Ah, Karlovy Vary, hvað ég hef saknað þín! Ég hélt upp á afmælið með því að fara á kvikmyndahátíð í fyrsta skipti í meira en ár og til Karlovy Vary í fyrsta skipti í meira en tvö ár – og þetta gerðist allt fyrir sléttum tveim vikum – þetta er Karlovy Vary á plúsnum, með einstaka spilliefni inn á milli um framtíðina sem nú er liðin.

Lestarferðin var nett dramatísk af því lestin var sein og ég átti afar tæpa skiptingu í Cheb, það tæpa að ég náði að banka á hurðina fyrir framan lestarvörðin þegar lestin var búin að þoka sér meter áfram á sporinu.

En allavega, ég komst á leiðarenda og hér getið þið séð kennileitin sem ég notaði til að muna hvert ég ætti að beygja upp – enda miðbærinn vitaskuld stútfullur af manndrápsbrekkum.

Seinna fann ég að vísu leynibrekku sem stytti leiðina á Hótel Thermal um nokkrar mínútur – og með leynibrekku meina ég brekku sem Google Maps vissi ekki um. Er maður þá ekki að vinna internetið?

Seinna snéri ég nokkrum sinnum aftur á herra Google – eitthvað sem gerist aldrei í Prag, þeir eru ekki alveg jafn duglegir að kortleggja dreifbýlið og höfuðborgirnar. Svo þurfti ég að skella mér í Covid-próf – það passaði best að gera það fyrsta daginn, enda ellefu dagar frá því ég fékk sprautu númer tvö og prófið og bólusetningarpassinn náðu í sameiningu að duga til að fá svarta armbandið – svo var hvítt, merkt dagsetningu, fyrir þá sem voru bara með próf.

Ég þurfti svo aðeins að erindast út fyrir hátíðarsvæðið og sá þá þessar gullfallegu veggskreytingar – sem voru auðvitað fyrir ölkelduvatn, enda einn fárra tékkneskra bæja sem er frægari fyrir vatn en bjór. Það er samt nóg af hvoru tveggja hérna. Fyrir utan að þetta er upprunalegur heimabær Becherovku.

En allavega – hér verða afgreiddar 21 bíómynd – mest á smyglinu en nokkrar á RÚV, sem verður þá vitaskult tengt hingað inn. Og hver veit nema ég hendi í nokkra svona útúrdúra í viðbót.

Það sem gerir Vary samt svona yndislega hátíð er fólkið. Hún er ekki jafn dreifð og til dæmis Berlinale, hér hittast allir á sama barnum – Terrace-barnum sem er eins og félagsheimili Evrópskra kvikmyndaskríbenta, og helvíti var gott að hitta Harri, Stu, Hege, Laurence, Carmen, Susanne, Max, Vladan, Önu, Marcus, Mörtu og Will aftur. Sérstaklega í afmælisbjóra og afmælisbekku.

En næst; 21 bíómynd!

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson