Hvenær líkur blómaskeiðum? Eða nýbylgju, eins og blómaskeið kvikmyndanna eru iðullega kölluð; franska nýbylgjan, rúmenska nýbylgjan eða tékkneska nýbylgjan. Það er oftast erfitt að festa fingur á það – en þó voru endalok tékknesku nýbylgjunnar nokkuð harkaleg; eftir að skriðdrekarnir rúlluðu inní Prag í ágúst 1968 var ljóst að tékkneska nýbylgjan myndi ekki lifa lengi í viðbót.
En kvikmyndaiðnaður heillar þjóðar er þó oftast þunglamalegur og seinn í vöfum, það tekur tíma að snúa stóru olíuskipi við og sama á við um heilu menningarsvæðin. Lesist: það tók tíma fyrir Rússana að koma ásættanlega flokkpólitískri línu á menningarlífið. Þess vegna er drjúgur hluti tékkóslóvakískra mynda á árunum eftir 1968 áfram réttmætur hluti af tékknesku nýbylgjunni – þótt hægt og rólega yrði pólitíkin vitaskuld meira og meira undir rós.
Brandarinn
Žert
The Joke
Leikstjóri: Jaromil Jireš
Aðalhlutverk: Josef Somr, Jana Dítětová, Luděk Munzar, Jaroslava Obermaierová
TÉKKÓSLÓVAKÍA 1968
En Brandarinn, sem Jaromil Jireš gerði eftir samnefndri frumraun Milan Kundera – féll í raun á milli þilja. Hún var tekin upp fyrir innrás en kom ekki í bíó fyrr en eftir innrás. Og ritskoðunin var greinilega ennþá að ná sér á strik, enda var myndin sýnd og gekk ágætlega í bíó – en var svo snarlega bönnuð næstu tuttugu árin, þegar kommúnistarnir áttuðu sig á hvers konar andófsmynd myndin var.
Myndin fjallar um Lúdvík Jahn, vísindamann sem er bitur út af atburðum löngu liðinna háskólaára á Gottwald-tímanum, þegar saklaus brandari sem var skjalfestur í póstkorti til kærustunnar varð til þess að honum er cancelað að þeirra tíma sið.

Þegar nýuppgert eintak af myndinni var kynnt í Karlovy Vary var hún svo auðvitað kynnt sem mynd sem aftur skipti máli, af því byrjað væri að bannfæra fólk á nýjan leik – þótt á öðrum forsendum væri. Og kaldhæðnin er sú að Lúdvík myndarinnar er raunar óttaleg karlremba inn við beinið, þannig að sjálfsagt yrði honum cancelað fyrir það núna í dag.
En Lúdvík er andhetja, jafnvel á þeim tímum sem myndin er gerð. Hann er bitur yfir áratugsgömlu óréttlæti – og verður brjóstumkennanlegur í misheppnaðri hefnd sinni, enda hafa tímarnir breyst og ný kynslóð vaxin úr grasi sem er miklu opnari og uppreisnargjarnari en hann nokkurn tímann var, uppreisnarmaður síðustu kynslóðar. Hann er orðinn náttröll, hefndin byggist á gömlum siðprúðum gildum sem hafa verið tekin úr sambandi.
Þetta er fínasta mynd, en þó vantar kannski aðeins meiri dýpt – sem ég get ímyndað mér að sé í bók Kundera, sem ég á ólesna enn. Það bætti þó töluvert upplifunina að okkur var sagt að Josef Somr léki aðalhlutverkið í henni, rétt áður en tjaldið féll – og ein af stiklum hátíðarinnar var spiluð, en Karlovy Vary stiklurnar eru gamansamar stuttmyndir með fyrrum verðlaunahöfum hátíðarinnar, í þetta skiptið með heyrnadaufum, öldruðum og önugum Josef Somr.
Besti kafli myndarinnar er svo byrjunin – einhvers konar klukka og leikföng á hreyfingu, undurfögur, og frábær músík undir. Fáeinum árum síðar gerði svo Jireš sína frægustu mynd, Valerie og viku undranna (Valerie a týden divů), lykilverk áðurnefndrar nýbylgju sem ég lofa að horfa á áður en árið er liðið. Og gefa skýrslu, vitaskuld.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Takk fyrir þetta, fróðlegt og spennandi.