Þetta byrjar ágætlega. Ungar stúlkur leika sér með forneskjulegar dúkkur við ströndina og sögumaðurinn okkar, hún Helen Mirren, kveður sér hljóðs og undirstrikar gáskafullan alvarleikann – 2001 vísunin er augljós en alveg ágætlega skondin. Og svo skapaði Guð Barbie. Já, eða Mattel.

En svo höldum við til Barbílands og það er eins og vera komin í vonda Disney-mynd á föstudagskvöldi fyrir löngu síðan, þótt talandi dúkkur séu komnar í staðinn fyrir talandi hunda. Það eru vissulega brandarar á köflum, en flestir alltof augljósir og þegar þeir heppnast sæmilega eru þeir teygðir út í hið óendanlega. Svona til að vera alveg viss um að við höfum náð þessu.

En auðvitað er þetta bara upptakturinn, Baribe okkar hlýtur nú að fara að átta sig á að þetta er eitthvað einkennilegt og fletta hulunni ofan af plastveröldinni. Tja, já … og nei. Á dansgólfinu spyr Barbie skyndilega: „hafið þið einhvern tímann hugsað um dauðann?“

Svarið er vitaskuld nei – sem birtist í óþægilegri þögn (mögulega fyrstu óþægilegu þögninni í þessum heimi í langan tíma), en vandinn er að svar Barbie er líka nei. Hún spyr kannski, en það eru engin merki þess að hún takist á við þessa spurningu, né nokkrar aðrar alvöru tilvistarspurningar. Þetta er eðli myndarinnar, hún tæpir á hlutum, tikkar í box, en gleymir svo flestöllu sem er ekki nógu plastkennt fyrir þennan Barbieheim.

Hún gleymir meðal annars sögumanninum löngum stundum, þangað til Mirren setur réttilega út á valið á aðalleikkonunni um miðja mynd, en vandinn er kannski að Margot Robbie er of augljós kostur í hlutverkið, hún kemur aldrei á óvart, barbíast bara eins og búast má til, sem er synd, hafandi snúið skemmtilega upp á snargeðveika Harley Quinn og blondínuna í Úlfinum á Wall Street.

Þegar við komum til hins meinta raunveruleika þá er hann alveg jafn plastkenndur, fólk talar í frösum af Hallmark-kortum og tilraunir til þess að sýna smá dirfsku með að hafa Mattel sjálfa sem skúrkana falla flatar, af því Will Farrell og félagar eru það klaufalegir að þeir eru ekki hin minnsta ógn, þótt myndin nái kannski að kreista 1-2 þokkalega brandara upp úr Farrell.

Myndinni tekst meira að segja að sóa sjálfri Rheu Perlman úr Staupasteini algerlega – leikkona sem maður væri til í að horfa á lesa símaskránna, enda texti gömlu símaskránna umtalsvert andríkari en ládeiðan sem hún þarf að fara með hér.

En hinkrum aðeins; það er ágætis stuttmynd falin djúpt í öllu plastinu – sagan af Ken. Afgangsdúkkunni sem uppgötvaði feðraveldið (og misskildi kostulega) og yfirfærir á heim Barbie. Ryan Gosling er í banastuði sem Ken og hans veröld er ólíkt fyndnari og ekki jafn innilega kjánaleg og veröld Barbie; og líka kjánaleg á kómískan hátt, frekar en pínlegan. Já, ef eitthvað er þá styður myndin í raun feðraveldið, það er þó allavega skömminni skárra en Barbíveldið.

En Ken og hinir Ken-arnir gefast auðvitað upp afskaplega auðveldlega – öll alvöru átök er eitthvað sem myndin forðast eins og heitan eldinn, þar á meðal öll alvöru átök þegar kemur að femínisma og kynjamisrétti.

Stór hluti internetsins er vel að merkja á öndverðum meiði, lætur eins og myndin sé lykilmynd í femínískum fræðum og reikna með að allir gagnrýnendur hennar séu öfgahægrimenn. En sumar klappstýrurnar minna merkilega vel á orð Helen Mirren snemma í myndinni: „Öll vandamál tengd femínisma og jafnrétti hafa verið leyst.“ Löng þögn. „Eða það er allavega það sem Barbíarnar halda.“ Og ótal Barbie-mynda-aðdáendur líka að því er virðist, sem búa í heimi þar sem feðraveldið verður fellt á Twitter eða X eða á Bláhimninum.

En ódýrar lausnir með ódýrum skilaboðum sem eiga frekar heima á Hallmark kortum, þetta er afsláttarfemínismi Hollywood, jafn innihaldslaus, ómerkilegur og ónýt karlmennska Top Gun – og einhvern veginn virðist heimurinn halda áfram að falla fyrir hvoru tveggja, þótt miklu betri kostir séu í boði, þótt mögulega þurfi að leita aðeins lengra en í Hollywood-keðjubíóin.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson