Léo og Rémi eru bestu vinir. Þeir eyða sumrinu saman, þrettán ára gamlir, saklausir og áhyggjulausir. Og nánir. Þeir halla höfðinu á öxl hvors annars, eru oft í einhverri óræðri kös saman, það er óljóst hvar einn byrjar og hinn endar.
Þeir eru af belgískri miðstétt, umvafðir ást og umhyggju, og sjaldan var sumarið jafn fagurt. En svo byrjar skólinn – og ein saklaus spurning breytir öllu. „Eruð þið saman? Eruð þið par? Það er allt í lagi sko …“ Þessari spurningu skólasystur þeirra svara þeir ákveðið neitandi, þeir eru sko bara bestu vinir – mögulega meira eins og bræður.
KVIFF 18
Nánd
Close
Leikstjórn: Lukas Dhont
Aðalhlutverk: Eden Dambrine, Gustav De Waele, Léa Drucker & Émilie Dequenne
BELGÍA 2022
En skyndilega er einkaveröld þeirra sundrað að utan. Af efasemdum. Hvernig sér hópurinn þig? Þessi spurning sem alltaf finnur sér leið inn og þeir eru ekki alveg tilbúnir að svara henni. Allavega ekki Léo. Hann fer skyndilega að snúa sér undan þegar Rémi ætlar að halla sér upp að honum, verður fjarlægari og fjarlægari. Léo er vel að merkja sá þeirra sem virkar mun kvenlegri og viðkvæmari við fyrstu sýn, og kannski einmitt þess vegna uppteknari við að sanna karlmennsku sína – sem endar á því að hann fer að æfa hokkí, þar sem hann nær að fela sitt sanna sjálf undir mörgum lögum af hlífðarfatnaði.
Það er rétt að taka fram að kynhneigð piltanna tveggja kemur hvergi fram – og svosem óvíst að þeir séu endilega alveg búnir að átta sig á henni á þessum aldri. Þannig veit maður aldrei alveg hvort Léo er á flótta frá sjálfum sér sem samkynhneigðum eða tvíkynhneigðum strák – eða bara á flótta frá mýktinni, snertingunni og nándinni, í átt að hörkunni og snertifælninni.
Það skiptir hins vegar ekki öllu máli. Það sem myndin sýnir nefnilega svo vel er hvað félagsmótunin er fljót að ýta okkur í okkar karlmennskuhólf, jafnvel í afskaplega frjálslyndu og að virðist heilbrigðu belgísku miðstéttarsamfélagi. Meira að segja stelpurnar sem spurðu strákana hvort þeir væru par voru engan veginn dæmandi. Þær voru bara forvitnar, að reyna að átta sig á heiminum. Hvort þetta væru mögulegir hommavinir eða mögulegir framtíðarkærastar. Opnar, en ekki búnar að átta sig á að sumt er viðkvæmt fyrir öðrum en þeim. Ekki búnar að átta sig á sumum jarðsprengjusvæðum.
Það sem situr í manni er því helsta sögn myndarinnar; hversu sjaldgæf snerting er í raun í heimi gagnkynhneigðra karlmanna. Á meðan vinkonur eru líklegri til að snerta hvor aðra að vild, sem og foreldrar og ung börn, þá er hreinlega ekki reiknað með að karlar snertist nema kannski með faðmlagi eða kossi þegar þeir heilsast eða kveðjast (eða skora mark í fótbolta), allt umfram það tilheyrir rómantískum og/eða kynferðislegum samböndum – og því eru karldýr tegundarinnar iðullega svelt af snertingu, sem er sjálfsagt ein af ástæðunum fyrir öllum vitleysunum sem við gerum sumir í snertiskorti okkar.
Þetta er hjartnæm og merkileg mynd, það vantar samt ákveðin herslumun upp á það að Dhont skapi hér meistaraverk um unglingsárin, myndin er hreinlega aðeins of eintóna – hér vantar hreinlega meiri húmor og meiri groddaskap, fleiri liti til þess að mála þetta skrítna æviskeið eftirminnilegri dráttum. Vantar kannski bara aðeins meira af léttleikanum úr Fucking Åmål, svo erkitýpísk en frábær unglingadramedía sé tekin sem dæmi.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson