Í hópmyndum tökum við oftast fyrst eftir þeim sem eru í miðjunni, þeim sem hleypur fremst eða þeim sem er í fókus. Í stórmyndum er kreditlistinn ógnarlangur og leikararnir skipta jafnvel hundruðum, samt munum við oftast bara eftir örfáum þeirra. Ekki öllum þessum sem sátu bara í lestum og strætóum og vinnustöðum og voru í eigin heimi, sem er einmitt ekki sá heimur sem myndin fjallar um.
Eins erum við vissulega flest aukapersónur í eigin veruleika – við getum kannski leikið ágætlega stórt hlutverk í einhverri lítilli kreðsu, litlum smábæ eða hverfi – en um leið og út í hinn stóra heim er komið erum við bara andlit í mannhafinu. Maðurinn í strætó að lesa dagblað, konan að pikka á tölvuna í skrifstofunni.
KVIFF 16
Leikstjóri: Sophie Linnenbaum
Aðalhlutverk: Fine Sendel, Jule Böwe & Henning Peker
ÞÝSKALAND 2022
Þetta er þó sjaldnast orðað og flest upplifum við heiminn nógu mikið út frá sjálfum okkur til að finnast við vera í einhverjum skilningi í aðalhlutverki – sem þýðir vitaskuld að stöku sinnum fáum við óþægilegt raunveruleikatékk, þegar við rekumst á það að heimurinn er ekki sama sinnis.
Allt þetta er þýska myndin The Ordinaries að vinna með. Hún sýnir okkur heim þar sem allir eru sögupersónur í bíómynd – og fullkomlega meðvitaðir um það. Stéttaskiptingin er mjög skýr, í aðalhlutverk og aukahlutverk, statista og hina hlutverkavilltu, þá sem eru kallast upp á góða ensku miscast.
Nema hvað, unglingsstúlkan Paula virðist lifa á einhverjum mörkum. Hún er aukapersóna sem er í skóla fyrir aðalhlutverk, hún er dóttir móður sem er statisti og dullarfulls föður sem var aðalhlutverk, en er löngu horfinn.
En þegar leiklistin fer að bregðast henni stuttu fyrir burtfararprófið þá fer hana að gruna að ekki sé allt með feldu, jafnvel að einhverju sé logið um fortíð hennar. Þannig að hún fer á stúfana, í undirheima hinna afskiptu aukaleikara og statista, eða jafnvel alla leið til þeirra sem voru kliptir út.

Þematísk myndar myndin hálfgerðan þríleik með The Truman Show og WandaVision. Sú fyrsta fjallar um Truman sem leikur aðalhlutverk í heimi þar sem hann ræður engu, sú næsta um Wöndu sem er aðalpersóna í heimi þar sem kemur í ljós að hún ræður öllu. Paula er hins vegar aukapersóna í heimi þar sem allt snýst um að vera aðalpersóna.
Allar fjalla því sjálfkrafa um sjálfið og hlutskipti okkar í heiminum, en þótt það megi vissulega lesa stöku félagslegar pælingar í hin verkin tvö þá fer öll þeirra orka í aðalpersónurnar, á meðan The Ordinaries fjallar nokkuð augljóslega um stéttskiptingu – og allar lygarnar og skáldskapinn sem þarf til þess að halda henni gangandi. Það er enda vissulega sterk fylgni á milli þess félagslega kapítals sem aðalpersónur þeirra sagna sem fjölmiðlar segja okkur frá hafa og þess auðmagns sem þeir eiga, þótt á þessu séu stórar undantekningar – auðjöfrar sem halda sig í skugganum og blaðamenn hvers nafn birtist við þessar sögur, þótt þeir fái sjaldnast borgað neitt í líkingu við viðfangsefnin. Ísland sem slíkt er líka ákveðin undantekning, of lítið málsamfélag til þess að hægt sé að koma nánast hvaða ör-frægð sem er í verð, ólíkt stærri samfélögum – þar sem löngu gleymdar aukapersónur gamallra Survivor-þátta lifa lengi eftir á því að flytja pepp fyrirlestra um hvernig þau meikuðu það.
Þetta er samt hreinlega aðeins of augljós pæling til að virka og myndin nær sjaldnast að komast á dýptina. Fyrir utan mjög skondna blábyrjun er myndin ansi lengi í gang, lengi að fá heiminn til að virka – en það hefst þegar á líður og maður nær að lifa sig inní söguna og ansi glúrnar aukapersónur birtast, eins og strákurinn sem hálf-hverfur reglulega, eins og hann sé fastur í rugluðum þætti og eigi ekki efni á myndlykli. En myndin nær þó aldrei alla leið, ádeila hennar nær aldrei neinu alvöru máli – og á endanum er þetta hálfköruð skissa af helvíti fínni hugmynd. Þannig að þriðji hlutinn af áðurnefndum Truman Show / WandaVision þríleik er líklega eitthvað sem við þurfum að bíða eftir aðeins lengur.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson