Við erum stödd í stóra salnum og leikstjórinn Brett Morgen mætir að kynna myndina, Moonage Daydream, expressjóníska sýn hans á sjálfan David Bowie. Það er smá Bowie í töktum Morgen, sem fékk ótakmarkað aðgengi að myndefni frá fjölskyldu tónlistarmannsins, þar á meðal teikningum sem fáir hafa séð.

Og þessi mynd er hugsuð sem upplifun, það er allavega hugmyndin, og fyrst nær hún mér – en svo týnir hún mér í langan tíma – þangað til hún nær mér aftur á lokasprettinum.

KVIFF 6

Moonage Daydream

Leikstjóri: Brett Morgen

BNA 2022

Og það skiptir máli hér að taka fram að ég elska Bowie. Af því alltof margar tónlistarheimildarmyndir eru í raun bara fyrir heitustu aðdáendurna og stundum kveður svo rammt að þessu að myndirnar hreinlega fæla aðra frá, jafnvel þá sem eru kannski áhugasamir um tónlistina en eru ekki tilbúnir til að ganga í költið. En þetta ætti einfaldlega ekki að vera vandamál í mínu tilfelli með þessa mynd.

En sem Bowie-aðdáönd bjóst ég síst af öllu við að fara að kvarta yfir tónlistinni í mynd um David Bowie. En jú, það er samt vandinn – eða öllu heldur notkun Morgen á henni. Myndin er illa haldin af athyglisbrest og það er alltaf tónlist undir, alltaf. Alveg sama hvað, allavega framan af. Jafnvel þegar Bowie er að tala um hugleiðslu, um að fara utan alfaraleiðar og vera einn með sjálfum sér; þá er samt dúndrandi instrumental tónlist undir. Þegar myndin sýnir okkur loks listaverkin sem hann hefur verið að tala um að hann sé ekki tilbúinn að sýna heiminun, þá fylgir því dúndrandi tónlist og tal úr viðtölum yfir listaverkunum, offlæði sem veldur því að allt fer fyrir ofan garð og neðan.

Það er dálítið eins og Morgen átti sig ekki á gildi þagnarinnar í tónlist – sem og kvikmyndum, sem er jú mjög músíkalskt lisform í eðli sínu – eitthvað sem tónlistarmaður eins og David Bowie skilur án þess að þurfa að hugsa það mikið.

Myndin hefst vel að merkja á tilvitnun í Bowie þar sem hann leggur út frá orðum Friedrich Nietzche. Og þetta var sá Bowie sem ég saknaði þegar leið á myndina. Bowie var nefnilega fjölfróður spekingur sem var viðræðuhæfur um listir og sögu, en Morgen virðist fyrst og fremst grafa upp viðtalsbúta þar sem hann er spurður út í sjálfan sig, um persónuna og fyrirbærið Bowie. Þannig er samanklipptur sögumaður myndarinnar neyddur til að vera í endalausri naflaskoðun, sem er áhugaverð upp að einhverju marki – en er þó í raun miklu frekar sjálfskoðun sem er þröngvað upp á hann af sjónvarpsþáttaspyrlum og vali leikstjórans í klippiherberginu.

Þrátt fyrir þessa galla er þetta samt helvíti fín mynd. Af þeirri einföldu ástæðu að þetta eru 140 mínútur af David Bowie. En það hefði samt verið hægt að gera miklu áhugaverðari upplifun úr þessu öllu saman. Morgen viðurkenndi vel að merkja fyrir mynd að heimildamyndir sem þessar séu alltaf að hluta til sjálfsævisögulegar – og kannski er það vandinn, að hans Bowie sé ekki minn Bowie?

Texti: Ásgeir H Ingólfsson