„Þig grunar margt saklaust fólk,“ segir Jung-an við eiginmann sinn, lögreglumanninn Hae-jun, þegar þau mæta tveim einstaklingum á förnum vegi sem bæði voru áður með stöðu grunaðra. Þarna er þó nokkuð liðið á myndina og okkur grunar að vandinn sé ekki að hann gruni mikið af saklausu fólki, frekar að hann sé ekki nógu duglegur að sakfella það.

Hae-jin er harðhausalögga í Busan og fær það verkefni að rannsaka dauða fjallgöngumanns. Flest lítur út fyrir að maðurinn hafi einfaldlega hrapað til bana, en Hae-jun er greinilega týpan sem leggur töluvert meira á sig í vinnunni en ætlast er til og klifrar meira að segja upp á snarbratt fjallið til að kanna allar mögulegar tilgátur.

KVIFF 7

Að fara

Heojil kyolshim

Decision to Leave

Leikstjóri: Park Chan-wook

Aðalhlutverk: Tang Wei & Park Hae-il

S-KÓREA 2022

Þetta háa og mjóa kóreska fjall er ein skærasta stjarna nýjustu myndar Park Chan-wook, Að fara (Heojil kyolshim eða Decision to Leave eins og enskir kalla hana). Það eru ekki margar senur þarna í fjallshlíðunum, en senurnar á fjallstindinum eru hreint magnaðar. Alveg óháð sögunni í raun. Og það á kannski við um myndina alla, í grunninn er þetta ósköp hversdagslegur lögguþriller – en með hreint út sagt stórkostlegri kvikmyndatöku, dulúðlegri og seiðandi stemmningu og mögnuðum leik í hverjum ramma. Svo er hún líka lúmskt fyndin á milli. Sushi átsenurnar glöddu meira að segja sushi-hatara á borð við undirritaðan og hinn alvarlegi Hae-jun er með afskaplega skemmtilega löggufélaga að hætti buddy cop myndanna góðu, tvo raunar, af því hann færir sig á milli lögregluumdæma um miðja mynd.

Það element myndarinnar sem fjallar um mismunandi borgir er örugglega enn fyndnara og forvitnilegra fyrir þá sem eru kunnugir staðháttum (ja, nema þetta séu bara klisjur sem við Íslendingar erum ekki orðnir leiðir á), en togstreitan á milli stórborgarinnar Busan og hins hægláta sjávarpláss Ito er dregin forvitnilegum strokum. Jung-an, áðurnefnd eiginkona löggunar, býr í Ito og á endanum flytur stórborgarlöggann í rólegheitin – en auðvitað eltir fortíðin hann þangað.

Þetta er klassísk rökkurmynd af bestu gerð og maður hugsar til skiptis um Bogart og Vertigo. Lögmálin í samskiptum sekra og saklausra og karla og kvenna minna mest á Bogart, en kvikmyndatakan, lofthræðslan og áráttuhegðun lögreglumanns að missa tökin eru beint upp úr Vertigo. Það mætti jafnvel fara fram í tímann og bæta Basic Instinct í naglasúpuna. Og alltaf þarf maður að læra upp á nýtt að það er ekki samasemmerki á milli þess að tálkvenndi myndarinnar sé sek og að hún elski ekki lögguna.

Tang Wei er svo einfaldlega frábær sem femme fatale myndarinnar, hún Seo-rae, kínversk ekkja fjallgöngumannsins látna. Hún er þekktust fyrir hlutverk sitt í Losta, varúð eftir Ang Lee og hér vitum við aldrei hvort hún er fórnarlamb eða gerandi – eða kannski bæði í senn. Eða, allavega ekki fyrr en það er of seint. Eiginmaðurinn látni hafði unnið hjá kóresku útlendingastofnuninni og hér saknar maður þess vissulega aftur að vera ekki kunnugri staðháttum, vita ekki meira um samspil S-Kóreu og Kína og innflytjenda á milli landanna.

Seo-rae talar brotna kínversku og notar stundum Google Translate til að koma flóknum hlutum til skila og eitt helsta afrek myndarinnar er einmitt hversu vel hún nýtir alls kyns nútímatækni sem hingað til hefur ítrekað verið klaufaleg og illa nýtt á hvíta tjaldinu. Gott dæmi eru pínlegheitin sem textaskilaboðasenur eru í mynd á borð við Personal Shopper, þar sem maður öskrar nánast á skjáinn: svona virka samtöl á internetinu ekki!

En hér eru snjallsímar og snjallúr notuð á hugvitsamlegan og sannferðugan hátt, bæði til að leysa málin og flækja málin, vitaskuld – en aðallega sem þau lykiltæki mannlegra samskipta og nútíma lifnaðarhátta sem þau eru orðin.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson