Við erum stödd í útjaðri Jakarta. Þar vinna þær Maya og Dina við að innheimta vegatoll – þegar æstur maður ræðst skyndilega að Mayu með sveðju. Hún lifir árásina af, en kemst að því að árásarmaðurinn er frá smábæ nokkrum – og kemst svo að því að hún er sjálf frá sama bæ, saga sem foreldrar hennar höfðu passað sig að segja henni ekki frá.

Þar virðist fjölskyldan ennþá eiga fasteign – mikið og stórt draugahús – og Maya fær því Dinu vinkonu sína með sér að kanna málið.

Fyrir utan þessa svakalegu blábyrjun þá er indónesíska hryllingsmyndin Bölvunarbær (Perempuan Tanah Jahanam) í raun frekar róleg og lágstemmd – fyrri hlutann. Það eru gullfalegar senur í skóginum og smáþorpinu sem þær ferðast til – og stigvaxandi ógn, sem framan af virkar ekkert sérlega sannfærandi. En það er einfaldlega bara nógu gaman að virða fyrir sér þennan fallega framandleika hinum megin á hnettinum til að halda sér við efnið – og svo er Tara Basro fjandi góð í aðalhlutverkinu, heldur alltaf athygli, jafnvel þótt hún sé ekki að gera neitt merkilegt.

Það byggist upp ákveðin Deliverance stemmning – í þessu þorpi virðast allir afskaplega skeptískir á ókunnuga – og bráðum byrja þær að heyra af dularfullri bölvun. Þær heimsækja kirkjugarð sem er í raun bara barnakirkjugarður og þarna fæðast að virðist öll börn húðlaus, eitthvað sem enski titilinn, Impetigore, vísar í – en hann er blanda af nafni húðsjúkdómsins impetigo (sem er allavega svipaður þeim í myndinni) og gore.

Það er svo í seinni hluta myndarinnar sem fjandinn verður laus og þorpsbúar nánast allir trylltir – fyrir utan einn bandamann sem Maya finnur á meðal þeirra. Seinni hluta myndarinnar er þetta svo helvíti spennandi og dáleiðandi hryllingsmynd, ef frá er talin nauðsynlegur en hálf klaufalegur endurlitskafli, sem og óþarflega klénn bláendir myndarinnar.

Það forvitnilegasta eru samt allar þessar undirliggjandi goðsagnir, sem eru framandi en kunnuglegar um leið, eins og goðsagnir verða yfirleitt þegar þær hafa ferðast með hvísluleik í kringum gervallann hnöttinn. Þetta er hálfgerður bræðingur af gólemnum og raðmorðingjanum Buffalo Bill í Lömbin þagna – ef við hugsum okkur góleminn sem unga indónesíska stúlku. Eins kemur í ljós að hún er að borga fyrir syndir feðranna – sem virðist hafa verið smábæjarútgáfan af kapítalistasvíni, þótt honum hafi samt ekki tekist að erfa dótturina af neinum auðævum.

Leikstjórinn Joko Anwar ku vera rísandi stjarna í asísku bíó – og samstarfið virðist gott við Töru Basro, þetta er þriðja mynd þeirra í röð saman. Þrælar Satans (Pengabdi Setan) var vinsælasta hryllingsmynd sem gerð hefur verið í Indónesíu og í kjölfarið gerði hann Gundala, fyrstu myndina í því sem kallast Bumilangit Cinematic Universe; já – þið lásuð rétt, Indónesía er með eigin Marvel-sagnabálk í smíðum, með ofurhetjum sem eiga upptök sín í eldvirkni. Eitthvað sem Ísland mætti taka sér til fyrirmyndar?

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson