Heimildamaður Menningarsmyglsins hleraði fyrir tilviljun tal tveggja erlendra kvikmyndaframleiðanda á Klaustursbar haustið 2019. Heimildamaður taldi samt á þeim tíma að þetta væru bara tveir glaðsinna enskumælandi Miðflokksmenn sem hefðu fengið sér aðeins of hressilega af eldvatni staðarins. Þið vitið, meinleysisgrey ef þeim er ekki hleypt á þing.
En atburðir liðinna missera hafa sýnt fram á að svo var ekki og því borgaraleg skylda okkar að birta hér samtalið, þótt nöfnum hafi verið breytt að ósk lögfræðinga smyglsins. En hér fylgir sum sé samtalið neðangreint og neðst er myndbandsupptaka sem sannar að hér er ekki farið með neinar fleipur.
KLAUSTURBAR, september 2019.
Benny Bruckmeister og Frank Fordmeister sitja við háborð. Báðir eru íklæddir bleikum silkiskyrtum sem eru hnepptar frá, þannig að glittir í gullhálsmen og loðnar bringur í jöfnum hlutföllum. Við næsta borð er blaðamaður í rauðköflóttri skyrtu sem lætur lítið fyrir sér fara.
BENNY: Sko, ég sagði þér að við myndum hitta alvöru lókala hérna. Sjáðu bara, í einhverri rauðköflóttri peysu af afa sínum, nýskriðinn úr torfkofunum.
FRANK: Vá, ég sé hvað þú meinar. Pottþétt ekki einu sinni sjónvarp heima hjá þessum.
BENNY: Fáum heimilisfangið hjá honum, getum sent honum sjónvarp frá LA. Maður þarf nú að standa sig í charity maður!
FRANK: Nákvæmlega, svo hann geti horft á næstu bíómynd frá okkur!
BENNY: Akkúrat markhópurinn!
FRANK: Já, þú varst að draga mig hingað á rólegan bar til að pitcha næsta raunveruleikaþætti. Spill the beans maður.
BENNY: Nákvæmlega. Sko, raunveruleikasjónvarp er búið – nema við gerum eitthvað alvöru, eitthvað stórt. Þú veist, Truman Show stórt. Ekki bara þætti, við erum að tala um reality TV og bíómynd, allan pakkann!
FRANK: Ókei, svoleiðis kostar sko ansi margar kúlur – ég þarf skothelt pitch frá þér fyrir það.
BENNY: Þetta er alveg skothelt. Virkar langsótt, but hear me out.
FRANK: Roger that. Þjónn, tvo White Russians takk! Ef þú verður fljótur tvöfalda ég þjórféð! (hallar sér fram og hvíslar) Þessir rússnesku kommúnistaandskotar kunna kannski ekki að fara með peninga, en það er gott að drekka þá.
BENNY: Segðu maður. Samt, mafían þeirra kann nú alveg að græða – það þurfa allir að eiga sinn Igor á kantinum (glottir þannig að glittir á eina gulltönn).
FRANK: Rétt, rétt. En nóg um pólitík, spill the beans, hvað er plottið?
BENNY: Jú, sko – þetta byrjar allt í Kína. Upcoming markaður og allt það. Finnst svakaleg veira … stórhættuleg og bráðsmitandi.
FRANK: (geispar) Kommon, það er búið, maður. Sars og svínaflensan, úlfur, úlfur alla leið.
BENNY: Já, en núna kemst úlfurinn alla leið til Vesturlanda. Til Evrópu, til Ameríku – við erum að tala um svarta dauða, spænsku veikina – nema með nútímatvisti!
FRANK: Ókei, ég skil þig. Góð indíbíómynd en svona downer er ekki að fara að selja neina miða.
BENNY: Nei, ekki fyrr en ástandið verður svo alvarlegt að þeir verða að aflýsa Eurovision.
FRANK: Eurovision? Hvað í andskotanum ertu að tala um?
BENNY: Oh, þú hefur ekki verið nógu lengi hérna. Líttu á molbúann í rauðköflóttu skyrtunni. Ég skal alveg lofa þér því að þótt hann eigi ekki sjónvarp þá fer hann einu sinni á ári og horfir á Eurovision hjá ríka frænda sínum sem á eina sjónvarpið í sveitinni. Þetta eru fokking trúarbrögð hjá þessum þjóðflokki.
FRANK: Ókei, þetta eru greinilega enn meiri villimenn en ég hélt.
BENNY: Nákvæmlega, þeir myndu alveg fyrirgefa Trölla fyrir að stela jólunum, myndu sjálfsagt bara knúsa hann. En þeir myndu fokking stjaksetja hann á Austurvelli fyrir að stela Eurovision.
FRANK: Ókei …
BENNY: Já, og til að toppa allt þá hefði Ísland unnið þetta ár. Eru með langbesta lagið, þetta er eins og Red Sox myndu ekki vinna superbowl með besta lið sögunnar út af einhverri fokking veiru!
FRANK: Ókei, þetta er alveg spennandi – en þetta myndi samt bara dekka Evrópumarkað – það vantar allt Hollywood í þetta.
BENNY: Ég veit – en veistu, ég var með Will Ferrell í símanum áðan. Hann fokking elskar þessa keppni og er til í að gera hvað sem er til að vera með. Og svo föttuðum við það: búa til Eurovision Hollywood-mynd sem kemur út einmitt árið sem Eurovision er frestað.
FRANK: Jess, ég fíla þetta – elska Will – en samt, ég er náttúrulega kúltíveraður heimsmaður. Sem varð ríkur á að hugsa um the bottom dollar. Og bottom dollarinn er: af hverju er Joe redkneck í Kentucky að fara að sjá þessa mynd? Er þetta ekki alltof mikil meta-fiksjón?
(Frank sleikir út um þegar hann segir orðið. Eitt af þessum þremur orðum sem hann lærði þegar hann las fyrsta kaflann í The Screenwriter‘s Handbook sem ungur maður).
BENNY: Jú, bíddu – Will Ferrell og vinkona hennar eru líka frá Íslandi. Rachel McAdams er heit fyrir að leika gelluna. Og Pierce Brosnan er líka með, við erum með fokking James Bond á Íslandi!
FRANK: James Bond, já, ég get séð hvernig þetta virkar. Brosnan fær náttúrulega smá love interest á kantinum, er það ekki?
BENNY: Jú, auðvitað, veður í kellingum! En það er samt ekki málið, þetta endar á að þau vinna keppnina – eða svona óbeint, með því að syngja fallegasta lag í heimi, lag sem lætur engan ósnortinn, lag sem bræðir harðasta hjartað í Joe redneck, lagið eina – Húsavík!!!!
FRANK: Whosawhat???
BENNY: Húsavík, manstu maður, bærinn sem við fórum í hvalaskoðun í gær.
FRANK: Já, það búa sirka fimmtán manns þar. Þessir hvalir eru ekki að fara að kaupa bíómiða sko …
BENNY: Auðvitað ekki …
(tekur sér kúnstpásu, krotar í minnisbókina sína án þess að Frank sjái: „Viðskiptahugmynd 119: selja hvölum bíómiða“).
En sko, það er fílgúddið – það elska allir þetta lag. Líka Ameríkanar sem hafa aldrei heyrt um Júróvisjón. Það vinnur fokking Óskarinn!
FRANK: Ókei … ég er alveg heitur, en það vantar samt eitthvað. Gott plott, en okkur vantar einhvern risastóran Live Aid We Are the World fílgúdd endi á þetta svo þetta verði alvöru blokkböster.
BENNY: Ég veit nákvæmlega hvað þú ert að tala um. Þess vegna endum við aftur í Kína. Eða nei, of augljóst – Kóreu! Stærsti sjónvarpsþáttur Suður-Kóreu – og hvað er í sjónvarpinu?
FRANK: Gaur, hvað heldurðu að ég sé að horfa á kóreskt sjónvarp?
BENNY: Jú, fjórir föngulegir jakkafataklæddir menn. Ástmögrar kóresku þjóðarinnar, hetjutenórar, allir með tölu. Einn þeirra búinn að leika í Godzilla-mynd í Japan, snéri helvítis risaeðluna niður með berum höndum.
Og þeir eru allir langt, langt í burtu frá Húsavík. En þeir syngja lagið. Lagið sem sigraði heiminn. HÚSAVÍK!!! Á ensku, en líka á lýtalausri íslensku. Við sjáum wide shot af heimsbyggðinni, af fólki um allan heim að fallast í faðma eftir heilt ár af banvænum heimsfaraldri. Við sjáum hvernig Norður-Kóreubúar streyma yfir landamærin og landamæralögreglan gerir ekkert til að stöðva þá, þeir eru of hugfangnir af fegurð lagsins. Við sjáum æskuást hetjutenórsins til vinstri. Hann hafði flúið Norður-Kóreu, hann bað hana um að koma með. Hún veit að þegar hann syngur „Húsavík“ þá meinar hann Norður-Kóreu. Æskuslóðirnar, æskuástina. Við sjáum örstutt endurlit þar sem við sjáum sögu þeirra í svipmynd, ástina og aðskilnaðinn – og hún hefur loksins öðlast hugrekkið til að elta ástina suður.
Svo fer myndavélin yfir hafið. Hvalirnir dansa í höfninni á Húsavík, jafnvel þeir vita hvað er að gerast. Og svo endum við þetta á grátklökkri stúlku á Húsavík, manstu, þessi sem minnti mig á Ingrid Bergman og minnti þig á Marilyn Monroe. Hún er grátklökk og brosandi, þú sérð bara í augunum á henni að hún er búin að finna ástina sína aftur. Þú veist, myndarlega kóreubúann sem keypti tebolla af henni sumarið 2019, löngu fyrir heimsfaraldur. Þegar heimurinn var ennþá saklaus. Ég er að tala um þennan í miðjunni, þennan sem er með stjörnu yfir hjartanu. Hann var líka með stjörnuna yfir hjartanu þegar hann var á Húsavík. Hún spurði hann af hverju. Hann svaraði: „Því með hana rata ég alltaf heim.“ Og hún spurði: „Hvar er heima? Kórea?“ Og hann brosti leyndardómsfullur og sagði: „Já … eða kannski bara hérna, með þér.“
Hún man þessi orð og mun kaupa flugmiða til Kóreu um leið og lagið er búið, það þarf ekkert að segja áhorfendum það, þeir vita það allir. Svo kemur þessi lína: „Það eina sem ég þrái er að vera með þér.“ Hún syngur hana með þeim og allir áhorfendur vita að þetta er satt. Öll heimsbyggðin veit að þau munu ná saman og þetta mun allt enda vel og fólk mun geta farið að halda Eurovision aftur, af því fjórir gullfallegir kóreskir menn sungu heilan heimsfaraldur í burtu.
FRANK: (stígur upp, alvarlegur, brosandi)
Fokking snillingur. FOKKING SNILLINGUR! Var ég búinn að segja þér að ég fokking elska þig? Af því þú ert minn fokking snillingur. Við gerum þetta, we‘ll make it happen, ég skrifa allar ávísanir sem ég þarf að skrifa og svo pöntum við okkur annan White Russian og skálum á meðan við böðum okkur í peningatanknum okkar.
Spólum fram í tímann – árið er 2021 og heimsfaraldur geysar fyrir utan. En í lítilli herbergiskytru í Mið-Evrópu situr molbúi í rauðköflóttri skyrtu og horfir á Youtube í tölvunni sinni. Og sér fjóra fjallmyndarlega kóreska menn syngja Húsavík og veit að nú mun bráðum allt verða gott aftur.
THE END
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Haha 🙂