Við erum stödd í drullugum burtreiðahring rétt fyrir áramót árið 1386. Við erum í snævi þakinni París og sjáum Matt Damon og Adam Driver gera sig klára fyrir einvígi, Damon með forljóta miðaldahárgreiðslu en Driver með grunsamlega nýmóðins greiðslu. Maður með svona framtíðarlega hárgreiðslu hlýtur þar af leiðandi að vera skúrkurinn, ekki satt? 21 aldar spjátrungur að valsa um 14 öldina og gera þar óskunda.

Þetta er opnunaratriði Síðasta einvígisinsThe Last Duel – riddaramyndar frá Ridley Scott – og riddaramynd frá Ridley Scott býr til ákveðnar væntingar. Væntingar um fagmannlega en varla byltingarkennda sýn á riddarasögur fortíðarinnar. En menn gleyma stundum að Scott leikstýrði ekki bara Gladiator heldur líka Thelma & Louise og á sinn hátt mætast þeir tveir sagnaheimar hérna, þetta er mynd sem virðist vera hefðbundin riddarasaga lengi framan af, með bræðralagi og svikum og æsilegum bardögum, en tekur svo fljótlega sveig í allt aðra átt.

Enda er rétt að líta betur á handritshöfundana líka, af því þar finnur maður ekki minni kanónur en Matt Damon, Ben Affleck og Nicole Holofcener – allt óskarstilnefndir handritshöfundar og þeir Damon og Affleck eru hér að skrifa handrit í sameiningu í fyrsta skipti síðan Good Will Hunting skaut þeim upp á stjörnuhimininn. Og þó, raunar skrifa þau skilst mér hvert sinn hluta, þótt þau hafi vafalítið haft alls kyns samráð í ferlinu.

Myndin skiptist nefnilega upp í þrjá sannleika – sannleikann samkvæmt riddaranum Jean de Carrouges, sannleikann samkvæmt skjaldsveininum Jacques Le Gris og sannleikann samkvæmt Marguerite la Carrouges. Damon skrifar í raun sinn hluta og Affleck átti upphaflega að leika Le Gris, áður en hann var færður yfir í bitastætt aukahlutverk Pierre greifa – og þótt Driver sé góður þá hefði eiginlega verið skemmtilegra að sjá Affleck í hlutverkinu, saga Damons og Afflecks sem raunverulegra fóstbræðra frá Boston sem meikuðu það saman hefði spilað skemmtilega inn í þá sögu um svik og vináttu sem myndin endurspeglar. Já, og það hefði jafnvel verið gaman að finna skrifandi leikkonu til leika og skrifa hlutverk Marguerite, en Holofcener er bara svo flinkur handritshöfundur að ég tími varla að biðja um það líka.

En allavega; þeir de Carragoues (Damon) og Le Gris (Driver) eru aldavinir – en það byrjar snemma að falla á vináttuna í myndinni. Sá fyrrnefndi er af betri ættum og nær hraðari framgang í átt að riddaratign – en hann er hins vegar óttalegur durgur sem gefið er í skyn að sé ólæs – sem virðist raunar regla frekar en undantekning í þessu 14. aldar Frakklandi. Le Gris er hins vegar skjaldsveinn sem er vel lesin og menntaður, stimamjúkur og orðheppinn. Þannig nær hann að vinna sig upp með því að eignast valdamikla vini við hirðina, á meðan de Carragoues er upptekinn við að höggva mann og annan og vinna sér inn sína riddaratign, sem reynist svo ekki jafn verðmæt og hann hafði ímyndað sér. Leikreglurnar ekki alls staðar jafn einfaldar og á vígvellinum.

Þarna birtist okkur kunnuglegt stef sem hefur lifað af dauða hinna eiginlegu riddara; spennuna á milli verkamanna og menntamanna, stríðsmanna og hugsuða. Sem er auðvitað aldrei jafn einföld og hún lítur út fyrir að vera, enda de Carragous klárari en hann lítur út fyrir að vera og Le Gris óttalegur durgur inn við stimamjúkt beinið.

Vinskapurinn hefði þó vel getað lifað mismunandi persónuleika þeirra af, ef ekki hefði verið fyrir það hvaða áhrif það hefur á samfélagslega stöðu þeirra. Nýji besti vinur Le Gris, Pierre greifi, gefur honum nefnilega landareign sem upphaflega átti að vera heimamundur de Carragous og í ofanálag erfir Le Gris titil og lönd föður de Carragous, eitthvað sem hann hélt að væri formsatriði að hann myndi hljóta að föðurnum gengnum.

Þannig virðist myndin vera stúdía á mismunandi birtingarmyndum karlmennsku, birtingarmyndir sem hafa lifað af aldirnar þótt starfsheitin séu önnur núna.

En svo kemur vitaskuld í ljós að myndin er fyrst og fremst afbygging eitraðrar karlmennsku, í mismunandi og misalvarlegum myndum – og þetta er í raun saga Marguerite. Eitthvað sem er undirstrikað þegar hennar kafli hefst og nafnið hennar hverfur í örskosstund og eftir stendur bara

sannleikurinn

Sannleikurinn – með nauðsynlegu spilliefni og Höskuldarviðvörun – er jú sá að Le Gris nauðgar Marguerite og það er ástæða einvígisins. Einvígisins sem við sjáum aðeins byrjunina af í upphafi – það birtist okkur svo undir lok myndar á nýjan leik, þegar við vitum hvað er í húfi.

Hinir þrír hlutar myndarinnar segja í aðalatriðum allir sömu sögu, með blæbrigðamun á milli þess hvernig persónurnar upplifa eða muna mismunandi atburði. Ég minnist þess þó ekki að nein atriði sé sýnd oftar en tvisvar og oft er byrjun á atriði sýnd í einni sögu en framhaldið í annarri. Þá er eingöngu minnst á nauðgunina í fyrsta hlutanum – enda var de Carragous ekki viðstaddur – en hún er sýnd í næstu tveim hlutum. Í útgáfu Le Gris er þetta sannarlega nauðgun, allavega með sæmilega upplýstum 21. aldar augum, þótt mann gruni að allavega sumir 14 aldar menn (og já, sumir 21 aldar menn) hafi getað réttlætt hana sem eitthvað annað, hann segir einfaldlega að hún hafi mótmælt til að gæta að formlegheitum, stöðu sinnar vegna. En augljóslega vildi hún þetta. Það eru þó engin merki um það, ekki einu sinni í hans útgáfu, hvað þá í hennar útgáfu – sem er keimlík en þó töluvert grimmilegri.

Litlu dauðarnir

Í réttarhöldunum sem fylgja birtist ansi lífleg og skrautleg umræða 14 aldar manna um kynlíf. Nauðgun getur til dæmis ekki valdið getnaði – og ekki nóg með það, kona þarf að njóta til að barneignir séu mögulegar, upplifa „litla dauðann,“ sem virðist hin furðulegu skrauthvörf aldarinnar fyrir fullnægingu kvenna.

Marguerite þarf aðstoð eiginmannsins til að fá réttlætinu fullnægt, aðeins hann getur kært – ekki fyrir ofbeldi, heldur fyrir aðför að eign hans. En þegar orð stendur gegn orði og lögfræðin dugar ekki, þá er gripið til sjaldgæfs örþrifaráðs; dómstóls almættisins sjálf – hins lagalega einvígis. Hinn seki mun tapa, með hjálp Guðs, og réttlætinu verður þar með fullnægt.

Þaðan kemur nafn myndarinnar, þetta var vitaskuld ekki síðasta einvígi mannkynssögunnar, en síðasta einvígi þessarar tegundar sem leyft var í Parísarborg – mönnum þótti þessi lögfræði greinilega þá þegar orðin ansi forneskjuleg.

Einvígið er svo hið sama og við sáum í upphafi myndarinnar – nema þá sáum við bara blábyrjunina og ómögulegt var að vita hver myndi hafa sigur. Einvígið sjálft stendur í sjálfu sér alveg undir nafni sem hápunktur myndarinnar, æsilegt og spennandi en þegar á líður aðallega andstyggilegt og gróteskt. Það er ekkert fallegt við þetta ofbeldi.

En þótt þumbarinn de Carrouges sé vissulega skárri pappír en Le Gris þá snýst spennan samt aðallega um örlög Marguerite – sem bíður dauðans ásamt eiginmanninum ef hann tapar, hún bókstaflega bíður örlaga sinna á bálkesti sem hann einn getur komið í veg fyrir að verði kveikt í. Þannig höldum við kannski aðallega með sannleikanum, frekar en einstökum keppendum.

Enda er þarna löngu orðið ljóst að Marguerite er hin raunverulega aðalpersóna myndarinnar. Enda kemur í ljós að þótt de Carragous sé ekki nauðgari er hann óttalegur búri, sem virðist meira annt um eigin heiður og velsæld en hamingju eiginkonunnar.

Og Marguerite tekur vissulega slaginn við Le Gris en sættir sig við ástlaust hjónaband, það eru takmörk fyrir því hversu mikla uppreisn kona getur farið í í þessu karlaveldi. Þannig er augljóst í tveimur senum í hjónarúminu að hún er ekki að fá neitt út úr þessu – og raunar er ýjað að því að eiginmaðurinn nauðgi henni líka, þegar hann heimtar sitt, rétt eftir að hann heyrir fréttirnar, til að Le Gris verði ekki lengur sá síðasti sem hafi notið hennar.

Ósýnilegu konurnar

Fyrstu tveir kaflar myndarinnar voru að sögn Damons fyrst og fremst byggðir á heimildavinnu – en sá síðasti var að hans sögn nánast frumsamið handrit, það er einfaldlega svo lítið vitað um konur á borð við Marguerite frá þessum tíma. Getið til dæmis bara hver þremenningana sé ekki með Wikipedia-síðu – það er fljótlegt að finna heimildir fyrir margar myndir um karlana tvo en sáralítið er vitað um Marguerite annað en það sem snerti sögu bardagamannana.

Þetta háir myndinni vissulega nokkuð, þótt snúningurinn á sögunni virki merkilega vel, ekki bara sem afbygging á karlmennsku heldur jafnvel líka sem afbygging á þeirri Hollywood-karlmennsku sem karlleikararnir þrír eru holdgervingar fyrir. En þótt Jodie Comer sé frábær sem Marguerite þá fær hún alltof fátæklega baksögu, við vitum þátt hennar í þessu máli öllu en við vitum ekkert hvað hana dreymir, hvað hana langar – veruleikinn þvælist þarna fyrir, enda reyna kvikmyndagerðarmenn sitt allra besta til að vera trúir sagnfræðinni – og of ítarleg skálduð baksaga hefði líklega eyðilagt þá sagnfræði. Það er þó forvitnilegt að þrá kvennana til að eignast börn snúast ekkert endilega um ást á börnum, heldur ekkert síður að það var bókstaflega stöðuhækkun; móðir var svo miklu mikilvægara hlutverk en eiginkona – og líklega færði fyrsta barnið þeim hreinlega ákveðin frið, þær höfðu uppfyllt skyldur sínar og gátu núna lifað lífinu í sæmilegum friði á meðan eiginmennirnir fóru í herleiðangra sína.

Og sagnfræðin er heilt yfir mjög þétt – það er helst eitt atriði sem er breytt og annað sem er sleppt; Adam Louvel, senditík Le Gris, hjálpaði honum víst töluvert meira við nauðgunina en myndin sýnir og þá er því sleppt að sýna þegar Le Gris er aðlaður rétt fyrir bardagann – siður sem snérist um það að það gengi ekki að eiga á hættu að riddari myndi deyja í bardaga við mann af sér lægri stétt.

Stærsti vandi myndarinnar er samt strúktúrinn. Hann er styrkur um leið, það varpar áhugaverðu ljósi á persónurnar að sjá hversu ólíkt þær sjá hlutina. Ekki bara varðandi samskipti kynjanna, heldur sjáum við líka hvernig de Carrouges breytist úr harðfylgnum og hugrökkum prinsippmanni í eigin sögu í þrjóskan og þumbaralegan tuðara í augum annarra.

En þrátt fyrir stöku ósamræmi eru þær þó það líkar á endanum að uppbyggingin verður sannfærandi; þessar sögur eru allar sæmilega skýr sýn óbrjálaðra huga á atburðina og frávik má vel skýra með skeikulu minni, mismunandi sjálfsmynd og öðru slíku, án þess að mann gruni að persónurnar hafi misst tök á raunveruleikanum. Vandinn er bara sá að þetta gerir sögurnar of líkar, of endurtekningasamar – og það er svo margt annað sem hefði verið hægt að gera við hinar hundrað mínúturnar í þessari 150 mínútna mynd til að dýpka söguna á forvitnilegri hátt.

Sem dæmi hefði mátt sýna meira frá því hvernig þeir félagar urðu vinir, vinslitin verða ekki nærri jafn dramatísk þegar við kynnumst þeim í dauðateygjum vináttunnar. Eins hefði jafnvel mátt blanda tilhugalífi hjónakornana í málið, gefa Marguerite meiri baksögu – og skoðað betur áhrif einvígisins á bæjarbraginn, enda var þetta stærsti viðburður ársins, eins og úrslitaleikur meistaradeildarinnar – nema með lífið að veði – og það hefði alveg verið forvitnilegt að skoða betur 14. aldar útgáfuna af frægð og frama riddaranna.

En þetta er samt ansi þétt og forvitnilegt mynd frá Ridley gamla, og miðaldaheimurinn einn sá mest sannfærandi sem ég hef séð – hér er enginn ósannfærandi glamúr eða ódýrar tölvubrellur, þetta er heimur sem manni finnst persónurnar raunverulega lifa í og mesta afrekið kannski það að skelfilegar miðaldahárgreiðslur Affleck og Damon smellpassa inní umgjörðina, við erum í alvörunni stödd í heimi þar sem hárgreiðslufólki fannst þetta bara eðlilegt. En um leið heimi sem er um margt nútímalegri og margbreytilegri en algengustu birtingarmyndir miðalda í okkar poppkúltúr gefa oftast í skyn og heim þar sem forneskjan er stundum ískyggilega kunnugleg og nútímaleg.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson