Að lokum skulum við bregða okkur yfir landamærin til Finnlands, en þó miklu lengra en það. Klefi nr. 6 er finnsk mynd eftir finnskan leikstjóra, Juho Kuosmanen, sem vann Un certain regard verðlaunin á Cannes ári á eftir Hrútum með Besta dag í lífi Olli Mäki. Nýja myndin er lauslega, mjög lauslega, byggð á samnefndri finnskri skáldsögu Rosu Liksom, sem Sigurður Karlsson þýddi fyrir tæpum áratug. En sagan gerist öll í Rússlandi. Mest í Síberíuhraðlestinni, vel að merkja. Í klefa númer sex.

Við byrjum þó í Moskvu, líkast til á nýfrjálsum og óreiðukenndum Jeltsín-árunum. Þar er Laura hin finnska við nám, á milli þess sem hún sefur hjá veraldarvönum leigusalanum, henni Irinu. Hún hefur náð ágætum tökum á rússneskunni og kann vel við þetta nýja líf sitt en finnst hún samt innst inni vera gestur í þessum heimi, og það á kannski ekki síður við um þennan flauelsmjúka og orðheppna menntamannaheim sem hún er skyndilega komin í. Hún þarf sífellt að leyna því að hún er bara stelpuvitleysingur úr finnskum smábæ. Eða það grunar mann, það kemur svo sem aldrei fram hvaðan hún er nákvæmlega en maður kannast við þessa tilfinningu, sérstaklega þegar maður er að venjast nýjum heimum, fóta sig í nýju lingói.

Þær Irina ætluðu að ferðast saman til Murmansk til að skoða þar fornar klettaristur, enda báðar upprennandi fornleifafræðingar, en á endanum kemst Irina ekki og Laura heldur því ein í þessa langferð yfir þvert og endilangt Rússland. En hún er þó ekki ein jafn lengi og hún hefði óskað. Í ljós kemur að klefafélagi hennar er hann Ljoha, krúnurakaður námuverkamaður, sem við fyrstu sýn er nánast eins og úr auglýsingu um agressívar ómenntaðar drykkfelldar rússneskar karlrembur og hagar sér líka þannig. Finnsk aukapersóna sem dúkkar upp um miðbik myndar spyr raunar: „Er til verksmiðja þar sem þeir framleiða þessa gaura?“

Hún er skiljanlega dauðhrædd við hann í fyrstu, hangir á göngunum eða á salerninu eða í matarvagninum, allt til að forðast klefafélagann. En það getur hún ekki gert endalaust. Þessi ferð tekur marga daga og hún hefur aðeins einn bedda til að sofa í.

Og Ljoha leynir vitaskuld á sér, annars væri þetta varla efni í heila bíómynd. Karlrembustælarnir eru varnarviðbrögð, og sama má segja um útlitið, en hægt og rólega þýðast þau hvort annað. Þau sameinast í að deila einsemdinni á þessu langa ferðalagi, hún fjarri öllu sem hún þekkir, hann mögulega loksins að kynnast umheiminum að ráði; maður er ekkert viss um að hann hafi hitt marga útlendinga áður, ef nokkra.

Þau sameinast þó kannski hvað helst í bernskum leikjum, í snjókastinu, í heimsókninni til frænkunnar sem er eins og babúska úr fornum kvæðum, þegar þau klifra um forna veðurðbarða kletta, þetta er í raun platónsk ást í grunninn, þetta er saga um fóstursystkini, um ósýnilegan streng vináttu og trausts sem tengir þau.

Einhverjir urðu til að kalla þetta rússnesku útgáfuna af Before Sunrise, en líklega væri réttara að kalla þetta andstæðu þeirrar frábæru myndar því Before Sunrise er ævintýrið sem sjaldnast rætist á ferðalögum. Klefi nr. 6 er hinn skítugi og kaotíski raunveruleiki sem við eigum raunverulega eftir að rekast á í lestum heimsins þar sem við finnum kannski ekki sálufélaga en rekumst á aðrar sálir, blöndumst þeim, eignumst hlutdeild í þeim. Hlutdeild í hinu framandi, heimum og hjörtum sem við hefðum annars aldrei skilið.

Það er kannski rétt að taka bara fram að þetta var besta myndin sem ég sá á Karlovy Vary af tuttugu-og-einni alls. Þessi endursköpun veraldar sem var, rétt eftir fall kommúnismans, þegar Rússland var stútfullt af popplögum sem komu þangað áratug á eftir Vestur-Evrópu, þegar Vestur- og Austur-Evrópubúar voru að venjast hverjir öðrum upp á nýtt, þegar svona ferðalög voru ferðalög inn í sálardjúpið en ekki bara eltingarleikur við betri nettengingu.

En þótt myndin gerist að mestu í lestarklefa eru allra bestu senurnar í snjó. Það kunna ekki margir leikstjórar vel að kvikmynda snjó og vetrarríki en Juho Kuosmanen gerir það meistaralega, með hjálp kvikmyndatökumannsins Jani-Petteri Passi. Og hér er sko alvöru vetur, hver einasta ökuferð á bílskrjóðum sem ættu varla að komast á milli húsa en virka samt einhvern veginn á ísilögðum síberískum vegum.

Og undir hljómar evrópoppið sem var kannski fyrsta límið sem virkaði til að líma saman gamla austrið og gamla vestrið eftir kalda stríðið, nánar tiltekið franska lagið „Voyage, voyage,“ þrítekinn óður um hið endalausa ferðalag út í óvissuna.

Dómurinn var upphaflega hluti af pistli í Lestinni sem hlusta má á hér.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson