Fáar myndir hafa verið gerðar betri um bandaríska unglinga á glapstigum fátæktar og rótleysis en American Honey, sem Andrea Arnold leikstýrði fyrir sex árum síðan. Þar lék Riley Keough, barnabarn sjálfs Elvis Presley, hana Krystal, hálfgerðan Fagin sögunnar, spilltu ljóskuna sem sendir fátæku krakkana út af örkinni til að vinna fyrir sig. Þetta var ekki stórt hlutverk en sannarlega eftirminnilegt – og hún var mögnuð í aðalhlutverki hryllingsmyndarinnar The Lodger fáeinum árum síðar.
Nema hvað, þegar á tökum American Honey stóð vingaðist hún við Franklin Sioux Bob og Bill Reddy, tvo indjánastráka sem voru í ör-hlutverkum í myndinni, og sá vinskapur átti eftir að dýpka og styrkjast og á endanum mynda grunninn að War Pony, sem hún leikstýrði ásamt vinkonu sinni og samstarfskonu, Ginu Gammell, og vann fyrir verðlaun fyrir bestu frumraun á Cannes núna í vor.
KVIFF 13
War Pony
Leikstjórar: Riley Keough & Gina Gammell
Aðalhlutverk: Jojo Bapteise Whiting & Ladainian Crazy Thunder
BNA 2022
Handritið skrifuðu þau fjögur svo saman – og útkoman er War Pony. Manni verður ósjálfrátt hugsað til þess að Keough sé að borga til baka fyrir margumrætt meint menningarnám afa síns – en svo ber líka að hafa í huga að hún er af cherokee-ættum og upplifði nokkuð skitsófreníska æsku, efnahagslega séð – móðurfjölskyldan var vitaskuld moldrík Presley-fjölskyldan en hún ólst að mestu leyti upp hjá pabba sínum, Danny Keough, síblönkum hawaískum listamanni.
En það er ekki bara tilurðarsaga myndarinnar sem gerir að verkum að hún er hálfgert fósturbarn American Honey. Yrkisefnin eru líka svipuð – þótt það sé ekki fyrr en á líður sem hún nær að frelsa sig frá eigin realisma og ná þeim ljóðrænu hæðum sem fyrrnefnda myndin nær.
Framan af erum við einfaldlega að fylgjast með stefnulausu lífi unglinga og ungs fólks á verndarsvæði indjána; flestir leikararnir eru að þreyta frumraun sína og stíllinn er um margt eins og á heimildamynd um slík svæði – fyrir utan að vísundur nokkur dúkkar stöku sinnum upp, eins og draumkennd minning um betri tíma, skárri aldir. Áður en hvíti maðurinn kom með sitt eldvatn og eiturtöflur.
Við skiptumst á að fylgjast með Bill og Matho. Matho er rétt um 12-13 ára, skarpur strákur sem á við alvarleg foreldravandamál að stríða og þvælist því á milli fósturheimila og vinnur fyrir sér með því að selja útvatnað dóp sem hann hnuplar af „ömmunni“ sem fóstrar hann. Bill gæti verið tvífari pabba Matho, rétt um tvítugt en þegar orðinn tveggja barna faðir – með tveimur mismunandi mæðrum, strákur sem á suman hátt er flinkur að bjarga sér en um leið algjör bjáni. Hann ætlar að verða ríkur á hundarækt, hugmynd sem hann bítur í sig þegar hann lendir í að gæta verðmætrar tíkur í stuttan tíma – og hann er alltaf að hössla, og fæst gengur vel.
Hann vingast þó fyrir tilviljun við hvítt par– og fær hjá þeim vinnu, bæði á kalkúnabúi þeirra, en sömuleiðis sem aðstoðarmaður, meðal annars við að ferma grunsamlega ungar indjánastelpur á milli staða að ósk nýja hvíta yfirmannsins.
Myndin er sannferðug allan tímann, þótt á köflum finnist manni Bill vera aðeins of mikill bjáni, en heimildamyndafílingurinn dregur hana aðeins niður framan af, myndin þarf aðeins meiri fantasíu – en sú fantasía kemur þegar á líður. Hrekkjavökukvöld vekur alls kyns djöfla úr læðingi, góða og vonda, ímyndaða og bókstaflega. Uppgjörið er óumflýjanlegt og undir óma tónar Redbone, fyrstu indjánasveitarinnar sem sló í gegn á amerískum vinsældarlistum. Lagið var Come and Get Your Love. Og það sem þau læra er einfaldlega að þau þurfa að koma og sækja það sem hvíti maðurinn skuldar þeim.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson