Það hefur ekki verið mikið um alvöru kófmyndir á kvikmyndahátíðum heimsins í kjölfar heimsfaraldursins. Ég minntist á þetta við einhverja kollega og margir sögðust fegnir, það væri komið andskotans nóg af kófinu, en persónulega langar mig alltaf að sjá allavega einhverjar tilraunir til þess að fanga samtímann frá listamönnum, hversu mikið sem sá samtími kann að sökka.
KVIFF 21
Héraðssjúkrahús
Edna provintsialna bolnitsa
Provincial Hospital
Leikstjórar: Ilian Metev, Ivan Chertov, Zlatina Teneva
BÚLGARÍA 2022
En stundum er betra að vera varkár með hvers maður óskar sér, eins og þessi búlgarska heimildamynd um héraðssjúkrahús í afskekktri borg er til vitnis um. Efnið er mjög áhugavert, afskekktur spítali í miðjum heimsfaraldri sem setur allt á hliðina.
En myndefnið er hins vegar afskaplega fátæklegt. Vafalaust hafa sumir ekki viljað vera myndaðir og annað hefur ekki verið viðeigandi að mynda – og sjálfsagt að virða það – en þegar stórir hlutir myndarinnar er hreinlega myndavélin að stara á veggina, og það meira að segja illa stillt upp, er tímabært að játa ósigur og átta sig á að þau eru einfaldlega ekki með efni í heimildamynd í höndunum. Mögulega grein eða bók, en ef hér er ekkert bitastætt myndefni, þrátt fyrir dramað sem á sér stað, þá er líklega best að sleppa þessu bara.
Spítalinn er í Kyusetendil, tæplega 40 þúsund manna bæ vestast í Búlgaríu, þar sem Dr. Evgeni Popper ræður ríkjum – og jú, það eru stöku senur af honum á kaffistofunni að reykja sem virka, sem og ein sena með öldruðum sjúklingi sem er full þakklætis en líka full ótta. En restin á einfaldlega ekkert erindi á hvíta tjaldið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson