Það getur verið skringilegt að heyra lag úr sínu náttúrulega samhengi. Hvaða lag er þetta, af hverju kannast ég svona rosalega vel við þetta? En svo kveikti ég skyndilega.
Jú, ég er að tala um Black Sands, svörtu sandana, seiðandi lag sem fann sitt náttúrulega samhengi fyrir margar kynslóðir íslenskra útvarpshlustenda undir rödd Veru Illugadóttur í þáttunum Í ljósi sögunnar.
Þetta lag sem olli því að maður heldur ró sinni þótt fjöldamorðingjar gangi lausir, maður fær ekki martraðirnar sem maður ætti kannski að fá eftir hlustunina. Ég hlustaði náttúrulega mest á Veru við skúringar á Mývatni, mismunandi illmenni frömdu sína gjörninga við klefa númer 43 á næturvöktum – og ég mundi þá alltaf þegar ég spúlaði það ákveðna horn.
En hvernig virkar þetta lag stakt? Án þess að sefandi rödd Veru Illuga fylgi með?
Þetta er ferðalag. Út um lestarglugga, þegar síbreytilegt landslag blasir við manni. Það er hreyfing í þessum tónum.
Enda er Í ljósi sögunnar ferðaþættir ekkert síður en sagnfræðiþættir, sagnfræðin er nefnilega dálítið viljandi ekkert að festa sig við einstaka staði, heldur er allur heimurinn að veði, þetta eru erlendu fréttirnar í ljósi sögunnar.
Flytjandinn er Bonobo, en Bonobo er listamannsnafn plötusnúðsins Simon Green. Það að taka listamannsnafnið frá apa þá fjarlægist hann ekki beint mennskuna, en hann fjarlægist kannski breska miðstéttaruppeldið sem maður fær mynd af þegar maður heyrir skírnarnafnið, verður í staðinn melankólískur apaköttur í djúpum tengslum við náttúruna. Mannapi – á þessum mörkum þar sem við yfirgefum náttúruna og förum að búa til músík.
Það er einhver frummennska í þessu. Þetta er bíómynd sem er að klárast en er samt alls ekki búin. Maður sér fyrir sér fólkið í ramma, eitthvað að bardúsa, að bíða eftir framhaldinu – jafnvel að bíða eftir hamingjusama endinum sem aldrei kemur, hver veit?
En þetta er bara fólk á svörtum söndum að byrja að búa til siðmenningu – bíður, bíður – og endar svo í útvarpsþáttum nokkrum árþúsundum seinna við undirspil mannapans Bonobo.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson