Maður veit auðvitað lítið hverju maður á að búast við þegar maður mætir á tónleika hjá finnsku bandi í Helsinki sem maður hefur aldrei heyrt um – en þar sem mér var boðið af virðulegum menningarblaðamanni reiknaði ég með að þetta geti nú ekki verið svo slæmt. En svo reyndust þetta bara vera þrælmagnaðir tónleikar.
Bandið heitir Luukas Oja og þau eru fimm á sviðinu. Baka til sést glitta í gítarleikarann Iivari Nenonen, bassaleikarann Ilkka Nanouchen og trommuleikarann Olavi Tanttu, en hér eru strákarnir í bakgrunninum – þetta er í grunninn stelpuband og stofnendur sveitarinnar, þær Iita Ylönen og Jessica Kräkin, standa fremstar og syngja, auk þess sem Iita spilar á gítar. Jessica er krúnurökuð og aðeins til baka, Iita með gítarinn og eldrautt hárið stýrir bandinu og gantast við áhorfendur á milli laga.
Og þetta er þétt en um leið mjög melódískt band, við stöndum á bak við búrið sem er fyrir miðju og hýsir hljóðmennina, sem tekst ótrúlega vel að láta heyrast hátt og snjallt bæði í hljóðfærum og söngkonum án þess að annað drekki hinu.
Ég hugsa ósjálfrátt um Grýlurnar, Dúkkulísurnar og Kolrössu krókríðandi – og svona í framhjáhaldi má nefna að ég hef einmitt mikið verið að spila Sísí fríkar út fyrir erlenda vini undanfarið, enda dúndur lag.
En aftur að tónleikum kvöldsins. Þetta er hörkuband, mikil spilagleði og kraftur – og já, bara almenn gleði að vera loksins að spila og fagna sinni annarri plötu. Vafalaust ófá böndin að skríða út úr bílskúrnum eftir kófið eftir að hafa æft stíft í tvö ár.
Tónleikarnir eru ekki langir, en það er einfaldlega af því þau vilja ekki spila neinar ábreiður, bara eigin lög af þessum tveimur plötum. Ég skil vissulega ekki mikið í finnskum textanum, en Harri hvíslar reglulega þýðingum að mér – oftast hálf-flissandi (sem er sjaldgæft með Harri), það er greinilega húmor í textunum sem skilar sér kannski ekki alltaf í þýðingu. Það er leikur í þeim, kaldhæðni og dökkur húmor segir hann mér seinna. Sá einarði antisportisti sem Harri er hafði meira að segja gaman af lagi um að fara í ræktina.
Hér fyrir ofan má svo hlusta á plötuna í heild sinni – já, eða hér á Spotify. Bandið á rætur að rekja til finnsku landsbyggðarinnar – þær Iita og Jessica eru frá Heinävesi (mannfjöldi: 3134) en bandið verður til í Joensuu (mannfjöldi: 77.266) – en báðir staðirnir eru í Kirjálahéraði, sem deilir 300 kílómetra landamærum með Rússlandi – en hinum megin er einmitt rússneskur hluti Kirjálahéraðs og hafa landamærin flakkað nokkuð í gegnum aldirnar.
En svo var mér líka hugsað til tékkneska eitís pönksins við hlustunina, aðallega af því ég uppgötvaði nýlega að Pavla Jónsson, eiginkona Darrells samstarfsmanns míns í vídjóljóðlistinni, var einn forsprakki tékknesku senunnar – og ég áttaði mig ekki á hversu mikil lykilmanneskja hún var í þeirri senu fyrr en ég las þetta langa viðtal í Wire, sem kallar hana hvorki meira né minna en „Czechoslovakia’s first riot grrrl,“ en Pavla, sem nú er sextug, var átján ára þegar hún var meðlimur sveitanna Plyn, Dybbuk og Zuby Nehty – sem voru allt meira og minna sama sveitin, en á tímum ritskoðunnar varð ekki óalgengt að róttæk bönd skiptu um nöfn eins og sokka, enda sífellt verið að banna þau. Alræmd grein í málgagni kommúnista málaði pönkið upp sem vestrænan áróður – sem tónlistarblaðamaðurinn Josef Vlček leiðrétti þó seinna og benti á að The Clash og fleiri pönkbönd væru sannarlega sprottinn úr verkalýðsstétt. Aðalsöngkonan Marka Horáková (nú Míkova) var þó fræg sem prinsessa, hafði slegið í gegn í tékkneskri útgáfu af Öskubusku árið 1977 áður en hún var fengin í pönkið.
En lög þessa margnefnda bands má helst finna undir Zuby Nehty, þar á meðal þetta lag hér sem við ljúkum pistlinum á, pistli sem hófst í Finnlandi en var loksins kláraður þegar smyglari var mættur aftur til Tékklands.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson