Við erum stödd í uppsveitum Makedóníu, einhvern tímann á nítjándu öld. Inn í svart-hvítan heim gengur afmynduð norn – og heimtar frumburðinn af konu einni. Nornin hefur mörg nöfn, er kannski þekktust sem úlfaætan, volkojagta.
Móðirin nær að miðla málum – semur um að nornin taki dótturina ekki fyrr en hún verði sextán ára. Nornin samþykkir, eftir að hún er búinn að gæða sér á tungu barnsins. Og þetta er bara byrjunin.
KVIFF 19
You Won‘t Be Alone
Leikstjóri: Goran Stolevski
Aðalhlutverk: Noomi Rapace, Anamaria Marinca, Alice Englert, Carloto Cotta, Félix Maritaud & Sara Klimoska
ÁSTRALÍA / MAKEDÓNÍA 2021
Það mætti kannski ætla að þetta sé upphafið af gróteskri hryllingsmynd – en ljóðræn og heimspekileg mynd um eðli sjálfsins er hins vegar nærri lagi. Manni verður jafnvel hugsað til Terence Malick í gamla daga, þegar hann gerði ennþá góðar myndir.
Móðirin felur dótturina í afskekktum helli – þannig að hún elst upp sem villibarn, mállaust villibarn. En auðvitað finnur nornin hana – og splæsir á hana sjálfum nornahrákanum, gjöf sem nornir geta aðeins gefið einu sinni á ævinni, gjöf sem allir þeirra hæfileikar fylgja með.
En svo kemur í ljós að stúlkan unga er mun hæfileikaríkari norn en sú gamla og á mun auðveldar með að aðlagast nornalífinu. Hún er ekki bara norn, heldur fjölbreytt furðuvera; vampíra og hýsill, hún tekur sér ósjaldan líkama annarra – oft í kjölfar kynlífs en þó ekki alltaf.
En í gegnum það byrjar hún að skilja, byrjar að átta sig á veröld mannana, hægt og rólega. Með því að setja sig, mjög bókstaflega, í spor annarra. Í spor þeirra og líkama, hún er konur, menn og jafnvel dýr. Um leið er þetta augljóslega táknsaga um að vera trans eða samkynhneigður á tímum sem um það skorti orð.
Hamskiptin eru flótti sem og rannsóknaraðferð, flótti hinna útilokuðu, þeirra sem aldrei passa inní samfélagið. Flótti við ofbeldi og skilningsleysi, þar sem hún hafnar sjálfri sér við flóttann, skilur vonda, eitraða og ónýta haminn eftir.

Noomi Rapace er þekktust í leikhópnum – en hún leikur bara aðalpersónuna okkar í stutta stund, þessi mynd minnir aðeins á The Imaginarium of Dr. Parnassus að því leyti að hún nær fram óvæntum göldrum með því að láta ótal svipsterka leikara leika aðalpersónuna.
Og sökum þess að tungan var bitin úr henni og að hún var fjarri veröld manna fyrstu sextán árin fáum við hugsanir hennar í gegnum einkennilega ljóðrænan sögumann, sögumann sem talar einkennilega makedónsku ef marka má þýðinguna, þannig að minnir helst á eina ljóðræna aðalpersónu í City of Glass eftir Paul Auster, sem talaði algjörlega einstakt tungumál eftir að hafa verið innilokaður allt sitt líf. Og ekki síst minnir hún á Let the Right One In, með því að taka alvarlega þær tilvistarlegu spurningar sem fylgir því að vera vampíra eða norn.

Þetta er hugleiðing um mennsku og ómennsku, um hvernig við getum orðið besta útgáfan af sjálfum okkur með forvitnina að vopni, á meðan biturðin eyðileggur líf gömlu nornarinnar. Og já, þetta er um feðraveldið og hefðarveldið og alla smábæina sem þrengja að manni og hvísla um mann og um þennan grimma heim, þennan heim sem hún segir um:
„Þetta er brennandi og bítandi heimur, bítandi og eyðandi – en samt, en samt.“
Samt. Samt er hann göldróttur, rétt eins og hún.
E.S.: Goran Stolevski, leikstjóri myndarinnar, er Ástrali af makedónskum ættum, rétt eins og Levan Akin, leikstjóri And Then We Danced er Svíi af makedónskum ættum og svo mætti lengi telja. Það er kannski einhver kynslóð farandleikstjóra að verða til sem fara aftur til gamla landsins að gera bíó – og spurning hvort við Íslendingar munum eignast einn slíkan. Það má þó vissulega nefna Sturlu Gunnarsson, sem gerði prýðilegar myndir í Kanada – en hans eina íslenska mynd (Beowulf & Grandel) var því miður afleit.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson