Dilem (Dilayda Günes) er ung stúlka að þrífa herbergi, sem tekur sér pásu til að dansa við óminn í vasadiskóinu. Yfirmaðurinn kemur að henni og brjálast yfir þeirri ósvífni að skúringakonan skuli taka sér örfárra mínútnu pásu frá vinnu og rekur hana á staðnum, en bíður hana samt að klára að þrífa herbergið fyrst.

Þetta er einföld en merkilega kröftug byrjun tyrknesku myndarinnar Draugar (Hayaletler), mynd um kynslóð fasta í síauknu afturhaldi. Þessi litla sena hefði samt getað gerst í nánast hvaða samfélagi sem er – þar sem orka og draumar hina ungu eru kramdir af kröfunni um að vinna skítavinnu, oft án nokkurra alvöru réttinda.

Og þessi angi myndarinnar er forvitnilegur – en dansinn hverfur fljótlega og birtist ekki aftur að alvöru fyrr en í lokahluta myndarinnar. Í staðinn hittum við fyrir móður að reyna að safna pening fyrir soninn sem er í fangelsi og braskara sem græðir á sýrlenskum innflytjendum; tvær sögur sem hljóma forvitnilega en ná samt aldrei flugi – til þess eru þær of stefnulausar og persónurnar ekki nógu áhugaverðar.

Umgjörðin er Tyrkland nálægrar framtíðar – þótt framtíðarsýnin virki öll frekar óræð – þar sem yfirvöld berja harðar og harðar á lífskrafti æskunnar og alvarlegt rafmagnsleysi flækir líf allra. En það vantar lengstum eitthvað rafmagn og tengingar í myndina.

Þangað til á lokakaflanum, þegar Dilem er aftur í forgrunni og fer að leita sér að tækifærum og stöðum til að dansa með vinkonum sínum. Sá hluti myndarinnar virkar mun betur – sú óræða uppreisn æsku og orku sem býr í dansinum, dansinum sem engin stjórnvöld geta hamið til lengdar.

Þessi kafli er samt einnig gallaður – til dæmis verður Dilem brjáluð þegar hún fær veður af framhjáhaldi kærastans, sem hefði verið töluvert kröftugri sena ef við hefðum haft einhvern pata af téðum kærasta fyrir. En dansinn og tónlistin bera myndina uppi, svo langt sem það nær, sérstaklega þetta magnaða lag sem ég var fljótur að Shazama í laumi.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson