Fyrstu kynni mín af Ruben Östlund voru ekki gæfuleg. Play var hans þriðja mynd, en sú fyrsta sem komst í almennilega alþjóðlega bíódreifingu, vann kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs – þrátt fyrir að vera tilgerðarlegt rasískt runk. Hann sló rækilega í gegn með Force Majeur, eða Turist, ágætri mynd vissulega, en samt takmarkaðri og ofhæpaðri. Mynd sem náði aldrei neitt mikið lengra heldur en snjóflóðið sem snýr veröld allra á hvolf.
The Square var hins vegar stórt skref fram á við – og það þrátt fyrir að ætlun hennar, ádeilan á listaheiminn, félli að mestu flöt. En persónusköpun aðalpersónunnar Christian og leikur Claes Bang býr til Braga Ólafs erkitýpuna sem við höfum alltaf innst inni langað til að sjá í bíó og komplexar Christians öðru fremur halda myndinni uppi, enda bæði í senn, pínlegir og drepfyndnir – og óþægilega kunnuglegir. Hann vann Gullpálmann í Cannes fyrir hana – og nú er hann nýbúinn að vinna pálmann aftur – eitthvað sem kom töluvert á óvart eftir nokkuð vogar móttökur á croisettunni.
KVIFF 10
Triangle of Sadness
Leikstjóri: Ruben Östlund
Aðalhlutverk: Harris Dickinson, Charlbi Dean Kriek, Woody Harrelson, Zlatko Burić, Vicki Berlin, Henrik Dorsin, Jean-Christophe Folly & Iris Berben
SVÍÞJÓÐ 2022
Triangle of Sadness heitir sú nýja. Þríhyrningur sorgarinnar. Það má finna hann víða, ef við þrengjum sjónarhornið og einbeitum okkur að mynd Ruben Östlund þá má finna hann á milli augna þinna og verður verra með stressi og álagi – þetta er slangur úr fyrirsætubransanum og getur átt við fyrsta vísinn að hrukku, þegar áhyggjuþríhyrningur birtist þar sem áhyggjulaus æskufegurð var áður.
Þetta vísar líka í myndina, sem er í þrem mjög aðskildum hlutum – og maður getur ekki annað en hugsað um Bermúda-þríhyrninginn á ákveðnum kafla myndarinnar. En fyrsti og stysti hlutinn á sér stað í heimi karl-fyrirsæta – það er verið að gera heimildamynd um tískubransann og við sjáum fyrirsæturnar skipta um svip eftir skipun; setja upp viðkunnalegan svip fyrir ódýru vörurnar á meðan fasið verður fjarlægt og yfirlætislegt fyrir þær dýrustu. Hér er listræn sigurmynd á Cannes að leika sér með Zoolander-minni – og seinna á myndin helst eftir að minna á myndir Farrelly-bræðra. Já, eða myndir Luis Buñuels ef þið viljið aðeins lærðari vísanir.

Carl er ein af þessum fyrirsætum og hann á í sambandi við Yaya, kven-fyrirsæta sem er svo heppin að vera í einum af fáum starfsgreinum veraldarinnar þar sem konurnar fá mun betur borgað, sem gefur sambandi þeirra aðra vídd en við eigum að venjast þegar þau rífast um hver eigi að borga reikninginn á dýrum veitingastað. Nýja vídd við kunnuglegt stef um hlutverk kynjanna. Hlutverk sem lifa merkilega lengi í einhverri mynd þrátt fyrir meintar breytingar. Enda er þetta afskaplega gamaldags bransi þrátt fyrir óvenjulega kynjamismunun, launalega séð.
En eftir þessa rimmu eru þau svo skyndilega mætt á veglegt skemmtiferðaskip og miðhluti myndarinnar hefst. Og ef maður var ekki viss um hvað manni ætti að finnast um hana Yaya þá staðfestir hún hversu mikil andleg eyðimörk hún þegar hún tekur mynd af sér með pasta – og ýtir því svo frá sér án þess að fá sér einn einasta bita. Hún var bara að sinna áhrifavaldaskyldum sínum, enda er það eina ástæðan fyrir því að þau eru um borð á skipinu. Þetta er kostuð ferð. Og ef maður var ekki viss um hvað manni ætti að finnast um Carl þá staðfestir hann hversu ómerkilegur hann er þegar hann verður afbrýðisamur þegar áhafnarmeðlimur fer úr að ofan og Yaya sýnir loðinni bringunni áhuga, þannig að hann kvartar við starfsmannastjórann, með þeim afleiðingum að starfsmaðurinn er sendur heim fyrir að fara úr bolnum í steikjandi sólinni.
Að þessu sögðu eru Carl og Yaya samt með miklu fátæklegra syndaregistur en flestallir gestir skipsins – og sömuleiðis algjörir fátæklingar í samanburði við burgeisana sem þau hitta á skipinu.
Rússinn Dimitry (Zlatko Burić, sem er bestur af mörgum góðum í leikhópnum) kynnir sig sem skítasölumann, bókstaflega, enda áburðarsölumaður, og hann og Vera konan hans virðast geta keypt allt sem þeim sýnist, þar á meðal skipið sem ferjar þau. Bresku hjónin Winston og Clementine virka mun lágstemmdari og viðkunnalegri í fyrstu – þangað til kemur í ljós að þau eru vopnasölumenn og eru mjög opinská með vonbrigði sín þegar verstu dráptækin þeirra hafa verið bönnuð í gegnum tíðina, með tilheyrandi tapi. Leikstjórinn kemur svo einum sænskum auðjöfur að, tækni-millanum Jorma Björkmann sem er samt alveg jafn feiminn og klaufalegur og áður en hann vann sér inn fyrstu milljónina. Hann er mögulega eini viðkunnalegi gestur skipsins, sem er kannski ástæðan fyrir því að leikstjórinn missir fljótlega áhugann á honum.

Kunnuglegasta týpan er svo starfsmannastjórinn Paula, við höfum öll unnið undir svona týpu, þótt við höfum kannski fæst haft mikil samskipti af ríkasta prómillinu, enda hafa þau oftast nógu margar girðingar á milli sín og pöpulsins, ef undan er skilið fólkið sem þarf að þjóna þeim beint. Svo birtist auðvitað sífulli kapteinninn sem Woody Harrelson túlkar að gamalkunnri snilld, gallharður marxisti sem heimtar hamborgara í matinn, þar sem hann hafnar fína matnum sem fína og ríka fólkið heimtar. Kolbeinn kafteinn afturgenginn.
Já, þetta er allt viðurstyggilega ríkt fólk málað sterkum litum. Og það er galdur myndarinnar, að gera engar tilraunir til þess að hafa hlutina lágstemmda, þetta er gróteskur farsi um ríkasta prómillið, þar sem allt er til sölu og Marxískur kafteininn og skítadreifarinn Dimytri rífast yfir hátalarakerfið um kommúnisma og kapítalisma, með vísunum í Marx og Reagan.
Hér er þjóðfélagsgagnrýnin einfaldlega stillt í botn – og það einfaldlega virkar. Þetta er þrælskemmtilegur farsi sem leikur sér að því að kilta þórðargleði áhorfenda þegar náttúruöflin taka völdin og ríkisbubbarnir þurfa skyndilega að hafa fyrir hlutunum.
Höskuldarviðvörun:
En svo missir myndin örlítið flugið á lokakaflanum, á eyðieyju þar sem hlutverkin hafa snúist við og fátækur ræstitæknir ræður skyndilega öllu, í krafti þess að vera sú eina sem kann að bjarga sér við þessar aðstæður. Þetta er áhugaverð mannfræðistúdía – en nær því miður ekki sama flugi og það sem á undan kom.
En það breytir því ekki að myndin í heild er algjört skylduáhorf fyrir alla sem langar að steypa heimskapítalismanum einn daginn. Hún er fínasta upphitun fyrir næstu byltingu. Og rétt nær að skáka Ferningnum sem besta mynd Östlund til þessa.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson