Stuttmyndaprógrömm þar sem eitt land er í fókus verða stundum eins og gluggi inn í sálarástand þjóðar. Ég hélt fyrst að Sprettfiskur ársins væri mögulega tilraunaeldhús í kóf-myndum, myndum sem þarf að taka upp heima og nota einfaldlega það sem er tiltækt, af því það átti ágætlega við tvær af fyrstu myndunum sem ég sá. Bussi/Baba er samsett úr stelpu við vegg og myndbrotum úr skjávarpa bak við hana og Animalia notar leikföng á heimili og þvottinn á þvottagrindinni til að búa til sögu. Hvorug tilraunin gengur almennilega upp þótt sú fyrri sé forvitnileg en hins vegar má finna allt önnur þemu í öðrum myndum Sprettfisks.
Þær mætti kannski flokka í þrjá flokka: myndir um börn, myndir um náttúru og myndir um ástina, með hressandi skammti af fjölmenningu sem er gaman að sjá meira af í íslenskum myndum.
Það eru tvöfalt fleiri myndir á Sprettfiski nú en í fyrra, sem er góð ákvörðun og slæm í senn, það er eitthvað gott við flestar þessar myndir en alltof fáar finnst manni fullkláraðar. Áhorfið er dálítið eins og að vera staddur í forvitnilegu tilraunaeldhúsi, sem er að mörgu leyti gaman.
Besta dæmið um þetta er Spagettí, mynd sem byrjar frábærlega, með líflegum og flottum kreditlista í byrjun sem kallast jafnt á við Saul Bass, meistara opnunaratriðana sem vann oft upphafssenurnar með Hitchcock, sem og frönsku nýbylgjuna, en myndin sjálf er æfing í sérviskulegri hasarmynd sem er býsna flott og býsna amatörleg, til skiptis.
Ástin er helsta þema tveggja mynda, límið í annarri þeirra en veikleiki hinnar. Jökull fjallar um strák sem endar á geðdeild eftir sjálfsmorðstilraun og þótt heimur geðdeildarinnar nái manni ekki alveg þegar við þvælumst þar um ganga er ástarsaga vistmannana Jökuls og Kötlu undurfalleg, uppfull af berskjaldaðri nánd sem er snúið að fanga í bíó.
Þetta ætti að batna er hins vegar um sambandsslit og sá angi myndarinnar dregur hana niður, sem og stöku dramatískar senur. Þess á milli er þetta fantavel leikið unglingadrama með hreint frábærum og sannfærandi slangurslegum díalóg. Maður trúir þessum krökkum, sem er ekki svo auðveldur galdur að ná í unglingamyndum. Myndin virkar mun betur sem brómans en rómans, og í ofanálag er gaman að sjá svona skemmtilega úthverfastemmningu í íslensku bíói.
Tveir fyrrverandi sigurvegarar Sprettfisks mæta með mynd á hátíðina, þau Ninna Pálmadóttir með Allir hundar deyja og Brúsi Ólason með Dalíu.
Þessar myndir eru fagmennlegri úr garði gerðar en flestar hinar. Tæknivinna og leikur hnökralaus, en því miður eru báðar dálítið klisjukenndar náttúrumyndir um bælda bóndann og afkvæmi hans. Allir hundar deyja er á köflum nánast eins og endurgerð á Eldfjalli, því þótt sögusviðið sé annað leikur Theódór Júlíusson nánast sama karakterinn. Nýjar aðstæður kalla þó fram nýjar víddir, um speglun manns í dýrum, viðkvæmni karla gagnvart eigin heilsubrestum og sambandinu við barnabarnið. Speglunin við dýrin er líka styrkleikur Dalíu, myndar sem heitir eftir hryssunni sem þarf kannski að lóga. Í báðum myndum varpa dýrin ljósi á manneskjurnar, en manneskjurnar hefðu samt mátt vera aðeins frumlegri. Ungur sonurinn í Dalíu er þó kannski forvitnilegasta persónan, hálfundrandi á þessu sveitabrölti pabbans, og þrjár af bestu myndum prógrammsins fjalla einmitt um börn, oft með smá fjölmennigarívafi.
Blindhæð nær því miður ekki að fylla þann flokk. Þetta er saga um móður sem týnir barni í Sundhöllinni og er efni í prýðilegan hversdagshrylling, sem er bara ekki unnið nógu vel úr.
Lífið á eyjunni fjallar hins vegar um tvo stráka sem finna sig í að stofna saman hljómsveit í litlum bæ úti á landi. Sveitastrákurinn er með heimagert trommusett, strákurinn úr bænum, sem er þarna í sumarfríi, mætir með bassa. Undirliggjandi eru námsörðugleikar trommuleikarans, sem birtast manni í því hvernig skólinn er honum sem kafkaísk martröð. Hann vill bara spila á trommur. Þessi martröð fyllir hversdaginn hans algjörlega þegar sumri líkur og vinátta sumarsins tekur rútuna suður. Vinskapur strákana er hins vegar yndislega blátt áfram og það er aldrei neitt gert úr því að aðkomustrákurinn er dökkur á hörund, það virkilega þarf að sýna það reglulega, svipmyndir af vináttu þar sem uppruni skiptir ekki máli.
En stundum flækist hann fyrir og það þarf að sýna það líka. Milli tungls og jarðar fjallar um pólska fjölskyldu sem er bæði utanveltu og týnd, bæði af því það gengur illa að aðlagast og vegna þess að eldri bróðirinn er týndur. Það er mögulega vísun í hvernig nýlegt mannshvarf innflytjenda fékk engan veginn sömu athygli íslensku pressunnar og íslensks almennings og íslensk mannshvörf.
Þetta er fjölskyldudrama sem er þó borið upp af stráknum Patryk, sem Ivo Egill Macunga Árnason leikur, og er bestur af mörgum flottum barnaleikurum í prógramminu. Hann er beittur einelti sem er sárt og óþægilegt á að horfa og virðist jafn týndur heima hjá sér. Þetta væri mögulega uppáhaldsmyndin mín ef tónlistin væri ekki svona á skjön. Hún er alls ekki vond en eins og úr allt annarri og dramatískari mynd, hefði mátt vera mörgum tónum lágstemmdari.
Mánudagur fjallar líka um samskipti pólskra og íslenskra barna en á skemmtilegan hátt færist fókus myndarinnar þegar á líður frá börnunum yfir á starfsfólkið í Austurbæjarskóla, nánar tiltekið frekar óöruggan íslenskan afleysingakennara og pólskan skólaliða, sem er líka móðir einnar stúlkunnar. Það er vísir af rómans, en þó bara það. Það gæti vel orðið rómans eftir kreditlistann, en eins gæti þetta líka bara verið augnablik sem rann svo úr greipum. Það besta er þó örstutt sena þar sem nýi kennarinn þarf að glíma við grimm og manipúlerandi börn. Vonlausi kennarinn er auðvitað klassísk persóna en alltof sjaldan sýndur með smá samkennd og skilningi.
En loks, að bestu myndinni. Hún fellur ekki í neinn þessara flokka, er einfaldlega alveg einstök eða allavega alltof sjaldgæft dæmi um fantavel gerða brúðuhreyfimynd á íslensku, það sem á ensku kallast stop motion animation. Hún heitir Eldhús eftir máli og er byggð á samnefndri sögu Svövu Jakobsdóttur. Persónurnar eru menn með fuglsgogg, hvað sem ætti að kalla slíkar skepnur, goggmenni kannski, og það er sérstaklega gaman að sjá Boga Ágústsson sem slíka brúðu á sjónvarpsskjánum. Aðalpersónan er þó hugvitsamt karldýr sem tekur eftir basli konu sinnar í eldhúsinu og fær þá snilldarhugmynd að búa til splunkunýtt eldhús handa henni, eldhús sem smellpassar henni að öllu leyti. Það sem þessu hugvitssama karldýri dettur þó auðvitað aldrei í hug er að einfaldlega spyrja konuna, eða jafnvel hjálpa til í eldhúsinu.
Saga Svövu er snjöll og einföld en galdurinn er þó fyrst og fremst þær einkennilega kunnuglegu furðuverur sem leikstjórarnir Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir og Atli Arnarsson skapa. Svo er bara að vona að þetta verði kveikjan að íslensku brúðumyndavori.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Pistillinn var upphaflega fluttur í Lestinni á Rás 1 þann 26. maí 2021.