Venjulega eru það góðu myndirnar sem fá framhöld. Góðar á Hollywood-mælikvarða, allavega. En þegar fyrsta myndin er algjört lestarslys eru kannski helst tvær leiðir færar – að byrja alveg upp á nýtt, láta eins og fyrsta myndin sé ekki til – eða byrja mynd númer tvö með því að drepa flestalla sem komu við sögu í fyrstu myndinni. Og bæta við ákveðnum greini.

The Suicide Squad gerir það seinna – sýnist mér. Þeir sleppa að vísu alveg Jókernum og leyfa Harley Quinn að lifa af, enda Harley Quinn langbesti karakter fyrstu myndarinnar og Jóker Jared Leto einhver mest óþolandi óskapnaður kvikmyndasögunnar sem ratað hefur á hvíta tjaldað. Ég er ekki alveg viss með hinar persónur fyrri myndarinnar – þær voru flestar auðgleymdar, en jú, mér sýnist nokkrum þeirra vera slátrað á ströndum karabísku eyjunnar Corto Maltese sem myndin gerist að mestu á.

Suicide Squad (án greinis) er náttúrulega lang-, langversti hroðbjóður sem komið hefur út í ofurhetjumyndum síðustu ára, sem gerir hlutverk James Gunn leikstjóra þeirrar nýju bæði einfalt og flókið; það er einfalt mál að gera skárri mynd en þá fyrstu – en flóknara mál að gera hana nógu góða til að þvo velgjubragðið úr munni áhorfenda eftir þá fyrri. Sannfæra okkur um að það sé í alvörunni þess virði að hanga með þessu liði í aðra tvo klukkutíma.

En hvernig tekst til? Jú, ágætlega. Hér má finna ótal stóra galla – en James Gunn er skemmtilegur leikstjóri, öðru fremur. Jafnvel þegar brandararnir eru ekki góðir þá kímir maður af b-mynda sannfæringunni, og svo er hann örlítið líkur Guillermo del Toro að því leyti að á svipaðan hátt og styrkleiki del Toro er að finna fegurðina í skrímslunum er styrkleiki Gunn að finna fegurðina í b-mynda kitsinu. Sumar af kjánalegustu ofurhetjum og skúrkum kvikmyndasögunnar virka á einhvern einkennilegan hátt í höndunum á honum. Tja, flestar – sumar eru einfaldlega of kjánalegar. Meira um það síðar.

En byrjum aftur á sjálfri byrjuninni. Við hittum fyrir Villimanninn – Savant – í fangelsi. Við sjáum hann drepa smáfugl með skopparabolta. Merkilegt nokk er þetta eitt af fáum dæmum myndarinnar um afgerandi illsku ofurskúrkanna sem mynda þetta ofurskúrkateymi – og enn merkilegra er að hann er sá eini af þeim sem deyja í byrjun myndar sem maður er ekki alveg sama um.

Þau eru öll tálbeitur – þótt þau viti það ekki sjálf. Nafnið Sjálfsmorðssveitin verður óþægilega bókstaflegt í þeirra tilfelli. En hið raunverulega gengi myndarinnar er á sama tíma að komast í land hinum megin á eyjunni.

Og þau eru á mála hjá Amöndu, erindreka Bandaríkjastjórnar hvers ofurkraftar eru helst þeir hvað hún er óforskömmuð og grimm. Viola Davis túlkar hana frábærlega – enda var hún ásamt Margot Robbie sem Harley Quinn eitt af því fáa góða við fyrri myndina. Hún mútar föngum með styttingu á refsingu gegn því að gera skítverkin fyrir hana, svikum er hins vegar refsað fyrir með bókstaflegri dauðarefsingu; þau eru öll með fjarstýrðan sprengikubb ígræddan í sig.

Sú staðreynd að þetta virðast upp til hópa vænstu grey er kannski lúmsk ádeila á fangelsiskerfi Bandaríkjanna – en það hefði samt alveg mátt fara gruggugri millileið, finna illskuna í þeim sem og gæskuna – og auðvitað eru þau misgóð, sumir alvöru sakleysingjar, aðrir kolbrjálaðir sýkópatar, þótt þeir eigi sínar góðu hliðar.

Þau eru sömuleiðis mjög misáhugaverðar persónur. Sálina í myndinni má finna í Idris Elba og Rottufangaranum, góðum sálum sem enduðu á villigötum. Persóna Idris Elba heitir vel að merkja eitthvað annað – Bloodsport eða Robert DuBois segir internetið mér, en það skiptir ekki máli – þetta er einfaldlega Idris Elba að bera heila stórmynd á herðum sér og sýna og sanna að gamaldags bíóstjörnur eru ennþá til, þótt þróun Hollywood síðustu ár hafi orðið til þess að þeim hafi fækkað töluvert.

Rottufangarinn er hins vegar bæði mergjaður karakter, sem og fantavel leikin af Danielu Melchior. Þetta er stelpa sem þú heldur með frá fyrsta ramma – og ofurkraftarnir hennar eru alls ekki kjánalegir eins og ofurkraftar sumra hinna, þótt þeir hljómi kannski þannig. Hún er rottudrottningin, getur látið rottur ræsisins gera hvað sem hún biður þær um – og myndin finnur einmitt fegurðina í því, bæði í hasaratriðum þar sem loðnir vinir bjarga hetjunum en líka þegar rotturnar halda hita á henni og pabbanum, hinum upprunalega Rottufangara. Hún er nefnilega tæknilega séð Rottufangarinn 2. Þau eru frá Lissabon og endurlitin þangað eru með bestu senum myndarinnar – DC-menn gætu gert margt vitlausara en að gera næst einfaldlega mynd um þau feðgin. Kannski bara láta pabbann leikstýra, hann er jú leikinn af Taika Waititi og þetta tikkar í öll hans box sem leikstjóra.

Svo er snjalla ljóskan Harley Quinn, sem er fulltrúi kaosins og gleymskunnar. Þetta er heillandi persóna af því hún tekur ljóskuklisjurnar alla leið – og jafnvel aðeins of langt – en snýr síðan upp á þær, snýr þeim jafnvel á hvolf. Hún er auðvitað fyrrum unnusta Jókersins og er byrjuð að læra hvernig á að átta sig á óheppilegum kærustum – það kemur sjálfsagt í ljós í næstu myndum hvort hún fer að pæla í skárri kónum seinna meir.

Svo er Hákarlinn ógurlegi – og fámáli, þannig að Sylvester Stallone þurfti ekki mikið að hafa fyrir raddsetningunni. Hákarlinn er skemmtilegur – og á nokkur yndisleg augnablik; þegar hann dansar við krúttfiskana, þegar hann borðar mann og annan – en persónusköpun hans er samt á endanum hálfköruð. En það er samt ekki stórmál, það er bara gaman að hafa blóðþyrstan hákarl á þurru landi.

Hinn helmingur teymisins er hins vegar misheppnaðri. Polka-Dot-Man er einfaldlega of kjánalegur ofurskúrkur til að virka – og í ofanálag er persónan gerð að þreytandi vælukjóa, vel meinandi og einstöku sinnum fyndnum, en oftar þreytandi.

Svo eru sterakögglar myndarinnar, þeir Rick Flag og Peacemaker. Þeir eru nánast eins og tvær hliðar á sama Captain America peningnum, þjóðernissinnaðir og skylduræknir báðir – en annar snarbilaður og spilltur, hinn tilbúin til að afhjúpa eigin stjórnvöld ef þau ganga of langt.

Þetta er ágætis upplegg; vandinn er bara tvíþættur – þeir eru of líkir og alpha-karla barátta myndarinnar er megnið af myndinni á milli Idris Elba og Peacemaker – lykilsena á milli þeirra tveggja er einfaldlega ekki undirbyggð nógu vel, við áttum okkur ekki nógu vel á dýnamík þeirrar senu fyrr en eftir á, af því fram að henni voru báðir óræðar persónur fyrir okkur að mestu.

Stjörnufiskurinn ógurlegi

En nóg um persónur og leikendur í bili; hvert er erindið? Jú, þeir eru mættir á eyjuna Corto Maltese, sem er uppditkuð eyja (tekin upp í Panama að mestu) í Karíbahafinu. Þar þurfa þeir að stöðva tilraunir vafasamrar ríkisstjórnar. Þær fara fram í rammgirtum Jötunheimum – og ég pínu erfitt með að fyrirgefa þessa vísun í norrænu goðafræðina sem meikar akkúrat engan sens, þetta er svona vísun sem stendur alein úti á túni. En þar eru þeir að þróa stórhættulegan geimverustjörnufisk sem getur stýrt hugsunum fólks. Hvað annað? Meira um hann síðar.

En það er ýmislegt að gerast á þessari eyju – og það er alger lykilsena snemma í myndinni – og nú fyrst er rétt að kalla Höskuldarviðvörun fyrir þá sem eiga eftir að fara í bíó:

Undantekning þess að aðalpersónurnar virki sjaldnast neitt sérstaklega illar er þegar þær drepa, þá eru þær stundum ansi sadískar í tilburðum sínum. Og þetta er sannarlega blóðug mynd. En oftast á passlega teiknimyndalegan hátt, skiljanlega. Þangað til aðalpersónurnar koma í lítið þorp – og slátra öllum. Þetta eru hversdagslegir þorpsbúar – það er í alvörunni sárt að horfa á þá deyja. En svo kemur í ljós að það var líka óþarfi. Þeir eru fulltrúar uppreisnarmannana – samherjar þeirra gegn gerspilltri ríkisstjórninni. Sú frábæra leikkona Alice Braga fær vissulega alltof lítið að gera sem leiðtogi uppreisnarmannana – en þarna byrjar hægt og rólega að koma almennilega í ljós að þessi barátta er aðeins flóknari en þau grunaði.

Þetta er einfaldlega mynd um heimsvaldastefnu Ameríkana; hvernig þeir eru eins og fílar í postulínsbúð, þykjast kannski ætla að bjarga fólki en eru iðullega bara að reyna að þrífa upp eigin skít áður en honum skolar á Ameríkustrendur.

Þessi barátta er borin upp af sýkópötum og vel meinandi klunnum í bland – en skilningsleysi þeirra og skeytingarleysi um löndin sem þeir eru að „bjarga“ er himinhrópandi. Og sú hugmynd að fangelsi séu góð vinnumálastofnun til að finna málaliða framtíðarinnar er eitthvað sem ISIS og Al kaída-liðar heimsins kunna jafnvel og Amanda forstjóri Sjálfsmorðssveitanna.

Þannig er Corte Maltese í raun kannski helst Kúba, eyjan sem er eins og furðulegur spéspegill á Ameríku – bæði höfuðóvinur og um leið staðurinn sem þeir nota fyrir sínar vafasömustu tilraunir. En líka gervöll Suður-Ameríka, með allar sínar amerísku íhlutanir og byltingar og gagnbyltingar sem stjórnað var frá Washington. Líka Afganistan og Írak og fleiri lönd hins íslamska heims. Og klaufaskapurinn er svo yfirþyrmandi að Britney Spears orðaði það best: Oops, I did it again.

Heima við eru þó örfá merki um að ástandið gæti batnað – aumir undirsátar Violu Davis gera óvænta uppreisn gegn henni á ögurstundu um leið og ofurskúrkasveitin okkar átta sig á hver hin raunverulegi ofurskúrkur er.

En auðvitað sleppur skrímslið. Hinn áðurnefndi og ógurlegi geimverustjörnufiskur sem getur stýrt hugsunum fólks. Og já, hann er alveg jafn kjánalegur og hann hljómar – og rúmlega það. Hann heitir Starro – það kemur í ljós þegar kaflaskiltið Suicide Squad vs. Starro kemur á skjáinn bak við þau, hér er farið alla leið í kitsinu.

En það einkennilega er að hann verður hægt og rólega líka óhugnanlegur. Hann minnti mig hálfpartinn á veiklulega öryggisvörðinn sem vann einu sinni í kjörbúð sem ég sótti reglulega. Öryggisvarðajakkafötin héngu utan á honum, voru nokkrum númerum of stór. En samt var maður miklu hræddari við hann en beljakana sem mönnuðu hinar vaktirnar; það væri hreinlega þyngra en tárum tæki að láta þessa písl hafa mann undir.

Starro er ekki ósvipaður að þessu leyti – svo kjánalegt skrímsli að það er skelfileg tilhugsun að verða niðurlægður af því. Að vera drepinn af ofvöxnum stjörnufisk. En svo eru ofurkraftar hans líka þeir að kasta ásjónu sinni (minni útgáfunni) í andlitið á fólki og gera það þar með að þrælum sínum, hann breytir almúga götunnar í uppvakninga – og að sumu leyti kallast ofurkraftar hans á við Rottufangarann okkar. En það gerir massann sem ræðst gegn hetjunum öllu mennskari en í flestum öðrum ofurhetjumyndum; þetta eru ekki geimverur sem líta allar eins út, heldur íbúar eyjunnar sem við vorum búin að fá nógu mikla nasasjón af til að halda aðeins með. Þótt þau séu í raun látin núna – þegar þú ert orðin eins og stjörnufiskur í framan er þitt mennska sjálf horfið.

Og einmitt þá kemur Ameríkaninn og skýtur þig. Ef hann er ekki búinn að því þá þegar.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson