Titilpersónan í One Night in Miami birtist okkur ekki strax, fyrst erum við í dagsbirtu og leikstýran Regina King bregður upp stuttum skissum af öllum aðalpersónunum fjórum. Við sjáum Cassius Clay (Eli Goree) standa í ströngu í jöfnum boxbardaga á meðan Malcolm X (Kingsley Ben-Adir) býr sig undir pólitískt uppgjör, örþreyttur á pólitískum hráskinnaleikjum. Þessa tvo þekkjum við best í samtímanum, þeir hafa lifað af í söguvitundinni sem risar í baráttu amerískra blökkumanna um miðja síðustu öld.

Hinir tveir eru kannski ekki alveg jafn þekktir utan Ameríku nú til dags, sérstaklega ekki ameríska fótboltahetjan Jim Brown (Aldis Hodge). En þeir fá öllu eftirminnilegri skissur. Sam Cooke (Leslie Odom jr.) syngur fyrir vanþákkláta hvíta áhorfendur, þar sem snobbið lekur af þeim, og Brown fer í heimsókn til hvíts aðdáanda og meints fjölskylduvinar (Beau Bridges) – sem eftir kumpánalegt spjall með sódavatn á veröndinni gerir honum skýra grein fyrir að hann geti auðvitað ekki komið alla leið inní húsið.

Þeir standa allir á tímamótum. Brown veit að fótboltaferillinn er senn á enda, Malcolm X er að skipuleggja nýja fjöldahreyfingu, Sam Cooke er að íhuga pólitískari listsköpun og Cassius Clay er á barmi heimsmeistaratitils – sem og þess að ganga til liðs við Malcolm og taka upp nafnið sem hann gerði svo frægt; Muhammed Ali.

Kvöldið hefst svo í kjölfar þess að Clay / Ali verður heimsmeistari í fyrsta skipti. Þetta er upphafið hjá honum, en þótt þeir viti það ekki allir, þá nálgast endalokin hjá hinum.

Þessi fundur átti sér sannarlega stað – það voru eitthvað fleiri í herberginu sem hafa verið skrifaðir út úr sögunni, en aðalmálið er að þótt ófáir dálksentimetrar hafi verið skrifaður um þá alla er flest á huldu um þessa nótt, þannig að leikskáldið Kemp Powers, sem einnig semur handritið, og leikstýran Regina King hafa rækilegt skáldaleyfi. Þannig verður þetta túlkun á persónum fjórmenninganna, hvernig þær myndu haga sér í einmitt þessum aðstæðum.

Þetta eru goðsagnir í lifandi lífi, og enn frekar í dauðanum, þannig að þeir burðast alltaf með þá sögu með sér – en hér er sú saga til skiptis eins og kyrrlátur skuggi og þrúgandi byrði. Það mikilvægasta er þó að þetta litla herbergi gerir þá mannlega. Í myndum eins og Malcolm X og Ali eru þeir félagar alltaf risarnir á tjaldinu, það er nánast ákveðin krafa á leikarana að sýna þá sögulegu stærð sem þeir búa yfir og ákveðin ófullnægja sem fylgir því ef þeir eru ekki nógu stórir karakterar.

En í félagsskap annarra risa breytist sú dýnamík öll. Þeir eru auðvitað stórir hver á sinn hátt. Tveir eru miklir og kraftalegir íþróttamenn, Clay með æskuþróttinn og Brown með yfirvegun reynsluboltans. Malcolm er hávaxinn, tágrannur og víraður, Cooke er stubburinn í herberginu, en með stærstu röddina.

Þeir Brown og Cooke koma inní herbergið og búast ósjálfrátt við guðaveigum og fögrum fljóðum – þeir eru jú að fara að fagna heimsmeistaratitli með heimsmeistaranum sjálfum. Malcolm útskýrir rólega að hér sé hvorugt til staðar – en fer þess í stað í ísskápinn og nær í ís, helling af ís.

Strax þarna er byrjað að skerpa á muninum á vinunum fjórum – og Clay settur í erfiða stöðu; hann er við það að gerast múslimi og ganga Malcolm á hönd – ef svo er, þá er þetta framtíð hans. Ef hann ætlar að vera staðfastur í trúnni verða öll hans framtíðardjömm íspartí.

Malcolm er elstur þeirra fjögurra, sjálfskipaður leiðtogi – stóri bróðir – en samt stóri bróðir sem er við það að missa það, pressan á honum virðist nánast óbærileg, hann er með lífverði öllum stundum og finnur á sér að hann er feigur.

Það er ákveðin spenna á milli hans og Clay, Malcolm er lærifaðir hans en Clay sér bresti í brynju meistarans og er sjálfur óöruggur með skrefið sem hann er að fara að stíga. Eðilelega, þetta er risastórt skref.

Helstu átök myndarinnar eru endurteknar rimmur Malcolms og Sam Cooke. Malcolm vill að Sam hætti að syngja vemmileg lög til að geðjast hinum hvítu, Sam svarar því til að hann sé að gefa svörtum rödd, peningarnir fari í að byggja upp starf annarra svartra listamanna, hann er einfaldlega að nota aðrar aðferðir í baráttunni.

Svo spilar Malcolm „Blowin‘ in the Wind“ með Dylan fyrir þá, sem sönnun þess að pólitísk list geti líka verið vinsæl – og spyr hvernig hvítur strákur frá Minnesota sé að semja svona músík, sem lýsi þeirra reynslu betur en nokkuð sem Cooke er að syngja. Þetta er auðvitað ósanngjörn spurning; bæði af því hvít fátækt getur alveg getið af sér svona lag, rétt eins og svört, en ekki síður af því þegar athygli er náð kemur munurinn í ljós; Cooke veit fullvel að um leið og hvítur söngvari eins og Dylan er orðin frægur getur hann leyft sér að vera pólitískur og róttækur – svartur söngvari þarf að komast miklu lengra til að geta leyft sér slíkt.

Hann er samt að bræða það með sér, trúir Clay fyrir því, vill ekki láta Malcolm vita af því hann er að verja sína stöðu. Cooke er í þeirri stöðu að hann veit að hann getur sprengt upp eigin heim með róttæku lagi, svartir listamenn komast ákveðið langt með því að vera meinlausir skemmtikraftar – krafan frá hvítu peningamönnunum er að ögra ekki, krafan frá þeirra eigin samfélagi er þvert á móti sú að ögra. Þannig verður þetta í raun ágætis dæmisaga um listamanninn á öllum tímum; aðstæður eru bara óvenju skarpar í þessu tilfelli; fæst erum við að fá ráð frá Malcolm X á milli þess sem við syngjum ástarballöður.

Malcolm er um sumt óþolandi karakter í myndinni, frekur, hrokafullur og tilætlunarsamur. En um leið skynjar maður að hann er að bugast yfir pressunni, orðinn lífhræddur, hræddur um fjölskylduna, hræddur um að lífsstarfið fjari út í sandinn. Það er þessi blanda ákveðni og ótta sem gerir þessa útgáfu af Malcolm X heillandi; hún birtist okkur sem óútreiknanleg blanda af sjálfsöryggi og óöryggi manns sem örlögin eru að tæta í sundur.

Hinn hægláti Jim Brown er svo í raun bæði sáttasemjari og heimspekingur myndarinnar. Og hann býr til heilan heim, bara með þessum orðum sem hann segir kankvíslega við Malcolm:

„You know… I always find it kind of funny how you light-skinned cats end up being so damn militant.“ Bætir svo við, ítrekar: „When I think about who the most outspoken, consequences-be-damned brothers out there are, it’s always you light-skinned boys.“

Það er heill heimur í þessari litlu observasjón – og þótt ástæður mis-dökks litarafts blökkumanna séu margvíslegar þá þýðir það ósjaldan að þeir eiga greiðari aðgang að heimi hvíta mannsins – og alast ósjaldan upp í meira návígi við hann. Sem þýðir meðal annars betra aðgengi að hinni klassísku menntun – eða óformlegri menntun, sem var tilfellið með Malcolm að mestu. Það getur líka þýtt að á þá sé hlustað þegar þeir brýna raustina, að þeir tali betur mál hinna hvítu.

Allt þetta eru þó bara hugleiðingar sem fara um hausinn þegar Brown kastar þessu kæruleysislega fram – galdurinn við það að takmarka myndina að mestu við þann heim sem þessi eina nótt er fáum við örstutta leiftursýn inn í aðra heima, önnur kvöld sem þessir aldavinir áttu saman eða sitt í hverju lagi.

Þannig kjarnar myndin áratugalanga baráttu með því að sýna bara stutta svipmynd – og við vitum vel að það vantar ótal púsl, púsl sem myndin á sinn hátt hvetur áhorfendur til að leita uppi.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson