„Ástin spyr hvorki um stétt né stöðu,“ söng Björgvin um árið. En þessar spurningar þvælast þó oft fyrir í samböndum, og fyrir einhverja dularfulla tilviljun sá ég þrjár myndir á stuttum tíma á Karlovy Vary – sem allar höfðu verið sýndar í aðalkeppninni í Cannes – sem áttu það sameiginlegt að fjalla fyrst og fremst um ástarsambönd þar sem stétt og staða var gjörólík – en kannski fyrst og fremst menntunarstigið.

Byrjum í Frakklandi. Þar hefur Jacques Audiard í áratugi leikstýrt alvarlegum harðhausamyndum; um fanga í Spámanninum, Un Prophéte, eða innflytjendur í Dheepan. Þetta eru myndir blóðugra átaka og myndir um hinn stóra harm; magnaðar myndir oft – með rækilegri einföldun mætti kannski kalla hann hinn franska Scorsese.

En hann er á allt öðrum slóðum í sinni nýjustu mynd, Les Olympiades, en titillinn vísar í Ólympíuturnana í 13. hverfi Parísarborgar. Ólympíuturnarnir eru svart-hvít og djössuð ástarsaga, lauslega byggð á myndasögum Adrian Tomine, og það er eins og Audiard átti sig á að hann þarf sér yngra fólk til að semja þessa sögu með sér. Sjálfur er hann 69 ára, Tomine er kynslóð yngri og hann fær tvo kvenleikstjóra, sem eru tæpum 30 og 40 árum yngri, til að skrifa með sér handritið, þær Léu Mysius og Céline Sciamma, en sú síðarnefnda er ein skærasta stjarna franskra kvikmynda um þessar mundir.

Fjórir höfundar sumsé – og myndin er í raun hálfgerður ástarferhyrningur – en það samband sem fær langmest pláss er þó samband Émilie og Camile. Camile er eini karlmaðurinn í þessum ástarferhyrningi, en þó með það kvenlegt nafn að Émilie bíður honum að skoða herbergi til leigu af því hún heldur að hann sé kona. Émilie er taívönsk og Camile blökkumaður, en þar liggja þó ekki átakalínur sambands þeirra, heldur í því að Camile er í doktorsnámi á meðan Émilie vinnur í símaveri. Þessi akademíski stéttamunur stíar þeim í sundur, þótt aðdráttaraflið sé ótvírætt – þau eru á gjörólíkum stað í lífinu, hún sér hann sem hrokafullan menntamann og hann sér hana sem ómenntaða stelpuskjátu – og seinna meir finna þau sér tímabundið maka sem á pappírnum ættu að henta þeim miklu betur.

En ástin spyr ekki um ferilsskrár eða prófgráður – og raunar kemur í ljós þegar fjölskyldusaga þeirra birtist manni í stuttum brotum að það er styttra á milli þeirra en maður heldur. Eldri systir Émilie er hámenntaður læknir og yngri systir Camile verðandi uppistandari. Klár, en ekki beint háskólatýpan. Þannig eru bæði á skjön í eigin fjölskyldu, og þar með í ákveðinni uppreisn gegn menntasnobbinu eða menntaleysinu sem þau alast upp í, en finna kannski á öfugsnúin hátt ræturnar hvort í öðru. Skilja hvert annað öðrum betur, en á ská, sem tekur þau tímann sinn að átta sig á.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Dómurinn var upphaflega hluti af pistli í Lestinni sem hlusta má á hér.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson