Plottið í Petite maman, nýjustu mynd Celine Sciamma, er við fyrstu sýn afskaplega einfalt og hversdagslegt.

Amma hennar Nelly var að deyja og hún veit ekki alveg hvort hún brást rétt við andlátinu, hvort hún hafi kvatt þá gömlu eins og hún hefði átt að gera. Hún er líklega að upplifa dauðann í fyrsta skipti og er enn að læra á hann, átta sig á honum. Hún fer svo með foreldrunum í hús ömmunar, æskuheimili móðurinnar, til að ganga frá. Þarna eru ennþá allir bernskumunir mömmunar, hennar Marion, og nóg til að pakka eða henda eða gefa eða eiga. Við sjáum þær mæðgur eiga nokkur falleg en um leið torræð augnablik saman, pabbinn birtist okkur ekki fyrr en síðar. Eftir að mamman fer fyrr til baka, til borgarinnar. Mögulega af því það var of erfitt að vera þarna á bernskuheimilinu, þegar mamma hennar er nýdáinn.

En svo hittir Nelly jafnöldru sína að leik í skóginum við húsið. Hún er að byggja tréhús þar og fær Nelly til að hjálpa sér. Þær eru fljótar að verða vinkonur, eins og þær hafi þekkst frá örófi alda. En það er þrennt sem er óvenjulegt við vinskapinn. Þær eru grunsamlega líkar, vinkonan Marion er nafna móðurinnar og húsið sem hún býr í grunsamlega líkt.

En svo kemur skýringin – eins blátt áfram og bara átta ára krakkar geta verið.

Nelly: „Ég þarf að segja þér leyndarmál. Ég er dóttir þín.“

Marion: „Ertu úr framtíðinni?“

Og skyndilega skilur maður allt. Þetta er Aftur til framtíðar, franska lágstemmda útgáfan. Svo halda þær bara áfram að leika, taka þessu tímaflakki sem eðlilegasta hlut í heimi. Hér eru engar sérstakar pælingar um tímaferðalög eða neitt slíkt, enginn sem hefur áhyggjur af að raska tímalínunni. Kjarni myndarinnar er einfaldlega þörf Nelly til að skilja móður sína.

Sem kviknar væntanlega, eða glæðist allavega, þegar amman deyr: það er eins og Nelly skilji að það sé eðlilegt að ömmur deyji, þær séu jú gamlar – en það sé óskiljanlegt að mamma manns geti dáið. En amman var jú mamma mömmu hennar, og þannig skilur hún í raun dauðann með því að reyna að setja sig í fótspor mömmunar.

En mamman er orðin fullorðin, hún á erfitt með að ímynda sér tilfinningar fullorðinna – og þess vegna þarf hún að kynnast Litlu mömmu, því sem titillinn vísar í – Petite Maman.

Þær kynnast eins og börn gera, mest í gegnum leik, en líka stundum í gegnum samtöl. Þær eru báðar einbirni, eru vanar að bjarga sér sjálfar og dunda sér, en um leið snöggar að kynnast. Enda leikkonurnar Joséphine og Gabrielle Sanz tvíburasystur – en maður sér þó alltaf greinilegan mun á þeim, hvort sem það sé förðunar- og búningardeildinni að þakka eða því að þær séu ekki eineggja.

Á endanum skiptir svo ekki öllu máli hvort þetta sé allt að gerast í alvörunni eða hvort þetta séu dagdraumar Nelly að reyna að skilja mömmu sína, þetta er sami leikurinn fyrir því, leikur barna sem er samt dauðans alvara, af því í gegnum hann skilja þau lífið, sorgina og dauðann.

Og kannski þurfti mamman að senda Nelly til fortíðarinnar svo hún gæti róað hana, trúað henni fyrir að þetta sé ekki henni að kenna. „Þú fannst ekki upp sorgina mína,“ segir átta ára Marion við Nelly – og einhvern veginn tengjast þær mæðgur þannig upp á nýtt, finna hvor aðra í fantasíunni og sorginni.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson