Í upphafi Top Gun: Maverick fréttir Tom Cruise af yfirvofandi niðurskurði í sinni flugdeild og bregst við með því að fljúga ofurflugvél, sem kostaði ameríska skattgreiðendur marga marga milljarða, ógeðslega hratt – og endar á að eyðileggja hana. Þetta er leið leikstjórans til að segja okkur að við eigum að halda með þessum gaur, um leið og hann er færður til í starfi. En ekki bara leið leikstjórans heldur líka leið Bandaríkjahers – sem lagði vitaskuld blessun sína yfir handritið og skrifaði það sjálfsagt líka, enginn alvöru Hollywood-handritshöfundur myndi raunverulega skrifa þann hroðbjóð sem handritið af þessari mynd er án þess að vera tjargaður og fiðraður og sendur beina leið í einhverja ö-mynda fabrikku í vel földu neðanjarðarbyrgi. Og ég efast um að nokkur önnur stofnun í veröldinni gæti haft svona bjagaðar og kjánalegar hugmyndir um uppreisnarseggi og þá sem birtist okkur í líki Maverick. Jú jú, kannski dælir Norður-Kóreski herinn líka út álíka kjánalegum og klunnalegum áróðursmyndum. Og þó, líklega eru bíógen kóreubúa of sterk til þess að sökkva svona lágt, jafnvel sá hluti þeirra sem er undir alræðisstjórn.
Ekki misskilja mig, ég fíla góða Tom Cruise hasarmynd jafnvel og hver annar – Edge of Tomorrow er meistaraverk og Mission: Impossible myndirnar almennt mjög fínar, svo ekki sé talað um mörg ágæt alvarlegri hlutverk. Krúsi venst nefnilega á einhvern skringilegan hátt ágætlega sem leikari. Hann virkar vissulega á mann eins og óþolandi merkikerti – en hann hefur verið merkilega lunkinn við að finna myndir sem ýmist nýta merkikertið vel eða snúa skemmtilega upp á þann persónuleika. En svo eru auðvitað nokkrar alveg skelfilegar myndir á ferilsskrá Tomma, og þeirra verstar eru mögulega Top Gun og Oblivion. Maður að nafni Joseph Kosinski leikstýrði þeirri síðarnefndu og var fenginn til að leikstýra framhaldinu af Top Gun – og niðurstaðan er mjög rökrétt niðurstaða af því kombói: einhver alversta bíómynd sem hægt er að eyða hundraðogsjötíu milljónum bandaríkjadollara í að gera.
Nú skil ég alveg að einhverjir hafi óslökkvandi áhuga á flugvélum – en í alvöru, reddið ykkur frekar tíma í flughermi eða reynsluflugi. Já, eða laumist bara inn síðasta hálftímann, sem er vissulegi þokkalegasti flugvélahasar.
Svo get ég líka alveg skilið að einhverjum finnist Tom Cruise eða Jennifer Connelly svo sæt að þau kaupi bíómiða – en bæði hafa verið í miklu miklu betri myndum þar sem þau eru alveg jafn sæt, ef ekki sætari. Meira að segja miklu betri hasarmyndum.
Og kannski þrá bara einhverjir góðan gamaldags stílíseraðann Jerry Bruckheimer hasar – en þá leigiði frekar bara The Rock eða Crimson Tide eða Con Air, einhverja af þessum Bruckheimer myndum þar sem hann mundi eftir að ráða handritshöfunda og leikstjóra sem kunnu að láta leikarana leika eins og alvöru manneskjur, þótt ýktar væru.
Miles Teller er skástur þeirra sem Rooster, en hlutverkið er samt bara fölur skuggi af hans frægasta hlutverki í Whiplash, í báðum myndum leikur hann oflátung sem er með kennara sem beitir afskaplega vafasömum aðferðum – en gæðamuninn á myndunum er ekki hægt að mæla án þess að sprengja alla skala.
Rooster er vel að merkja sonur Goose, sem Anthony Edwards lék í fyrri myndinni. Ég tók stutt viðtal við Edwards fyrir tæpum fjórtán árum og umsögn hans um fyrstu Top Gun myndina var ansi afdráttarlaus – og um leið hárrétt greining:
„Ég var aldrei sáttur við boðskap myndarinnar, en þetta var ákvörðun sem ég tók fyrir ferilinn og hjálpaði mér á mjög sjálfselskan hátt, en gerði mig um leið hryggan fyrir að birta glansmynd af hernum. Þetta er ekki sagt af vanvirðingu við herinn, en ég held að hermennska sé ekki eitthvað skemmtilegt ævintýri, heldur erfið og hættuleg vinna.“
Enda eru myndirnar ekkert annað en illa gerðar glansauglýsingar fyrir flugherinn. Sem maður hélt að þyrfti varla, Bandaríkjamenn hafa jú byggt upp þetta prýðilega smölunarkerfi fyrir herinn, þar sem hermennska er oft eina leið krakka úr fátækrahverfum til mennta. En Top Gun-myndunum er væntanlega ætlað að tryggja að nokkur sálarlaus heldrimannabörn freistist líka í herskóla, enda virðast allar persónurnar myndarinnar falla undir nákvæmlega þá mannlýsingu.
En við skulum samt reyna að finna eitthvað jákvætt. Já, gott ef það eru ekki þrjú ljós í þessu svartamyrkri:
1: Val Kilmer á eitt atriði í myndinni. Valsmaðurinn sá er að glíma við erfið veikindi sem gera honum erfitt um mál, rétt eins og persónu myndarinnar – en eftir að hann pikkar fyrstu línurnar sínar inní tölvu og leyfir Maverick að lesa þá grunaði mig eiginlega að þetta væri bara yfirskyn hjá Kilmer til þess að komast hjá því að lesa upp þennan hroðbjóð. En svo lætur hann reyna á brothætta röddina og í kjölfarið kom eini brandari myndarinnar sem mér stökk bros yfir.
2: Ed Harris (71) kallar Tom Cruise (59) á teppið og segir: „Endirinn er óhjákvæmilegur. Þínir líkar eru að verða útdauðir.“ Þá hugsar maður tvennt: er ekki fullhart hjá Harris (sem hefur verið 71 árs í allavega 30 ár) að kalla Krúsa (sem hefur verið 16 ára í 43 ár) risaeðlu og bjóða honum strax pláss á Grund? En svo hugsar maður líka: er þetta ekki eina línan í myndinni með einhverja dýpt? Harris að hafa orð á því að Krúsi sé síðasta alvöru kvikmyndastjarnan, nú á dögum þegar nafnið á Harry Potter-leikaranum eða ofurhetjuleikaranum eða leikaranum að flýja tölvugerðu risaeðlurnar skiptir sjaldnast nokkru máli lengur.
3: Lokabardaginn er svo sem fyrr segir alveg þokkalegur hasar. Hefði vissulega getað verið miklu þéttari – og hefði verið gaman ef manni hefði ekki verið svona innilega saman um allar aðalpersónurnar, en sem heilalaus hasar slapp þetta alveg fyrir horn.
Það kemur vel að merkja aldrei fram hver óvinurinn er. Hann er aldrei kallaður annað en óvinurinn – „The enemy“ – og engar alvöru vísbendingar sjást aðrar um illsku óvinarins. Menn hafa ekki einu sinni fyrir því að skálda eitthvað Langtíburtistan nafn á óvinaríkið.
Þetta kjarnar ágætlega bæði innihaldsleysi og heigulshátt myndarinnar, hún þorir ekki fyrir sitt litla líf að takast á við heim þar sem óvinir Bandaríska flughersins eru alvöru lönd og alvöru fólk, ekki bara punktar á ratsjám og óræð fjallahéruð sem gætu verið nánast hvar sem er. Þetta er mynd þar sem uppreisnarmaðurinn er innmúraður og innvígður í kerfið. Þetta er mynd sem þorir engan að styggja – já, fyrir utan vitsmuni gervallrar heimsbyggðarinnar auðvitað.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson