Þetta byrjar á brúðkaupi. Nema hvað, þegar brúðkaupinu lýkur fáum við að sjá umhverfið betur. Við erum stödd á nett subbulegum lager. Þetta er lager kjörbúðarinnar Produkty 24, sem myndin þiggur titil sinn frá, og spillingin er það svakaleg að það er máski rétt að ríma þetta við Verbúðina og íslensku myndina sem Kjörbúðina, enda yfirgefum við þessa kjörbúð alls ekki fyrstu 45 mínútur myndarinnar.
Þetta er mynd um nútímaþrælahald, brúðurin Mukhabbat og aðrir starfsmenn kjörbúðarinnar sofa á þröngum lagernum og vinna þess á milli við að selja fólki mat og drykk. Þarna búa líka börn starfsmanna, sem þurfa líka að vinna um leið og þau ráða við það. Flestir starfsmennirnir virðast vera Úzbekar, sem komu til Moskvu í leit að betra lífi, en fundu fyrir helvíti á jörð.
Búðarstýran Zhanna er nánast eins og djöfull í mannsmynd, níðist á starfsmönnum á skelfilegan hátt og kemst upp með það, af því hún er með lögguna í vasanum. Lögreglan kemur reglulega í heimsókn og fær ókeypis vörur og sömuleiðis ókeypis aðgang að kvenkyns starfsfólki ef þeim svo sýnist.

Og þarna erum við föst fyrri helming myndarinnar, innilokuð eins og búðarþrælarnir, þráum að sjá örlítið dagsljós. Líður eins og Morlokkum sem aldrei munu sjá ljósið.
En við fáum loks að sjá ljósið í seinni hlutanum þegar Mukhabbat sleppur og kemst aftur til Úzbekistan. Þá opnast myndin. Það er mikil og stór breyting að sjá ægifagran himininn og fallegt en um leið hráslagalegt landslagið í kringum Tashkent.
En fegurðin er blekkjandi. Þótt hér sé fallegt og fólk almennt öllu manneskjulegra en í Moskvu er fátæktin sár, nánast óyfirstíganleg. Eina lausnin fyrir marga er einfaldlega að fara til Moskvu, jafnvel þótt fólk viti hvaða helvíti bíður þess þar. Þetta er saga um fátæka þjóð með vegabréf sem kemur henni ekki langt. Leikstjórinn, Michael Borodin, var sjálfur um tíma réttlaus innflytjandi í Moskvu og segir okkur frá því eftir að myndinni lýkur að þótt sagan sjálf sé skálduð sé þessi kjörbúð sannarlega til og engu logið um aðstæðurnar þar. Og jafnvel þótt á endanum hafi tólf starfsmenn þar verið frelsaðir þá var enginn dæmdur og kjörbúðin frá helvíti stendur enn og starfar óáreitt.
Serbnesk leikarahjón í fasteignabraski
Höldum okkur aðeins lengur í orþódóskum Slavalöndum en förum suður á bóginn. Nánar tiltekið til Novi Sad, næststærstu borgar Serbíu. Þar hittum við fyrst fyrir Nataliju, og sjáum hana bera fátæka fjölskyldu út úr ósamþykktri íbúð. Hún er harðsvíraður almannatengill vafasamra fasteignabraskara sem gengur í öll störf og vílar og dílar á milli þess sem hún sefur hjá yfirmanninum Miki. Í fyrstu virðast þessir fasteignahákarlar ætla að vera í aðalhlutverki í myndinni Verkalýðshetjur, eða Heroji radničke klase, en fljótlega kynnumst við verkalýðshetjum myndarinnar, byggingaverkamönnum á vegum fasteignabraskaranna sem vinna alla daga vikunnar við afleitar aðstæður sem eru sjaldnast samkvæmt laganna bókstaf. Enda sá bókstafur oftast upp á punt hér. Og vinnuslysin til skiptis raunveruleg eða örvæntingarfullar tilraunir til að fá einhvers konar bætur, annað hvort frá tryggingunum eða yfirmönnunum.
Þetta er þrátt fyrir allt lífsglaður og skrautlegur hópur verkamanna, nokkrir eldri jálkar í bland við unga og saklausa stráka sem enn dreymir um ástina – ástina sem mögulega gæti togað þá í áttina að betra lífi. Meðal þeirra gömlu er hinn drykkfelldi Mile, sem búinn er að missa vonina, og verkstjórinn Braco, sem er já-maður eigendanna og nýtur þar af leiðandi ekki trausts samstarfsmanna sinna. En svo er sá sem allir hlusta á, Prófessorinn, sem hunsar verkstjórann þegar þess þarf og þykir greinilega ósköp vænt um ungu strákana, sérstaklega strákinn sem er orðinn bullandi ástfanginn og ætlar bara að taka eina vakt í viðbót áður en hann fer með kærustunni í heimabæ hennar við hafið. Viðurnefni prófessorsins mun vísa í kunnuglegt stef í serbneskri menningu þessi misserin, þar er nefnilega mikið um að langskólagengið fólk vinni verkamannavinnu, oft af því að ekkert skárra býðst. Þannig hafa margir svona vinnustaðir sína prófessora. En það má kannski líka líta á hann sem Karl Marx dæmisögunnar, hinn menntaða mann sem segir félögunum að önnur þjóðfélagsskipan sé möguleg.
En það styttist í formlega opnun blokkarinnar sem þeir eru að byggja, þótt hún virðist engan veginn kláruð, spennan eykst og fórnirnar reynast miklar – fórnir fyrir einn af þessum tilgangslausu viðburðum sem kapítalistum tekst stundum að láta líta út fyrir að vera þeir mikilvægustu í heimi, alla vega mikilvægari en líf og heilsa allra illa launuðu verkamannana. Og á endanum þurfa allir að taka afstöðu til þess hvað í raunveruleikanum skiptir mestu máli.
Einn helsti kostur myndarinnar er sá að hún skartar einhverjum bestu leikarahjónum Evrópu sem aldrei virðast þó leika hjón. Þar er ég að tala um Jösnu Đuričić, sem leikur Lidiju, og fer einnig með titilhlutverkið í þeirri mögnuðu mynd Quo Vadis, Aida?, sem er í Bíó Paradís þessa dagana. Í þeirri mynd leikur eiginmaður hennar, Boris Isaković, illmennið sannsögulega, sjálfan Ratko Mladic, serbneska slátrarann, en hér fær hann að leika góðmennið, öðlinginn sem aldrei er kallaður annað en Prófessorinn.
Að skora tímann á hólm
Báðar þessar myndir gerast í fyrrverandi kommúnistaríkjum, og sýna hvernig hrein og klár mafíustarfsemi blómstrar best einmitt þar sem óheftum dólgakapítalisma var skellt hvað harkalegast beint ofan á stofnanavæddan og spilltan kommúnisma, án þess að fólk fengi neinn aðlögunartíma. Báðar verða alltaf skoðaðar með síðustu öld bak við eyrað, og túlkaðar út frá því, túlkaðar út frá þessum rúmlega hundrað árum sem liðin eru frá Októberbyltingunni.
En svissneska myndin Órói, Unrueh, fer lengra aftur, nánar tiltekið til ársins 1877. Sagan er skáldskapur en ein aðalpersónan er þó raunveruleg; rússneski anarkistinn og sósíalistinn Pjotr Kropotkin, sem einnig var kortagerðamaður. Og það er í því hlutverki sem þessi einn helsti hugmyndasmiður anarkismans heimsækir svissneskan dal þar sem heilt bæjarfélag snýst nánast eingöngu um úrsmíðaverkstæði.
Leikstjórinn Cyril Schäublin kemur einmitt úr mikilli úrsmiðafjölskyldu, flestar hans formæður virðast hafa verið úrsmiðir, eða öllu heldur borið ábyrgð á óróahjólinu, litlu tannhjóli sem hvert úr þarf á að halda.
Þetta er sem sagt mynd um úrsmiðanördisma og anarkisma, mögulega svissneskasta mynd í heimi, en líka mynd um þröskuld nútímans og veröld sem var. Það er ekki búið að samræma tímann ennþá og bara í þessum litla smábæ þarf fólk því að kunna skil á kaupstaðartíma, verksmiðjutíma, símskeytatíma og lestartíma. Myndavélar sjást víða og maður að selja myndatöku dúkkar upp í tíma og ótíma en öll sú fyrirhöfn sem myndataka kostaði á þessum árum verður hægt og rólega hversdagsleg, fólkið er ítrekað ljósmyndað og alla dreymir vafalaust um samfélagsmiðla framtíðarinnar til að geta dreift myndunum sem víðast. Á einhvern skrítinn hátt finnst manni sjálfuæði 21. aldarinnar, hugmyndirnar sem mótuðu 20. öldina og tæknin sem við erum með í höndunum í dag vera að fæðast einmitt þarna. Þetta er sérviskuleg kvikmyndagerð, nánast eins og svissnesk Wes Anderson-mynd, og þó, það er oftast alla vega einhver vísir að söguþræði í myndum Andersons, því er ekki að heilsa hér, sem sannarlega er helsti galli myndarinnar, en söguþráður er mögulega í andstöðu við alvöru anarkisma.
Stærsti kostur myndarinnar er hvað hún er sannfærandi aldarspegill, bæði finnst manni maður virkilega staddur á ofanverðri 19. öld og eins er heillandi að sjá þessar lykilhugmyndir 20. aldarinnar ræddar án allra þeirra sögulegu bagga sem við erum vön að fylgi þeim.
Og róttæknin nær til úrsmiðanna, það er yndisleg þversögn fólgin í því að hliðarverðir tímans og reglufestunnar gerist hallir undir stjórnleysi, þversögn sem kristallast í titlinum, í því að nákvæmnin þurfi nauðsynlega smá óróa.
Pistillinn birtist upphaflega í Lestinni á Rás 1 þann 6. mars 2011.