Löngu gleymd þögul mynd með live tónlist? Auðvitað varð ég að drífa mig. Stóri gallinn var að hópurinn sem gerði myndina upp talaði í heila eilífð um endurgerðina, sömu frasarnir og alltaf, þannig að 40 mínútum síðar var bíóstuðið orðið frekar súrt, þegar myndin loksins byrjaði.
Og það er skemmst frá því að segja að þetta er einfaldlega meinlaus hasar. Nett kjánalegur en skemmtilegur og tíminn hefur ljáð myndinni ákveðna fegurð og sjarma sem ég er svo sem ekkert viss um að hafi verið til staðar á sínum tíma.
Böðullinn frá Prag
Pražský kat
The Prague Executioner
Leikstjóri: Rudolf Měšťák
Aðalhlutverk: Gustav Frištenský, Edmond Trachta, Anna Opplová & Marie Kalmarová
TÉKKÓSLÓVAKÍA 1927
Titillinn gefur til kynna töluvert myrkari bíómynd – en tilfellið er hins vegar að böðullinn er ágætlega sympatísk aukapersóna, aðalpersónan er ofur-rómantískur sonur böðulsins og myndin snýst mest um ástarævintýri hans, en hann verður ástfanginn af ræningjadóttur – í óþökk bandítanna, vitaskuld. Þetta er samt engin Ronja ræningjadóttir, þótt einstaka element minni á hana, til þess vantar alla þá heimspekilegu dýpt sem Astrid Lindgren ljær ævintýrum þeirrar ræningjadóttur.
Sögusviðið er það fjarlægt og sagnamennskan það ruglandi að maður áttar sig ekki alveg á erindi myndarinnar; er hún með valdinu í liði með því að gera böðulinn (leikarinn var víst frægur kraftakarl á sínum tíma) að viðkunnalegri hetju, eða var þetta úthugsuð gagnrýni á aðalinn, enda leikur þjóðvegaræningi myndarinnar tveim skjöldum, er broddborgari og ræningi, og auðvitað mætti segja að það sé ómögulegt annað, auðmenn séu jú sjálfkrafa arðræningjar.
En í alvöru, það skiptir ekki öllu máli. Framan af er myndin vissulega dálítið stirð og textaspjöldin útskýra alltof mikið og á alltof flúruðu máli – en þegar á líður verður þetta bara hreinræktaður hasar í ætt við Hróa hött og álíka ævintýri. En það hvað hún er komin til ára sinna gefur henni framandleika og nýja vigt, sem hún hafði kannski ekki á sínum tíma.
Tónlistin (sem er ný en ort inní miðaldahefð) er svo kapítuli út af fyrir sig – í raun bæði stærsti galli myndarinnar og stærsti kosturinn. Hún er nefnilega ægifögur, mun merkilegra listaverk en myndin, en það er hins vegar ekki minnsta tilraun gerð til þess að láta hana passa við það sem er að gerast á tjaldinu. Þannig erum við að horfa á æsilegan og mátulega kjánalegan miðaldahasar – en um leið að hlusta á tragískt og ægifagurt harmljóð um dauðadæmda ást, forgengileika lífsins og allt hitt sem sorgmæddir miðaldatónarnir tjáðu okkur.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson