Jaako býr einn og eyðir dögunum í að reykja gras, röfla yfir foreldrum sínum og vitna óspart í eitís-bíómyndir. Kurt Russell og John Carpenter eru í sérstöku uppáhaldi. Svo hringir hann reglulega í kærustuna sem hann hefur samt aldrei hitt annars staðar en á internetinu.

En það er kannski rétt að taka það fram líka að hann reykir gras af læknisráði, er bæði blindur og notast við hjólastól – er með MS sjúkddóminn – en var óforbetranlegur bíónörd á meðan hann gat ennþá séð. Hann er auðvitað ekki eini fyrrum bíónördinn sem er fastur i fortíðinni og röflar sífellt um myndir æskuáranna, en ólíkt hinum hefur hann skothelda afsökun.

KVIFF 20

Blindi maðurinn sem vildi ekki sjá Titanic

Sokea mies joka ei halunnut nähdä Titanicia

The Blind Man Who Did Not Want to See Titanic

Leikstjóri: Teemu Nikki

Aðalhlutverk: Petri Poikolainen & Marjaana Maijala
FINNLAND 2021

„Þegar ég sá ekki muninn á Kurt Russell og hundinum í The Thing var ég búinn að vera,“ segir hann og á þá auðvitað við að þá hafi hann verið búinn að vera sem bíónörd. Hann á þó ennþá myndarlegt safn af DVD-myndum, þar á meðal Titanic, sem er ennþá í plastinu. Hann segir við kærustuna Sirpu að þetta hafi verið í mótmælaskyni við þá stefnu sem honum þótti ferill James Cameron vera að taka – frá Terminator og Aliens yfir í einhverja ástarvellu.

En Jaako er auðvitað rómantísk sál, eins og kaldhæðnin á öfugsnúinn hátt er til marks um. Og mig grunar að hann myndi elska Titanic ef hann myndi sjá hana. Hann dreymir drauma um að hlaupa og hann er sjálfstæður í hugsun, þráir sjálfstæðið sem ástand hans kemur í veg fyrir – en er þó örugglega eins sjálfstæður og mögulegt er, með eigin íbúð og sér þar að mestu leyti um sig sjálfur. Hjúkrunarkona nokkur kemur þó einu sinni á dag og hann kallar hana til skiptis Annie Wilkes eða Nurse Ratched. Hjúkkan er ákveðin en er ekki sérstakur bíónörd – en skammar hann vitaskuld um leið og hún er búin að gúgla þessar grimmlyndustu hjúkrunarkonur kvikmyndasögunnar.

En stríðnin gagnvart hjúkkunni og erfitt samband hans við foreldrana er einfaldlega markað af því að þau vilja hjálpa honum og hann vill fá að hjálpa sér sjálfur – jafnvel þegar það er ekkert víst að það sé mögulegt. Og dag einn ákveður hann að það sé kominn tími á að heimsækja Sirpu, kærustuna sem býr í öðru bæjarfélagi. Án aðstoðar þeirra.

Hann þylur þetta með sér – og við Sirpu; þetta eru bara tvær leigubílaferðir og ein lestarferð – og hann þarf bara aðstoð ókunnugra tvisvar á leiðinni. Enda vafalaust kunnur frægri línu Blanche DuBois um góðmennsku ókunnugra úr Sporvagninum Girnd.

En sú góðmennska reynist ekki traustsins verð og hann lendir í klónum á mannræningjum. Og merkilegt nokk þá hagar hann sér eins og klassísk eitís-bíóhetja í þeim aðstæðum, bæði flæða hnyttin tilsvörin og móðganirnar upp úr honum og þar að auki er ákveðin reisn yfir honum, einhver móralskur kompás sem einkennir bestu hetjurnar.

Myndin er líka séð með hans augum – eða öllu heldur, við sjáum hann sjálfan ágætlega, þegar myndavélin er á honum – en allt sem hann sér er í mikilli móðu, leikstjóranum tekst með miklu listfengi að flytja okkur yfir í hausinn á honum, þar sem heimurinn er löngu hættur að vera í fókus.

Í kreditlistanum er svo tekið fram að aðalleikarinn Petri Poikolainen, sem eðli málsins samkvæmt ber myndina uppi, sé sannarlega með MS sjálfur, þannig að þið getið óhrædd séð myndina án þess að gera ákveðna móralska gagnrýnendur brjálaða, en Petri og leikstjórinn Teemu Nikki höfðu þekkst á sýnum yngri árum – og þegar þeir hittust svo aftur á fullorðinsárum og tóku tal saman þá þróuðust mál þannig að fljótlega voru þeir farnir að ræða það að gera bíómynd saman.

Og saman sköpuðu þeir Jaako, einhverja eftirminnilegustu bíóhetju síðari ára. Og áðurnefndur kreditlisti er að auki ansi skemmtileg mixtúra af blindraletri og hefðbundnu letri hinna sjáandi. Svo treysti ég því að hann eigi allavega eftir að hlusta einn daginn á Titanic (þrátt fyrir ónefnda kraftballöðu). En hún nær því þó varla að vera jafn hjartnæm og þessi er, enda einhver undurfalleg reisn yfir ferðalagi Jaako á endanum.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson