Pólska myndin Mín kæru (Bliscy) minnir örlítið á verk Wes Anderson, svona rétt í fyrstu. En þau hughrif eru fljót að hverfa þegar á líður. Piotr er ungur maður sem virðist á einherju rófi, þótt það sé aldrei tekið fram. Við sjáum hann allavega framkvæma einhverja áráttukennda ritúala í upphafi myndar – en hittir svo systur sína fyrir framan hús föðursins, sem hafði boðað þau þangað til að hjálpa til við að leita horfinnar móður.

Fljótlega kemur í ljós að þau hafa ekki hist síðan í brúðkaupi systurinnar – en ástæður samskiptaleysisins koma aldrei fram, hvorki bókstaflega né fær maður neina tilfinningu fyrir því. Enda vantar einfaldlega alvöru tilfinningar í myndina. Og húmor og kraft, þótt hún virðist ætla sér að vera kómedía þá stekkur manni ekki bros.

Uppleggið er sum sé að móðirin sé horfin – faðirinn veit ekki af hverju, hvort það sé út af honum eða einhverju öðru. En fljótlega kemur í ljós að sú gamla var spilafíkill – nema hvað, hún vann alltaf. Og í kjölfar gjafmildi sinnar varð hún svo óformleg lánastofnun í ríki spilasalanna, og raunar í hverfinu öllu.

Enginn veit samt hvar hún er stödd – og í gegnum leitina virðist sem eiginmanni og börnum opnist ný sýn á móðurina. En þótt uppleggið sé forvitnilegt eru persónurnar marflatar – aðalleikkonan Izabela Gwizdak lofar góðu í byrjun, en því miður er hennar karakter enn verr skrifaður en pabbinn og sonurinn.

Þau eru fullkomlega stefnulaus í leitinni, sem og lífinu sjálfu, skiptast á að vilja hætta þessu öllu saman – en einhvern veginn kemst maður ekki að neinu áhugaverðu um fjölskylduna í gegnum þetta ferli allt.

Það má hafa örlítið gaman af dyraverði sem virtist vera hægri hönd móðurinnar í sínu lánabraski – en kostir myndarinnar eru fáir og léttvægir – en það góða er hins vegar að þetta reyndist versta myndin sem ég sá á hátíðinni, þannig að eftir þessa var allt á uppleið!

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson