Fyrir okkur fastagestina á Berlinale kvikmyndahátíðinni var hátíðin í ár nett sjokk. Hið sögufræga en uppavædda Potsdamer Platz, höfuðvígi hátíðarinnar, er afskaplega draugalegt miðað við fyrri ár, ófáir staðir eru að nýta tækifærið til framkvæmda og ekkert er á sama stað og síðast. Það þarf þrjár bólusetningar og próf á hverjum degi til að komast í bíó með grímur í sali sem eru aðeins hálffullir. Covid-prófið er svo tekið í endurhönnuðum strætó.
Veðrið ákveður svo að vera með í hamfarastemmningunni undir lokin og á brestur einn versti stormur sem skollið hefur á þessum hluta Evrópu í áraraðir, sem þýðir svosem ekki nema slagviðri í Berlín – en líka að ótal lestum er frestað, síðustu fimm daga hátíðarinnar er varla fært frá borginni. Ástæðan skilst mér að sé aðallega öll tréin sem hrynja á lestarteinana. Versta slysið var þó tískuslys, hinum gullfallegu Berlinale-töskum var skipt út fyrir magatöskur sem ekki nokkur maður notaði.
En heimsfaraldur og ofsaveður kemur ekki í veg fyrir gott bíó og strax á fyrsta kvöldinu er blaðamannasýning á Berdreymi eftir Guðmund Arnar Guðmundsson. Hann hefur áður sent frá sér Hjartastein og stuttmyndirnar Ártún og Hvalfjörð. Allt fínustu myndir, en engar þeirra kannski mikil tíðindi, maður hafði séð þetta flest áður. Krummaskuðið Ísland með ringluðum unglingum.
En Berdreymi er risastórt stökk fram á við. Enn eru unglingsstrákar í aðalhlutverkum, við erum stödd rétt fyrir eða í kringum síðustu aldamót, en núna er Guðmundur virkilega búinn að finna sína rödd og sína sögu. Hér er dýpt og flækjustig sem er sjaldséð í íslenskum bíómyndum, en þó er sagan í raun einföld í grunninn.
Þetta er Reykjavíkurmynd og norðmaðurinn Sturla Brandth Grøvlen, einn flinkasti kvikmyndatökumaður heims, heldur áfram að gæða Ísland lífi – í þetta sinn birtist okkur líflegt og fjölbreytt borgarlandslag, mest í Vesturbænum, sem aldrei hefur litið betur út á hvíta tjaldinu.
Aðalpersónurnar eru Balli, Addi, Konni og Siggi – Balli hefur lent í svæsnu einelti, en Addi hefur frumkvæði af því að taka hann inní villingagengið sem hann er í ásamt Konna og Sigga. Hér virðast flestir synir einstæðra mæðra, maður þekkir allar þessar týpur, þeir eru að vísu ekki allir í sama hlutverki og þeir voru á þinni skólalóð, lífið hefur beint þeim í aðrar áttir – en þú þekkir þessa stráka, hvern einn og einasta.
Birgir Dagur Bjarkason, Áskell Einar Pálmason, Viktor Benóný Benediktsson og Snorri Rafn Frímannsson eru fantagóðir í hlutverkum strákanna og Anítu Briem hef ég aldrei séð betri, en hún er eiginlega eina fullorðna manneskjan sem er almennilega til staðar fyrir þessa stráka.
Þessir strákar eru villingar og slagsmálahundar sumir, en um leið ristir væntumþykja þeirra í garð hvers annars djúpt, það er afskaplega falleg og sönn vinátta sem hér birtist. Og sterk réttlætiskennd þrátt fyrir allt, siðferðiskompás þeirra er í raun rétt stilltur – en þeir reka sig sífellt á í grimmum heimi.
Töfraraunsæi bregður líka fyrir þegar Adda fer að dreyma, titilinn reynist vera bókstaflegur – og sá hluti er afskaplega vel útfærður, gengur upp gagnvart bæði hinum skeptísku og hinum.
Niðurstaðan er svo einfaldlega sú að þrátt fyrir fjölda magnaðra íslenskra mynda síðustu ár er þetta hreinlega sú besta sem ég hef séð síðan Nói albínói keypti sér maltflösku fyrir nítján árum síðan.
Berdreymi er unglingamynd en er sýnd í Panorama-flokki hátíðarinnar. En Berlinale er held ég stærsta kvikmyndahátíð heims sem er með sérstaka flokka fyrir barna- og unglingamyndir og í Generation 14 Plus er frábær finnsk mynd sem er prýðilegur kontrapunktur við Berdreymi. Þetta er myndin Stelpa, stelpa, stelpa, eða Tytöt tytöt tytöt, og fjallar eins og nafnið gefur til kynna um þrjár unglingsstelpur – kannski nokkrum árum eldri en strákarnir í Berdreymi – þeir virðast í kringum 14-15, þær kannski 17-18.
Þessi mynd hennar Alli Haapasalo er fjári fyndin á köflum og það er bjartara yfir henni, já, þetta er sjaldséð finnsk gleðisprengja. Rönkkö og Mimmi vinna á einhvers konar smoothie-bar í verslunarmiðstöð eftir skóla, þar sem þær slúðra og segja brandara. Rönkkö er fyndna og hressa stelpan í skólanum sem á samt í endalausum vandræðum í strákamálum, Mimmi er skapstóri töffarinn – en veröld hennar fer svo algjörlega á hvolf þegar hún kynnist skautadrottningunni Emmu. Einn helsti kostur myndarinnar, fyrir utan galsafenginn húmorinn og lífsgleðina, er svo hversu Emma kemur mikið á óvart. Maður býst við ferköntuðu skautadrottningunni með aðeins eitt markmið í lífinu, en þvert á móti er það hún sem er tilbúin til að umturna öllu þegar ástin bankar á dyr, ólíkt Rönkkö og Mimmi sem tala þó út í eitt um ástarmál.
Plágan sitt hvorum megin á hnettinum
En aftur til Íslands – með viðkomu í Argentínu. Það var sérstakt tveggja mynda prógramm á hátíðinni sem bar yfirskriftina „Árið sem plágan tók yfir heiminn.“ Þetta eru tvær mjög ólíkar myndir sem maður skynjar samt sterkt að voru gerðar akkúrat vegna þeirra aðstæðna sem sköpuðust í kófinu og sú fyrri er eftir eina þekktustu leikstýru Argentínu, Lucreciu Martel, og er 40 mínútna mynd um söngkonu og sérkennilega söngfugla sem í upphafi kófs leita skjóls í Salta-héraði, syngja og segja sögur fyrir myndavélina. Myndin heitir Terminal Norte, eða Norðurstöðin, og leiðir okkur svo norður til Íslands. Dagskrárstjórinn lýsir því fyrir sýningu hvernig þau höfðu leitað lengi áður en þau fundu réttu myndina til að sýna með mynd Martel – en fundu að lokum 20 mínútna stuttmynd Hlyns Pálmasonar, Hreiðrið.
Myndin gerist öll á sama blettinum, bókstaflega – myndavélin yfirgefur aldrei sitt eigið hreiður, þar sem hún hefur verið rækilega fest, og fylgist með hreiðurgerð beint á móti. Fyrst sjáum við staur, svo sjáum við tréhús hægt og rólega taka á sig mynd ofan á staurnum – og þetta sjáum við í öllum veðrum. En það sem mestu er þó um vert er að þau Ída, Grímur og Þorgils, börn Hlyns, eru þarna að væflast öllum stundum – og börnin eru einfaldlega gamanleikarar af guðs náð. Ída Mekkín er þeirra elst og reyndust, enda aðalleikkonan úr Hvítum, hvítum degi, og þetta er leikin mynd líka, þótt vissulega séu þau í einhverjum skilningi að leika sjálf sig, þetta er lausbeislaður spuni – mögulega á mörkum hins leikna og heimildarmyndar, en aðallega afskaplega fyndin og skemmtileg svipmynd af lífi íslenskra barna.

Svo er bara óskandi að fleiri reyndir leikstjórar fari að dæmi Hlyns og geri áfram stöku stuttmyndir þótt þeir séu byrjaðir að leikstýra myndum í fullri lengd, þær þurfa ekki bara að vera fyrir nýliða í kvikmyndagerð.
Týndir á Grænlandsjökli
En afsakið jákvæðnina, hún verður hér með kolefnisjöfnuð með því að minnast á Against the Ice, mynd sem Baltasar Kormákur framleiðir. Baltasar hefur á seinni árum sérhæft sig meira og meira í þrautseigjumyndum, myndum um baráttu mannsins við náttúruöflin. Það tókst prýðilega í Djúpinu, þokkalega í Everest og skelfilega í Adrift. Sú nýjasta er að minnsta kosti skárri en sú síðastnefnda. Hér er það danski leikstjórinn Peter Flinth sem leikstýrir, en hann er líklega frægastur fyrir myndir sínar um sænska riddarann Arn og hefur auk þess gert myndir um Wallander og Ólsen-gengið.
Against the Ice er byggð á ansi magnaðri sannri sögu og hefur alla burði til að vera mögnuð bíómynd. Þeir Ejnar kafteinn og nýgræðingurinn Iver ganga yfir mestallt Grænland árið 1909 til þess að sanna að Grænland sé ein eyja, en á þessum árum héldu sumir fram þeirri kenningu að norðurhluti Grænlands væri í raun aðskilið land og á þeim forsendum gerðu Bandaríkjamenn kröfu til landsvæðisins. Og hver veit, kannski komu þeir félagar í veg fyrir að Trump boraði fyrir olíu við heimskautin rúmri öld síðar?
En klisjukenndur titillinn er vísbending um að eitthvað sé að og ekki skánar það þegar í ljós kemur að hér eru fyrst og fremst danskir og íslenskir leikarar að leika Dani og Íslendinga, en allir tala misgóða ensku – sem gefur hinum enska Charles Dance dauðafæri til að stela myndinni með að leika lítið hlutverk á móðurmálinu, sem hann lætur sér ekki renna úr greipum. Aðalvandinn er þó ekki framburðurinn, hann sleppur í sjálfu sér fyrir horn, en það gerir handritið ekki. Enskan, díalógurinn og persónusköpunin eru lítt sannfærandi og enn síður að svona hafi menn talað fyrir 113 árum síðan.
Sem er synd af því tæknilega er myndin vel úr garði gerð, hasaratriði á hundasleðum og við sprungur og kletta eru mörg alveg prýðileg – en falla þó flöt þegar aðalpersónurnar eru skrifaðir eins og spýtukarlar. Og líklega löngu kominn tími á að menn átti sig á að lókal sögur sagðar á ensku með innlendum leikurum eru handónýt viðskiptahugmynd, maður sér menn fara flatt á þessu aftur og aftur, bæði listrænt og fjárhagslega. Evrópa er nefnilega ekkert að fara að vinna Hollywood í því að vera Hollywood. Við getum hins vegar vel gert Evrópskar myndir betur en Hollywood.
Þau Gísli Örn Garðarson og Heida Reed birtast hér í litlum hlutverkum, en lykilmaður við gerð myndarinnar er svo annar aðalleikarinn, Nikolaj Coster-Waldau, sem leikur kafteininn Ejnar en er þekktastur fyrir frumraun sína í Nattevagten. Hann er giftur inní grænlenska valdafjölskyldu, eiginkonan er fyrrum ungfrú Grænland og tengdafaðirinn fyrrum ráðherra af Motzfeldt-ætt – og það er meira að segja minnst á einn löngu gengin Motzfeldt í myndinni. Coster-Waldau skrifar sjálfur handritið ásamt Joe Derrick. En Grænland á betri mynd skilið. Manni leiðist svosem aldrei, myndin heldur alveg, þökk sé sannri sögunni og mikilfenglegu landslaginu, en aulahrollurinn klifraði ansi oft upp hryggjarsúluna.
Þetta var líklega ein íslenskasta Berlinale í manna minnum. Í Berlinale Series, sjónvarpshluta hátíðarinnar, voru Svörtu sandar sýndir og sömuleiðis The Rising, bresk draugasaga þar sem Þóra Hilmarsdóttir leikstýrir tveimur þáttum.
En látum þetta duga um hið íslenska Berlinale, í næsta innslagi munum við ræða betur sumar af bestu útlensku myndum hátíðarinnar.
Pistillinn var upphaflega fluttur í Lestinni á Rás 1 27. febrúar 2022.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson