Þetta er útgáfa 2,3 – v2,3 – af plötunni v2,2, Róshildur hefur álíka ást á verkum í eilífri vinnslu og Sigurður Pálsson heitinn, sem fékk heilar kynslóðir skálda til að elska og virða Vív.

Lagið er Fólk í blokk, textinn eftir Ólaf Hauk og hljóðin eins og hljóð í loftræstingunni sem þvælist um blokkina. Hér eru allir með stuðluð gælunöfn, Guðmundur góði, Sigurður sæti, Vernharður vífill, Steingrímur sterki og Valgerður Vala, og maður veltir fyrir sér hvort þarna krystallist ekki örlagatrúin – örlög þín eru allavega rækilega takmörkuð þegar með fyrsta stafnum í nafninu þínu. Örlög sem Vernharður vífill sem vill heita fífill skilur manna best.

Maður er vanur því að svona textar séu sungnir eða lesnar af ömmum og öfum þjóðarinnar, Bessum Bjarnasonum og Kristbjörgum Kjeldum, ekki börnunum eða barnabörnunum – sem gefur laginu öðruvísi áru, þetta er einhver enduruppgötvun, eins og vafrað um gamla og yfirgefna blokk fortíðarinnar, þar sem Guðmundur góði er bara í símanum eins og aðrir og maður skynjar hvað þetta voru yndislega gróteskir tímar en um leið var einhver harmur sem lá yfir og laumast nú í gegnum loftræstikerfið.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson