Þetta byrjaði svona: allir sjónvarpsþættir þurfa sína þematónlist. Og einhvern veginn æxlaðist það þannig að við heyrðum í Carl Warwick, breskum raftónlistarmanni sem við höfum margoft spilað með og flutt ljóð með, „við“ verandi ég og Darrell og aðrir meðlimir fjöllistahópsins Urban Space Epics – list í borgarlandslagi, hugarfóstur Darrells sem við höfum ófá troðið upp með víðsvegar um Prag-borg. Og myndin hérna efst er einmitt af Carli á einni uppákomum hópsins.

En allavega, fyrstu uppköstin lofuðu góðu – en hann var að leika sér með raddir, sína rödd – og það var á ensku, sem var ekki alveg að virka fyrir íslenska ljóðahátíð. Það breytti í raun litlu þegar við prófuðum að biðja hann um að bulla – bullið er samt alltaf með rætur í þínu eigin tungumáli, allavega þangað til þú finnur upp nýtt.

Þannig að ég ákvað að ég þyrfti bara að finna íslenska rödd – og til að flækja málin ekki um of (þessi hátíð var orðin nógu flókin í framkvæmd þá þegar) ákvað ég að redda því sjálfur. En mig langaði ekki að lesa eigið efni, fannst það ekki passa – og hugsaði með mér að eina vitið væri að fara í forneskjuna, finna forn kvæði sem myndu þýðast vel með rafrænum nútíma tónum. Sem þýddi auðvitað Völuspá. Sól tér sortna, þið þekkið þetta.

Örfáum erindum seinna varð þetta svo til – verkið er Carls, hann spilar mig afturábak og fram og finnur tónlist sem virkar einhvern veginn með ólíkusta myndefni.

Þess vegna gátum við notað það með alls kyns mismunandi inngangsatriðum og kreditsenum – og þess vegna lenti ég í valkvíða með tónlistarmyndbandið og ákvað að birta bara tvö.

Það fyrra er tekið í göngum undir Vitkov-hæð, þar sem Object: Paradise voru með eina fyrstu ljóðadagskrána sem fram fór um sumarið á milli bylgja – og það seinna er tekið í Erbil, höfuðborg hins kúrdneska hluta Írak, þar sem ungur herramaður og nokkrar dúfur voru búnar að læra dansinn við lagið hans Carls löngu áður en það varð til.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson