Það er gaman að sjá gamlar músík-kempur koma með eitthvað splunkunýtt eftir langt hlé – og nýtt lag þeirra Kig & Husk fellur rækilega undir slík skemmtilegheit. Kig er væntanlega Frank Hall, þekktastur fyrir að spila með Ske, af því Husk er augljóslega Höskuldur Ólafsson úr Quarashi – sem einnig var með Frank í Ske um tíma.
Frank hefur auk þess samið kvikmyndatónlist og fyrsta smáskífa sveitarinnar fellur í raun undir þá skilgreiningu; magnað myndbandið er klippt út úr ýmsum gömlum svart-hvítum bíómyndum – þeir eru að leika sér að þemum, geimferðum, kossum og dönsum helst, með smá heimstyrjöld með. Heimsstyrjöldin, tunglið, dans og (s)leikir, þetta er kokteillinn sem birtist okkur við orðin sixty-four, 64 er endurtekið, aftur og aftur – þau eru 64 að eilífu, aldrei meira en 64.
Á meðan sjáum við ungt fólk sem er auðvitað ekki ungt lengur, flest ef ekki öll látin núna. Kannski er þetta uppfærsla af Logan‘s Run, þar sem öllum var fórnað um þrítugt, nú fáum við að vera með lengur, en samt ekki að eilífu, þetta er áminning um að 64 ára eru þau allra elstu í mörgum bíómyndum – 64 eru efri mörkin, eftir það fáum við engin popplög. Það syngur enginn um sweet 76.
Þannig er eins og lagið kjarni einhvern veginn þá tilfinningu að horfa á gamlar bíómyndir og ljósmyndir af ungu fólki sem er löngu hætt að vera ungt, æska sem er orðin að elli eða jafnvel dauða. Eins og þegar maður er unglingur og uppgötvar svart-hvítar bíómyndir fyrst fyrir alvöru og fattar svo að bíóstjarnan sem maður varð svona skotinn í er nýlátin í hárri elli.
En nóg um Ingrid Bergman í bili. Skoðum titilinn aðeins líka. Titill lagsins, So Long Holly, er vísun í lokaorð ræðu Harry Lime, sem Orson Welles skrifaði sjálfur og flutti í Þriðja manninum, sælla minninga.
Þið þekkið þetta, Gauksklukkan og allt það. Ef ekki, þá er mórölsk skylda ykkar að horfa á myndbrotið fyrir neðan og þylja með ræðu Welles, sem vel að merkja var samin löngu áður en Svisslendingar slóu heimsmeistara Frakka út úr EM.
Holly er sá hrekklausi í senunni, Lime er að stela sakleysi hans; So, Long Holly!
Það er þó rétt að árétta eitt; gallinn við ræðuna er kannski hve mjög hún hefur dregið athyglina frá því hversu magnað listaverk Þriðji maðurinn er – og væri enn, jafnvel þótt ræðan væri klippt út.
Ótrúleg og seiðandi myndatakan, tálkvendið Alida Valli, ógleymanleg tónlist Anton Karas, hin glæpsamlega vanmnetni Joseph Cotton sem Holly, en ekki síst þessi heimur rétt eftir stríðið. Þetta er ein af alltof fáum myndum sem horfa til þessara hálf-gleymdu ára, fyrstu áranna eftir stríðið, þegar allt var enn í rúst, fágaða baby boomer gullöldin sem hófst á sjötta áratugnum er ekki brostin á enn, þegar veröldin varð skyndilega í litríkum Technicolor.
En eins má velta fyrir sér betur kenningunni sjálfri – þýðir þetta að ódauðleg listaverk séu að fara að fæðast eftir kófið? Það má líka velta fyrir sér hversu miklum erfiðleikum þjóðir eru vanar – listamenn finna á endanum sínar leiðir í góðæri, en búandi í gömlu Austur-Evrópu skynjar maður dálítið að það er ekki alltaf auðvelt að finna rétta farveginn fyrir sköpunina þegar ritskoðunin hverfur, þegar hægt er að segja hvað sem er og enginn er líklegur til að ljósrita verkin þín og dreifa þeim ólöglega yfir næstu landamæri eða á reykmettuðum neðanjarðarknæpum.
Það eru líka uppi ansi merkilegar kenningar um hver þessi Harry Lime sé eiginlega, fyrir hvað hann standi. Ein sú forvitnilegri er reifuð í myndasögunni The Prague Coup – sem er ekki sérstaklega lýsandi nafn, aðeins bláendirinn gerist í Prag, myndin fjallar fyrst og fremst um Graham Greene, þar sem hann sankar að sér efnivið í Vín eftirstríðsáranna fyrir kvikmyndahandritið sem hann er að fara að skrifa.
Nema hvað, Greene þekkti Harry Lime vel – hann sjálfur er Holly sögunnar, en það má eiginlega fullyrða að eingöngu bíó-sjálf hans hafi breytt rétt, ef kenningin er rétt.
Greene var nefnilega njósnari áður en hann gerðist rithöfundur. Þetta vita flestir bókanirðir svosem. En það sem færri vita kannski er að lærimeistari hans í njósnafræðunum var tungulipur og sjarmerandi njósnari – sjálfur Kim Philby, sem reyndist svo einhver alræmdasti svikari styrjaldarinnar. Hann var gagnnjósnari fyrir Sovétmenn, og svo ummunað um að Rauði herinn næði góðri sigurgöngu og næði að frelsa Evrópu að ýmsir telja að honum hafi tekist að tefja endalok stríðsins um heilt ár, til þess eins að Rauði herinn gæti verið í hlutverki frelsaranna í að minnsta kosti helmingi Evrópu.
Greene hefði mögulega getað breytt rétt og hjálpað til við að framselja Kirby – en ólíkt Holly var hann of trúr sínum gamla félaga, tók vináttuna fram yfir – sveik þjóð frekar en vináttuna. „Hann sveik þjóð sína.“ Já, en hver okkar hefur ekki svikið eitthvað eða einhvern mikilvægari en þjóð?“ skrifaði Greene í formála að ævisögu Philby.
Eitthvað sem væri sannarlega réttlætanlegt í einhverjum tilfellum – ef þetta hefði verið aðeins manneskjulegri kommúnismi og ef þetta hefði ekki kostað aukaár af stríði.
Það má annars lesa nánar um þessa bók sem og aðrar myndasögur í myndasögu-fjórleik sem ég gerði fyrir Lestina um árið. Á meðan þið hlustið á kveðjuna til Holly og hið eilífa 64.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson