Dularfullur sjúkdómur ferðast frá Asíu til sunnanverðrar Evrópu og eftir hefðbundinn skammt af afneitun er allt sett í gang til að stöðva útbreiðsluna, bólusetningarprógrömm af áður óþekktri stærðargráðu eru keyrð í gang og hægt og rólega næst að koma böndum á veiruna.

Þetta hljómar kannski eins og kunnugleg saga úr nútímanum, en er þó sagan í heimildamynd um hálfrar aldar gamla atburði, nánar tiltekið bólusóttarfarsóttina í gömlu Júgóslavíu árið 1972, sem var þó að mestu bundin við Kósóva og Belgrad.

KVIFF 8

Vorkoma

Još jedno proleće

Another Spring

Leikstjóri: Mladen Kovačević

SERBÍA 2022

Þetta var mörgum gleymdur kafli í Evrópusögunni þangað til hann var rifjaður upp þegar kófið skall á, enda líklega stærsta farsótt sem geysaði í Evrópu þessi hundrað ár á milli Spænsku veikinnar og Covid. Þótt hún hafi vissulega verið mun staðbundnari en þær báðar – en það var vel að merkja líka faraldur í Írak og nálægum löndum sem var ekki gengist við fyrr en eftir að faraldri var lýst yfir í Júgóslavíu. Og þetta kom flestum í opna skjöldu, bólusótt hafði ekki látið á sér kræla í Júgóslavíu í fimmtíu ár og talið var að það hefði tekist að hrekja þessa veiru alfarið úr Evrópu. En lönd heims tóku sig saman um að bólusetja gervalla Júgóslavíu – að sögn leikstjóra myndarinnar var samstaðan um það, á dögum kalda stríðsins, mun meiri en nú – samstaða sem hann telur ómögulega á tvístraðri tímum þegar spánýtt járntjald gæti verið að rísa.

Myndin Vorkoma gerir þessu samviskusamlega skil í gegnum sögu sóttvarnarlæknisins Dr. Zoran Radovanović, sem var Þórólfur Júgóslavíu á þessum árum og skrifaði bók um atburðina sem er aðalheimild myndarinnar. Hann er sömuleiðis sögumaður og það er mögulega einn helsti veikleiki myndarinnar, hann er eintóna sögumaður, enda læknir en ekki leikari, og þá reyna kvikmyndagerðarmennirnir að búa til ógnvekjandi andrúmsloft með því að hægja á myndefninu og hafa drungalega ambient tónlist undir – en niðurstaðan er miklu frekar að búa til svæfandi andrúmsloft úr efni sem hefði getað orðið æsilegur þriller.

Það bráðdrepandi afbrigði bólusóttar sem um ræddi drap 35 af þeim 175 sem veiktust nefnist Variola vera, sem er einnig heiti júgóslavneskrar bíómyndar frá 1983 sem ku vera ein sú besta sem þaðan hefur komið – sjálfsagt tilvalið að grafa hana uppi í kjölfar þessarar og sjá hvort sögunni sé ekki gerð betri skil þar.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson