Við sjáum svart-hvítar myndir. Af lífi, af hamingju, af sumardögum. Týndu sakleysi tíma sem aldrei koma aftur. En svo sjáum við skriðdrekana. 21. ágúst 1968 komu skriðdrekar Varsjárbandalagsins, völtuðu yfir Tékkóslóvakíu sem þá var, keyrðu inní Prag og aðrar borgir landsins og bundu endi á Vorið í Prag.

Þessa sögu þekkjum við – en hálfri öld síðar finnur leikstjórinn Jan Šikl kassa af myndum af atburðunum í geymslu. Efni sem aldrei hafði sést áður, efni sem enginn veit hver tók upp. Niðurstaðan var heimildamyndin Endurskapað hernám (Rekonstrukce okupace, Reconstruction of Occupation upp á ensku.)

Þegar ég gekk inní salinn bjóst ég við einhverju í ætt við arkívu-heimildamyndir Sergei Loznitsa, sem hefur einfaldlega klippt saman efni úr þeim arkívum sem fundust um atburði seinni heimstyrjaldarinnar í Blokada (sem ég skrifaði um hér) og Babi Jar: samhengi (sem kemur við sögu síðar í þessum Karlovy Vary bálki). Þessar myndir eru að mestu þögull vitnisburður um fortíðina, en það er mynd Šikl alls ekki.

Hann er nefnilega ákaflega forvitinn um þessar filmurúllur – vill komast að því hver tók þær og hverjir birtast á þeim. Fyrrnefnda leitin skilar engum árangri, hann hittir marga kvikmyndatökumenn sem tóku efni á þessum árum en enginn kannast við efnið – þótt sumum þyki það vissulega kunnuglegt. „Ég var að taka upp í glugganum á móti,“ rifjar einn upp – og hver veit, kannski veifaði hann kollega sínum þá.

Allir hafa þeir hins vegar ýmislegt merkilegt að segja um atburðina – og Šikl finnur líka margar sem sjást á myndunum. Eða muna jafnvel bara eftir að hafa verið í nágrenninu. Í götunni handan rammans eða inní strætónum sem sést í fjarska.

Og þótt gamla myndefnið sé dáleiðandi þá er það í nútímanum sem við finnum kjarna myndarinnar. Allt þetta fólk sem missti bestu ár ævinnar í kjaft alræðisstjórnar. Þetta er mestmegnis ungt fólk á þessum myndum – fólk sem eyddi kannski árunum á milli 20-40 ára eða 30-50 ára undir ströngu eftirliti, sérstaklega af því fyrst það var á þessum myndum er líklegt að það hafi einmitt verið hluti af þeim hópi fólks sem kommúnistarnir treystu verst.

Sumir á myndunum voru enn yngri – ein tíu ára stúlka er núna sextug að segja okkur hvernig hún upplifði vonbrigðin í gegnum foreldrana. Þetta er í mörgum tilfellum fólk sem varð aldrei það sem það hefði getað orðið, örlögum þeirra var umturnað á einni nóttu.

Þannig er byrjunin, með sínum myndum af hversdagslífi, ágætis áminning um allt sem glataðist. Hún sýnir okkur vonina, vonina sem rússnesku skriðdrekarnir völtuðu svo yfir. Margir viðmælendur eru enn bitrir, bitrir yfir öllum þessum árum sem voru tekin af þeim.

Sama á vissulega oft við um langvinn stríð og aðrar hörmungar – en það sem var kannski sérstakt við Vorið í Prag var hve snögglega því lauk, stríð eiga sér oftast lengri aðdraganda og hörmungarnar sem þau valda varpa svo gjarna skugga á hversdagslegri harmleiki á borð við þá að glata sínum bestu árum í stríðskjaft; eitthvað sem er sorglegt en þó léttvægt við hlið þess að missa líf eða heilsu (líkamlega eða andlega) í stríði.

Þannig getur Vorið í Prag veitt óvenju góða svipmynd af fólki sem átti í sjálfu sér hefðbundin hversdagslíf – en aldrei í því frelsi sem eitt sinn virtist innan seilingar. Þetta Vor var líka svo skammvinnt að það var nánast eins og draumur, draumur sem rættist í eina örskotsstund (nánar tiltekið tæpa átta mánuði – frá því Dubček varð forsætisráðherra í ársbyrjun 1968) en var svo snögglega tálsýn.

Ein gömul kempa fullyrðir svo að atburðirnir 1989 geti aldrei talist sambærilegir. Sem er rétt, einfaldlega af því það ástand hefur núna enst í rúm 30 ár – úrkynjast máski að sumu leyti, næntísið er sannarlega séð í gylltum ljóma hér í Bæheimi, þegar frelsið var nýtt og fagurt og hugsjónamenn eins og Havel fengu ennþá einhverju ráðið. En auðvitað skipti ekki síður máli að 1989 var sigur næstu kynslóðar á eftir – sem ólíkt þeim fékk svo tækifæri til þess að uppfylla eða afskræma byltinguna á eigin forsendum, en ekki forsendum Moskvu.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson