hvítu veggir

En aftur að þorpinu. Þessi frasi – og hugsunin sem virðist við fyrstu sýn liggja að baki – er stundum misnotaður til að reyna að varpa vandanum heim. Eins og í þessu tísti sem ég rakst á:

„Strákar eru illa læsir því skólakerfið hefur brugðist þeim.“

Mig langar að spyrja foreldra sem eru sammála þessu að eftirfarandi:

a) Lest þú með barninu? 

b) Á barnið bækur sem hæfa aldri þess? 

c) Eru til einhverjar bækur á heimilinu? 

d) Sér barnið þig lesa?

e) Er talað um bækur eða annars konar lesefni á heimilinu? 

f) Farið þið á bókasöfn eða fóruð þið á slík þegar barnið var yngra? 

g) Hefurðu tekið einhver skref í átt að því að auka áhuga barns á lestri, ef það finnur sig illa á þeim vettvangi? 

h) Af hverju hatar þú bækur?

Það er margt ágætt þarna – en þetta er samt frávarp. Og ég ætla að láta nægja að svara síðasta liðnum: Af hverju hatar þú bækur?

Af því skólakerfið kenndi sumum að hata bækur. Og þótt ég hafi sjálfur lært bókmenntafræði skil ég það vel, stundum furða ég mig raunar á því hvernig stórum hluta þeirrar ljóðakennslu sem ég fékk í grunnskóla tókst ekki að vekja með mér ástríðufullt hatur á ljóðum – en svo man ég að það voru til ljóðabækur heima. Ekkert rosalega margar og þeim var svo sem ekki haldið neitt sérstaklega að mér, en þarna var samt stórt fimm binda ljóðasafn og í tuttugustu aldar bindinu fann ég nógu mörg sterk móteitur fyrir ljóðahatrinu.

En auðvitað kíkti ég í ljóðabækurnar af því ég var vanur alls kyns skáldskap, var í húsi fullu af skáldskap og þegar smekkur foreldranna varð of forn stalst ég í bókaskápa eldri systkinanna eða í myndarlegt myndasögusafn Balla frænda. Já, eða á bókasafnið. Og þegar ég fór í heimsókn með foreldrunum þá rétt kastaði ég kveðju á heimilisfólkið áður en ég fór að gaumgæfa bókaskápa heimilisins.

En þetta var auðvitað á þeim dögum sem bókaskápar fylltu flestöll heimili, voru skemmtilega kaótískir og óútreiknanlegir – og þetta var sjaldnast sérstakt bókmenntafólk í þrengsta skilningi orðsins, þetta voru sjaldnast rithöfundar eða fólk sem vann við bókmenntir. Svona voru bara flest akureysk heimili seint á síðustu öld.

En núna eru veggirnir hvítir, mínimalisminn hefur tekið völdin. Ég er að hugsa um að kenna Marie Kondo um þetta allt saman.

En vandinn er þessi: ef við kennum foreldrunum um þá verðum við að muna að foreldrarnir fóru í gegnum þetta sama menntakerfi (þótt það hafi vissulega ýmislegt breyst). Foreldrarnir eru lítið að fara að breytast þótt við segjum þeim að breytast – en foreldrar næstu kynslóðar, þessir sem eru enn í skóla, það er enn þá tími til stefnu að kenna þeim að elska bækur.

Skólinn getur nefnilega hjálpað til við að leiðrétta skekkjur samfélagsins – þótt vitaskuld þurfi meira til, aukinn jöfnuð á öllum sviðum svona til að byrja með. En: skólinn er samt í raun eitt besta tæki sem við höfum til að breyta samfélaginu. Vandinn er bara að hann er líka ansi seinleg leið til að breyta samfélaginu. Flestir pólitíkusar og spjallþáttastjórnendur og áhrifavaldar ársins 2021 verða sjálfsagt komnir á eftirlaun þegar sú breyting fer almennilega að skila sér.

En þó, bara sú hugarfarsbreyting sem þarf til að bæta menntakerfið mun skila sér á fleiri svið, því um leið og við förum að beita okkur fyrir aukinni fjölbreytni og jöfnuði í menntakerfinu er ekkert ólíklegt að við áttum okkur á mikilvægi þess að gera það á öðrum sviðum líka. Og þegar börn úr öflugu og frjóu menntakerfi koma út í samfélagið eru þau líkleg til að gera það miklu betra.

Ég vil samt taka eitt fram: ég lærði að lesa í skóla. Það gerðum við flest, þótt sumir hafi lært það af foreldrum eða öfum og ömmum. Þá er ég að tala um tæknilegu hliðina, hvað stafirnir þýddu og hvernig þeir hljóðuðu og að tengja þá saman. En það var þorpið sem kenndi mér að elska bækur. Það gerðist meira að segja áður en ég lærði að lesa, það gerðist vegna þess að ég skottaðist með mömmu í leshópa með hinum mömmunum í öldungadeild menntaskólans og lærði Þrymskviðu og goðafræðina í gegnum þær og plötuspilarann í horninu, ævintýrin af Bessa Bjarnasyni að segja sögur fyrir börnin og svo af öllum þessum bókum sem ég hlakkaði til að fá lykilinn að þegar ég yrði sex ára.

Raunar held ég að ástæðan fyrir því að nokkur manneskja læri að elska bækur – eða yfir höfuð nokkurn skapaðan hlut – sé í grunninn frekar einföld. Steinar Bragi orðar þessa ástæðu ágætlega í Trufluninni:

„Nei, ég fann ekki til ótta, bara forvitni; ómenguðustu, sönnustu tilfinningu tegundarinnar. Saga okkar allra endaði illa, dauðinn beið en þangað til ætlaði ég að vera forvitin.“

Við erum forvitnar skepnur og það er ósköp einfaldlega lykilatriði fyrir allt nám; að virkja forvitnina. Þegar kemur að bókum er það held ég tiltölulega einfalt: að umkringja barnið með bókum. Það sakar ekki að tala um þær eða halda þeim að barninu, en ég er ekki einu sinni viss um að þess þurfi – ef það elst upp umkringt bókum þá verður það forvitið um hvað kunni að leynast inni í þeim, þau hlakka til að geta komist að því. Þaðan kemur upprunalega hugmyndin um galdraskræðuna – vitneskjan strax í frumbernsku um að í þessum bókum leynist galdur og það þurfi lykil til að opna þær.

Þannig að burt með mínimalismann, hættið að hlusta á Marie Kondo og alla innanhússarkitekta sem boða mínimalisma, málið veggina og umkringið barnið af nógu mörgum leyndardómum, til að virkja með því forvitnina.

Það er samt ekki nóg ef þetta eru allt þurrar og leiðinlegar fullorðinsbækur. Og eins og ég sagði áðan, áhugamál foreldranna ríma ekki endilega við áhugamál barnanna. Og áhugamál bókaútgefenda ríma alltof sjaldan við áhugamál barna.

Við erum nefnilega með bókasöfnin og bókabúðirnar – en þau eru háð því hvað kemur út. Og Ísland er örsamfélag og sannarlega erfitt að hafa sömu fjölbreytni og annars staðar. Nú skal það sagt að það hefur verið töluverð uppsveifla í barna- og unglingabókum undanfarinn áratug eða svo – en það gerðist í kjölfarið á töluvert löngu hnignunarskeiði. Það var einfaldlega ákveðið snobb að líta niður á barnabækur, en þó sérstaklega unglingabækur og myndasögur – sem varð til þess að útgáfa þeirra dróst saman, ekki af því þær seldust ekki, heldur af því það var krafa um að gefa út fínni bækur. Það er sérstaklega sjokkerandi hvernig myndasöguútgáfa nánast lagðist af á Íslandi upp úr 1990, þótt sú útgáfa sé loksins að glæðast aftur. Því fólk áttaði sig ekki fyrr en alltof seint á því að einmitt þessar bækur höfðu kennt heilu kynslóðunum að lesa og elska bækur.

En þarna er ekki bara bókaútgáfum og höfundum um að kenna, við sem samfélag þurfum líka að átta okkur á því að sem örlítið málsamfélag þurfum við einfaldlega að kosta meiru til en stærri málsamfélög til að halda tungumálinu lifandi – og ein besta fjárfesting sem við gætum gert á því sviði væri að stækka og fjölga öllum bókmennta- og þýðingasjóðum og reyna að tryggja með því miklu meiri fjölbreytni, þannig að börn finni ekki bara skáldskap við hæfi, heldur líka bækur um fótbolta og bíómyndir og saumaskap og skrítin dýr og fatahönnun og myndlist og smíði og tónlist og umhverfismál og allt hitt sem þau eru forvitin um.

Því auðvitað leitarðu í ensku eða önnur mál ef það eru bara örfáar bækur um áhugamálið þitt á íslensku. Þú gerir það kannski alltaf á endanum, enskar bækur verða alltaf miklu fleiri en íslenskar, en ef þú ert búin/n að lesa tylft bóka á íslensku um efnið fyrst á móðurmálinu er það allt í lagi, þá geturðu einfaldlega talað og skrifað um áhugamálin þín á báðum málum og jafnvel miðlað fróðleiknum úr erlendu bókunum á íslensku til baka á einhvern hátt. En það verður erfiðara ef það eru engar bækur til að kenna þér íslenska orðaforðann.

En burtséð frá hvítum veggjum og bókasöfnum, hvernig er hægt að kveikja þessa forvitni í grunnskólunum? Ég held satt best að segja að það þurfi sjaldnast að kveikja hana, hún er til staðar af því við erum forvitin dýrategund að upplagi og við þurfum bara að hlúa að þessari forvitni.

Þess vegna þurfum við að auka og bæta allt val og opna skólakerfið upp á gátt og leyfa barninu að velja meira, því þá mun forvitnin ráða för. Og það er ekki sú ávísun á fábreytni sem menn gætu haldið, með því að sökkva sér í eitt áhugamál þá lærir maður ótrúlega margt um aðra hluti. Sjálfur hef ég til dæmis lært heilmikið í sagnfræði í gegnum nördalegan áhuga a fótbolta, bíómyndum og bókmenntum – já, og jafnvel bara í löngum göngutúrum. Af því ég slysaðist til þess að búa til Facebook-hóp um götuheiti og fór í kjölfarið að sjá að göturnar í borginni sem ég bý í vísa iðulega í söguna eða landafræðina og í flestum götum má finna platta á annars hversdagslegum húsum þar sem rifjaðir eru upp viðburðir eða fyrrum eigendur hússins – á endanum snýst þetta ekki um að lesa bækur, þetta snýst um að kunna að lesa heiminn sem við göngum um.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Pistillinn birtist upphaflega í Stundinni þann 11. mars 2021.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson