Fimm myndir, tvær úr fortíðinni, tvær um fortíðina, tvær um framtíðina. Þetta reikningsdæmi virðist kannski ekki ganga upp, en munið: myndir úr fortíðinni geta líka verið um fortíðina, já eða framtíðina
Byrjum í nútíðinni í fortíðinni, það virðist orðin hefð að sýna gamla Cassavetes-mynd á Karlovy Vary og nú er komið að Minnie and Moskovitz, sem fjallar einfaldlega um skötuhjúin í titlinum. Minnie er leikin af Genu Rowlands og Moskovitz er leikinn af Seymour Cassel og yfirvaraskegginu hans. Já, þetta yfirvaraskegg er stórkostlegt – og Seymour Cassell er stórkostlegur, leikari sem ég er vanari í smáhlutverkum vinalegra gamalmenna seinna á ferlinum. Hann er vinalegur hér líka, en líka hættulegur á sinn hátt, stór bangsi sem ræður ekki alltaf alveg við sig í postulínsbúð mannheima og lendir endalaust í vandræðum.
Gena Rowlands sem Minnie er algjörlega frábær á allt annan hátt, mun lágstemmdari, en þó ekkert sérstaklega lágstemmd þegar ég hugsa út í það – fólk talar nefnilega hátt í þessari mynd. Karlar þó sérstaklega, konurnar eru lágstemmdari en þó á ákveðinn hátt beittari þegar þær svo vilja. Og stuttu eftir að ég sá myndina rakst ég á grein um að hávaði væri á útleið, það hefði verið merki um styrk en væri nú merki um veikleika, það sem var óorðað var líklega að við erum bara orðin passív-agressívari í staðinn.
En þetta er algjörlega stórkostleg bíómynd frá fyrstu mínútu, persónugalleríið yndislegt og samtölin öll, hvort sem það er háværi vonbiðillinn, Florence, drykkfellda besta vinkona Minnie sem hún fer með á bíó – og þær eiga svo þessar stórkostlegu samræður eftirá, vel í glasi.
Best af öllum er svo mamma Moskowitz, hún Sheba, sem er leikin af Katherine Cassavetes, mömmu leikstjórans sjálfs – og er langversta vængmamma sem nokkur sonur getur ímyndað sér þegar hann er að kynna hana fyrir nýju kærustunni. Leikstjórinn sjálfur tekur svo á sig að leika einu persónuna sem manni er virkilega illa við, án nokkura fyrirvara, harðgifta hjásvæfu Minnie í upphafi myndar. Hann er myndarlegur upp á klassíska Hollywood-mátann, en grefur allan sjarmann á bak við ömurlegan og ofbeldisfullann persónuleika.
Moskovitz er hins vegar elskulegur sláni, hann minnti mig á einhvern órökréttan hátt á Steinrík ef hann hefði ekki lent í pottinum og aldrei kynnst Ástríki. Maður heldur með honum, þótt hann sé oft óttalegur bjálfi, en elskulegur bjálfi.
Minnie er eldklár en óhamingjusöm – hún er millistéttarkona sem leiðist, veit ekki alveg hvað hún á af sér að gera, er enginn brennandi femínisti en leiðist samt ósköp mikið sín ásköpuðu örlög sem verðandi stásseiginkona (e. trophy wife). Það eru töggur í henni, en hún veit ekki alveg hvert hún á að beina allri orkunni.
Þau eru bæði týnd í lífinu, tvær gjörólíkar týndar sálir að finna hvor aðra – og báðum yrði sjálfsagt rækilega slaufað í dag. En þau eru bullandi ástfangin, á æstan, kaótískan og ringlaðan hátt. Koma úr gjörólíkum áttum, en eru bæði akkúrat jafn mikið á skjön í sinni stétt, og þurfa því að búa til sína eigin ör-stétt, yrkja lífið upp á nýtt.
Fyrir heimstyrjaldirnar
En bregðum okkur þá til Tékkóslóvakíu og skoðum heiminn eins og hann birtist fyrir tvær heimstyrjaldir. Árið 1997 gerði Ivan Vojnár myndina Gegnum dimman skóg (Cesta pustým lesem), en myndin er svart-hvít og gerist árið 1913. Og af öllum þeim myndum sem ég sá á Vary var þetta ótvírætt sú fallegasta. Ekki endilega sú besta, til þess var handritið aðeins of ruglingslegt, en þessi svart-hvíta bæheimska sveit og þessi dularfulli skógur gera það að verkum að manni finnst maður kominn rúma öld aftur í tímann – og maður trúir allan tímann að svipmiklir leikararnir hafi raunverulega verið uppi fyrir 110 árum og aldrei komist í kynni við nútíma þægindi.
Sem er ekki svo lítið afrek, hvað sem förðun og búningum líður þá breytist svipmót fólks og fas heilmikið með öldunum og áratugunum, það gerist ósjaldan að maður annað hvort sjái 21. aldar fas í gegn í períódum eða, sem er enn verra, að leikarar ofleika fortíðina, verða eins og skopstæling á fólki frekar en alvöru fólk af holdi og blóði.
En það er ekki tilfellið hér, hver einasta sena er eins og dulúðugur seiður um löngu horfinn heim, heim sem maður skilur illa, seiður sem er erfitt að hafa mörg orð um í raun – og undir lokin eru karlarnir kallaðir í stríðið og maður veit að heimurinn verður aldrei samur.
24 árum seinna er þessu stríði svo lokið og annað vofir yfir. Næst komum við sem sagt að splunkunýrri mynd sem var heimsfrumsýnd á Vary, en gerist árið 1937, árið áður en Hitler hertekur Tékkland og styður leppstjórn til valda í Slóvakíu. Við erum stödd í verksmiðjuþorpi sem langar að verða borg, Svít, og nafnið á myndinni er Úsvít – sem útlegst sem Dögun – kannski mætti þýða myndina sem Dagverðareyri, og þó – þetta er langt inni í landi, við rætur Tatra-fjallana. Hafið er nokkur landamæri í burtu og því virka íslenskar bæjarendingar illa, þær vísa flestar í kennimörk strandbæja.
Aðstandendur myndarinnar sögðust hins vegar vera ánægðari með enska titilinn – We Have Never Been Modern. Sá titill er sóttur í samnefnt mannfræðirit Bruno Latour, sem las handritið og lagði blessun sýna yfir það, en dó því miður áður en myndin kláraðist. En bók Latour fjallar um hvernig við höfum aftengt okkur náttúrunni með mörgum okkar tækniframförum – og hvernig það leiðir stundum til afturfara.
En myndin fjallar einmitt um efri millistétt á gullöld gömlu Tékkóslóvakíu, fólk sem telur sig nútímalegasta fólk allra tíma. Verksmiðjan er nýlega risin og áformin eru stór og glæsileg. Þau horfa mjög til stóra bróður, Zlín, en sú borg var nánast borgin hans Tomáš Baťa á fyrri hluta tuttugustu aldar, skóframleiðandans sem var nokkuð ótvírætt frægasti kapítalisti í sögu þjóðarinnar og í Zlín gekk allt út á skófabrikkuna hans Bata, sem var alþjóðlegt risafyrirtæki í þá daga – og er enn stórfyrirtæki. Hann byggði svo minni þorp fyrir mismunandi framleiðslueiningar víða í Tékkóslóvakíu og Svít var eitt þeirra.
Maður skynjar Zlín sem fyrirheitna landið, ekki fyrirheitna landið sem þau ætla að fara til, heldur endurskapa. Þau segi ég, en vitaskuld eru þetta aðallega plön karlmannana – en aðalpersónan er þó eiginkona verksmiðjueigandans, hún Helena (Eliska Krenková, sem er algjör stjarna). Læknisfræðimenntuð, þótt hún hafi aldrei klárað námið, og hún sér um heilsu verkamannana, en sér ólíkt betur en karlarnir hvað er raunverulega að gerast. Hún er líka alltaf klædd einkennandi í blátt, allar hinar konurnar eru í rauðu – sjálfsagt einhver vísbending um að hún skeri sig úr eigin áskapaða kynhlutverki, en um leið fer blátt henni líka vel.
Myndin flettir ofan af því hversu afturhaldssöm þau eru mörg í raun, en um leið eru þau líka nútímalegri en við að sumu leyti líka. Þegar kemur að háleitum hugmyndum og andríkum framtíðaráformum, þá finnst manni þau standa okkur framar.
Þannig rekast tímarnir á, upplýsing hvers tíma lýsir upp ákveðna kima og ýtir öðrum út í skuggann. Um leið höfum við bæði ranghugmyndir og fordóma gagnvart fortíðinni – og þessi ákveðna fortíð er gullöld Tékkóslóvakíu, sem stóð vissulega ansi stutt.
Þetta er falleg períóda og náttúruleg, engin rembingur að tala með stífri eftivör. En svo gerast dularfullir atburðir – andvana fætt barn finnst í verksmiðjunni og setur áætlanir þeirra í uppnám. Þannig að vitaskuld reyna þeir að þagga atvikið, frekar en að komast að sannleikanum. Af því þetta er ekki bara andvana fætt barn – það er með æxlunarfæri beggja kynja.
Helena legst í rannsóknir og í gegnum hana fáum við smá innsýn í sagnfræði læknisfræðilegra hugmynda um það sem á þessum tíma kallaðist hermafródíta, magnaðar teikningar úr raunverulegu læknisfræðiriti sem var einmitt nýkomið út í Tékkóslóvakíu þá fylgja með, og í kjölfarið fer Helenu að gruna ýmislegt. Þessi forna bók, þetta einkennilega forna orð, hermafródíta, yfir transfólk sem enginn notar á þennan hátt í dag, allt hjálpar þetta til við að leyfa upplýstum nútímaáhorfendum að vera með í uppgötvunarferlinu.
Þetta leiðir svo til þess að myndin kynnir lykilaukapersónu til leiks, Saša, sem Richard Langdon leikur og er samkvæmt mínum heimildum fyrsti tékkneski transleikarinn í kvikmyndum. Og hægt og rólega vitrast manni að myndin er að kanna ákveðin mörk, hvernig við erum upptekin af einum framförum og lokum augunum fyrir öðrum, hvernig aftenging náttúrunnar við hinn mennska heim og þar með náttúruna er afturför mitt í framförunum miðjum, sem var einmitt lykilhugmynd bókar Latour.
Og það er Simon Goff, fiðluleikari sem spilaði undir hjá Hildi Guðnadóttur í Jókernum og Chernobyl, sem sér um ágenga tónlistina, sem er full af feigð þess hildarleiks sem er handan við hornið.
Plastkennd og klisjukennd framtíð
En framtíðin? Er eitthvað varið í hana? Svarið er nei ef ég horfi á dystópíurnar sem ég sá á Vary, sem voru með slappari myndum hátíðarinnar. The Survival of Kindness birtir okkur afskaplega afturhaldssama fortíð, eitthvað hrikalegt hefur gerst og við höfum tekið nokkur skref aftur í barbaríið, og enn verra barbarí en áður. Þetta er eins og mínímalísk Mad Max-mynd, en mínimalisminn getur stundum verið afsökun fyrir hugmyndafátækt og skorti á andagift og það er tilfellið hér. Blökkukona er í búri í miðri eyðimörk, án skýringa. Hún sleppur en það tekur lítið betra við í þessari ofbeldisfullu veröld. Þetta er klassískt upplegg af dystópíu, en ef það er ekki boðið upp á neinar ferskar hugmyndir eða andrúmsloft sem virkilega fangar mann, tja, þá er eins gott að sleppa þessu.
Ungverska teiknimyndin Plasthimininn (Műanyag égbolt) er allt annars eðlis – og þetta er vissulega öllu skárri mynd, þótt það vanti líka andríkið í hana. Búdapest árið 2123 er borg undir plasthjúp og öll erum við tekin úr sambandi um fimmtugt, til þess að breytast í … tré? Eða allavega einhvers konar trjáveru, sem á sjálfsagt að búa til súrefni og jafnvel fæðu fyrir eftirlifandi íbúa borgarinnar. Enda eru öll raunverulegu tréin löngu dauð.
Þetta er væntanlega hugsað sem einhvers konar vistvæn dæmisaga, en vandinn er bara að hugmyndin meikar óvenju lítinn sens, jafnvel fyrir fjarðstæðukenndan vísindaskáldskap. Ekki það að hægt sé að breyta manneskjum í trjáverur, ég skal alveg kaupa það – en að það sé auðveldara heldur en að rækta alvöru tré, það er öllu fjarstæðukenndara.
Stærra vandamál er þó að framan af eru persónurnar ósköp daufar – óhamingjusöm hjón, sem eru svo óhamingjusöm að eiginkonan hefur ákveðið að skrifa upp á að verða trénuð fyrir aldur fram. Eiginmaðurinn getur þó ekki hugsað sér það og reynir að bjarga henni – og allt endar þetta með einkennilegri helreið með lest um eyðilendur Ungverjalands.
Og það er þarna sem myndin lifnar aðeins við, þar sem lestin brunar á teinum hátt fyrir ofan jörðu. Náttúran er vissulega snælduvitlaus, enda lofthjúpurinn sem við eigum að venjast verulega laskaður, þannig að sífelldar þrumur, eldingar, haglél og annað óveður raskar för þeirra – og mitt í öllu þessu lifna persónurnar aðeins við. Og hún er prýðilega teiknuð – teiknararnir hefðu bara þurft að fá almennilega sögu upp í hendurnar.
Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum þann 23. ágúst.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson