KVIFF 3
Ofurhetjur
Supereroi
Superheroes
Leikstjóri: Paolo Genovese
Aðalhlutverk: Jasmine Trinca & Alessandro Borghi
ÍTALÍA 2021
Ofurhetjur fjalla ekki um hefðbundnar ofurhetjur í spandex-göllum, heldur par – og hugmyndin er sú að það að halda parasambandi gangandi jafngildi því að vera ofurhetja, en það er einmitt viðfangsefni myndasöguseríunnar Ofurhetjur, eða Supereoi, sem myndasöguhöfundurinn Anna semur á milli þess sem við fylgjumst með sambandi hennar við vísindamanninn Marco.
Við þessi einhleypu hnussum vitaskuld ósjálfrátt yfir upplegginu, en harðgift fólk sem ég hitti eftir mynd hnussaði ekkert síður. Þetta er heimur þar sem ströglandi listamenn búa í draumaíbúðum í einni af tískuhöfuðborgum heimsins. Þetta er einfaldlega fólk sem þarf ekki að hafa fyrir neinu og það vantar öll alvöru átök í þessari mynd, þannig að þau Anna og Marco ná varla að vera ofurhetjur á neinn hátt, nema kannski á sama hátt og Hábeinn heppni getur talist vera ofurhetja. Og þegar vandamálin knýja dyra þá er það of seint og of ósannfærandi.

Að því sögðu þá er myndin alveg sjarmernandi á köflum, oft á sama tíma og hún er óþolandi – en hún er töluvert meira óþolandi en sjarmerandi. Aðalleikkonan Jasmine Trinca heldur myndinni uppi og Alessandro Borghi er sömuleiðis ágætur sem Marco. Söguþráðurinn er brotinn upp þannig að við vitum aldrei hversu snemma eða seint okkur ber niður í sambandinu nema út frá hárgreiðslu aðalpersónanna, og það er raunar ágætlega leyst tæknilega – hárgreiðslumeistararnir eru stjörnur myndarinnar – en mun síður þegar kemur að því að láta þetta tímaflakk hjálpa sögunni. Það er einfaldlega takmörkuð þörf á þessu frásagnarbragði – og er það raunar oftast eftir að Tarantino kom því í tísku fyrir rúmum aldarfjórðungi síðan. En Trinca, hárgreiðslumeistararnir og götur Mílanóborgar eiga betri mynd skilið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson