Við erum stödd í huggulegu fjölskylduhúsi í gömlu Júgóslavíu, þar sem nú er Króatía, einhvern tímann á níunda áratugnum. Þegar Júgóslavía var lítt þekkt millistærð á milli austurs og vesturs, með sinn eigin kommúnisma en þó mun vestrænni en öll hin löndin í Austurblokkinni. Sem var auðvitað ekki heilstæð blokk; Hoxha og Ceaușescu höfðu klippt á naflastrenginn við Moskvu, rétt eins og Tító – en ólíkt honum boðuðu þeir meira alræði, ekki minna.

En allavega, aftur að huggulega fjölskylduhúsinu þar sem mamman er að ná í leirtau fyrir matinn og brýtur disk. Það er einhver ógn, einhver óþægileg orka í loftinu – yfir einum skitnum disk. Eiginmaðurinn bætist fljótlega í hópinn sem og táningssonurinn – og öll bíða óþreyjufull þegar frændinn rennur í hlað. Ef þið hafið fylgst þó ekki nema örlítið með Balkan-bíói síðustu áratuga þekkið þið örugglega frændann, sem Miki Manojlović leikur, en Manojlovic hefur verið fastagestur í myndum Kusturica og annarra helstu leikstjóra balkneskra síðustu áratugina.

KVIFF 5

Frændinn

Stric

The Uncle

Leikstjórar: David Kapac & Andrija Mardešić

Aðalhlutverk: Predrag Miki Manojlović, Ivana Roščić, Goran Bogdan, Roko Sikavica & Kaja Šišmanović

KRÓATÍA 2022

Þessi stjörnuára er örugglega enn sterkari fyrir Júgóslavana sjálfa – og samsvarar ágætlega orkunni sem hlutverkið krefst, en fjölskyldan er öll á tánum í kringum frændann, sem kemur hvorki meira né minna frá Þýskalandi.

Gastarbeiter er þekkt hugtak um íbúa Balkansskagans sem komu til Þýskalands að vinna og sendu pening heim, hugtak sem á sömuleiðis við um Tyrki og í raun alla íbúa fátækari landa sem komu til Þýskalands, Austurríkis eða Sviss að freysta gæfunnar; Júgóslavar og Tyrkir voru bara mest áberandi hóparnir á þessum tíma.

Hér sjáum við ákveðna táknmynd þessarar týpu – ríka frændann sem kemur frá útlöndum með gull og græna skóga til að gefa. Pínulítið eins og Íslendingur nýkominn úr fríhöfninni í gamla daga, með fullar töskur af M&M handa öllum krökkunum og bjór handa þeim fullorðnu. Í viðtali við leikstjórana kemur fram að þetta var oftast ódýrt skran úr næstu bensínsjoppu fyrir landamærin – en þetta ódýra skran varð skyndilega verðmætt þegar yfir landamærin var komið.

Og það eru jól, hvorki meira né minna. Allt er gert til að hafa upplifunina fullkomna, en það vantar alltaf herslumuninn. Og svo kemur frændinn aftur næstu jól. Og þarnæstu. Og fljótlega áttum við okkur á að það eru alls ekkert jól – enda sumarveður úti – heldur kemur frændinn á hverju kvöldi og aftur og aftur er reynt að skapa hin fullkomnu jól.

Þetta er leikrit og hægt og rólega fáum við einhverjar skýringar af hverju það stafar, þó varla fullnægjandi – nema bara það að frændinn er augljólslega húrrandi geðveikur og fjölskyldan er ansi tæp líka. Og það bendir ýmislegt til þess að frændinn búi alls ekkert í Þýskalandi – það tekur jú sex tíma að keyra á milli München og Zagreb, svo ég taki raunhæft dæmi, og það væri ansi mikil skuldbinding að keyra tólf tíma á hverjum degi til að gera leikritið meira sannfærandi. Sérstaklega þegar ferðalagið tók sjálfsagt lengri tíma þegar landamæraeftirlit á milli þessara landa var strangara.

En þessi endurteknu jól gera myndina líka ansi endurtekningarsama. Hún byrjar vel en svo er maður eiginlega búinn að ná erindi hennar á fyrsta kortérinu – og svo er bara meira af því sama. Eins stingur dálítið að familían býr ansi vel – og raunar mjög vel ef þau halda jól alla daga og hafa aldrei tíma til að vinna – og því ekki sérlega sannfærandi að þýski frændinn hafi slíkt hreðjatak á þeim. Nema auðvitað ef hann eigi húsið og borgi reikningana?

Og sjálfur man ég raunar gastarbeiter síðustu aldar allt öðruvísi, menn að þræla sér út í austurrískum fjallaofa og leyfa sér lítið, þar sem þeir sendu megnið af launaseðlinum heim til fjölskyldunnar sem þeir hittu bara í sumarfríum og í gegnum tíkallasíma á kvöldin.

Að því sögðu þá fíluðu Júgóslavarnir sem ég hitti myndina mun betur en ég, þannig að mögulega eru einhver nostalgísk stef í myndinni sem virka bara á þeim sem fengu Tító-árin beint í æð. Þeir töluðu raunar einnig um að svona mynd hefði ekki verið gerð á Balkanskaganum fyrr – en hún sver sig hins vegar í ætt við ákveðin austurrískan nýhilisma úr myndum Haneke, Ulrich Seidl og kannski sérstaklega Goodnight Mommy – en myndi falla í verri hóp slíkra mynda, þeirra þar sem mannvonskan er eina gildið og maður hefur einfaldlega á tilfinningunni að leikstjórinn hati fólk (Haneke, ég er að horfa á þig), þótt mynin sé dressuð upp sem einhvers konar ádeila.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson