Það eru verkfall í Hollywood og gömlu lögmálin virðast ekki virka lengur í heiminum eftir heimsfaraldur, þar sem öruggir smellir hverfa í skuggann á óvæntum sumarsmellum. Þar á meðal þeim umdeildasta, Sound of Freedom.

Ef spámannlega vaxnir kvikmyndaspekúlantar hefðu verið beðnir um að spá fyrir um vinsælustu myndir seinni hluta sumarsins 2023 fyrir ári síðan hefðu flestir vafalaust nefnt sjöundu Mission: Impossible myndina eða fimmtu Indiana Jones myndina. En raunveruleikinn kom á óvart, Barbenheimer-tvennan breyttist í óstöðvandi markaðsmaskínu og þar á eftir komu ekki framhaldsmyndirnar tvær, heldur mynd sem fæstir höfðu einu sinni heyrt um í upphafi sumars; Sound of Freedom.

Það mætti kannski halda að skýringanna mætti leita á hvíta tjaldinu sjálfu, framhaldsmyndirnar hefðu einfaldlega brugðist væntingum og hinar myndirnar þrjár væru ódauðleg meistaraverk – en af þessum myndum fékk Mission: Impossible 7 bestu rýnina ásamt Oppenheimer og Sound of Freedom þá langverstu.

Vandi framhaldsmyndanna er miklu frekar sá að stúdíóin treysta enn á áratuga gamlar markaðsherferðir sem virkuðu þegar þessar seríur hófu göngu sína á síðustu öld, á meðan bæði Barbenheimer-tvennan og Sound of Freedom byggja á markaðsherferðum sem kom risaeðlunum í Hollywood í opna skjöldu.

Það fyrra, Barbenheimer, er einfaldlega sjálfsprottið internet-meme, að splæsa tveimur gjörólíkum myndum saman, en um leið og markaðsdeildirnar sáu að það virkaði gerðu þær vitaskuld allt til að ýta undir æðið sem var að byggjast upp. En jafnvel án Barbenheimer-djóksins voru báðar myndir alveg líklegar til vinsælda, þótt meme-ið hafi haft rífleg margföldunaráhrif. Merkilegasta sagan er því miklu frekar Söngur frelsinsins.

Rýnum fyrst aðeins í myndina sjálfa. Hún byrjar á því að fyrrum fegurðardrottning bíður tveimur systkinum, þeim Rocío og Miguel, í áheyrnarprufur í Gvatemala, prufur sem reynast tálbeita fyrir mansal. Í kjölfarið hittum við fyrir Tim Ballard, sem leikinn er af Jesú sjálfum, Jim Caviezel, en hann hefur þann starfa að koma upp um barnaníðinga og er mjög frjálslega byggður á hinum raunverulega Tim Ballard.

Það er farið að taka á sálina að koma bara upp um níðinga sem horfa á barnaklám en ná aldrei að bjarga börnunum í þessum myndböndum, enda fæst tekin upp í Bandaríkjunum sjálfum. En um leið og hann gengur skrefinu lengra og bjargar einu barni – áðurnefndum Miguel – þá er ekki aftur snúið, nú þarf hann að halda áfram að bjarga þessum börnum. Hann vill bjarga systurinni Rocío og uppræta þennan glæpahring og fer til Kólombíu til að halda leitinni áfram.

Það sem fylgir er í raun ósköp hefðbundin hasarmynd með óræðar listrænar tilhneigingar, tilhneigingar sem ná þó ekki mjög langt og úr verður hálfgerður bastarður, mynd sem veit ekki alveg hvað hún vill vera. Það er þó merkilega lítið ofbeldi sýnt þegar upp koma upp tilefni fyrir slagsmál, hvort sem það er listræn ákvörðun eða afleiðing takmarkaðs fjármagns, en myndavélin lítur ávallt undan þegar kemur að misnotkun, eðlilega, og einnig þegar kemur að hefðbundnu hasarofbeldi, sem er alveg djarft á sinn hátt – en það vantar þó að það komi eitthvað sterkara í staðinn.

Það langbesta við myndina er svo ólíklegur samstarfsaðili Ballards, gamall dópsali að nafni Vampiro (Bill Camp), sem hefur séð að sér og vill nú bæta fyrir fyrri misgjörðir. Þetta er yndislega litríkur karakter, hagar sér enn um flest eins og mafíósi þótt markmiðin hafi breyst, er slímugur og sveittur en með hjarta sem skyndilega færðist á réttan stað, og hann fær allar bestu línurnar í myndinni. Á meðan eru samskipti Ballards og eiginkonu hans (Miru Sorvino, sem er sáralítið í mynd) ósköp litlaus, sem og öll önnur samskipti Ballards í raun. Öll straumhvörf sem eiga að sýna af hverju persónurnar skipta um stefnu veikluleg. Börnin gera svo lítið annað en að stara og vera saklaus og hrædd. Ef þið viljið skilja betur hlutskipti barnanna sjálfra, horfið þá á Lilju-4-ever, sem er ennþá langbesta myndin sem gerð hefur verið um mansal á börnum. Caviezel segir kannski að þau séu hinar raunverulegu hetjur myndarinnar, en það hefði virkað betur ef splæst hefði verið í alvöru persónusköpun fyrir krakkana.

Að öllu sögðu er þetta þó sæmilegasta mynd, hún heldur manni við efnið og segir sína sögu skýrt og skilmerkilega að hætti skyldra hasarmynda, án þess að gera það með sérstökum stæl. Þegar kreditlistinn byrjar að rúlla hugsar maður með sér að þetta sé allt stormur í vatnsglasi – enda kom myndin heldur ekkert inná samsæriskenningar eða Qanon og þrátt fyrir eitt Biblíuerindi og mantra um að börn Guðs séu ekki til sölu er ofsögum sagt að þetta sé sérstaklega kristileg mynd. Vissulega er fært í stílinn og sannleikanum hagrætt, en ekki á neitt svakalegri hátt en Hollywood hefur gert áratugum saman. Enda fara fæstir á svona myndir til að fræðast um vandamál heimsins, þau vandamál eru venjulega bara afsökun og aflvaki hasarsins.

Dramað byrjar ekki fyrr en eftir mynd

En mikilvægasti hluti myndarinnar byrjar ekki fyrr en undir lok kreditlistans. Þá birtist aðalleikarinn Jim Caviezel skyndilega á skjánum við hlið kreditlistans og heldur söluræðuna. Hann rekur erfiða framleiðslusöguna í stuttu máli, ýjar að því að margir hafi viljað leggja stein í götu þeirra, stillir myndinni upp gegn stóru stúdíóunum, og segir svo: „Þið segið söguna. Þið getið fengið fólk til að mæta á þessa mynd. Saman getum við gert þessi tvö börn og öll börnin sem þau standa fyrir valdamesta fólk í heiminum. Með því að segja þeirra sögu eins og bara bíómyndir geta gert þá geta þessi börn orðið voldugri en mansalshringir, forsetar, þingmenn eða jafnvel tæknibilljónerar. Við trúum því að þessi mynd geti verið stórt skref í að binda endi á mansal á börnum,“ segir Caviezel og vísar líka í Abraham Lincoln, sem hrósaði Harriet Beecher Stove fyrir hlutverk skáldsögu hennar í afnámi þrælahalds: „Ég tel við getum gert Sound of FreedomKofa Tómasar frænda fyrir þrælahald 21. aldarinnar.“

Þessi ræða er leiksigur Caviezels, sem sýnir ekki mikla takta í myndinni sjálfri – og ástæðan fyrir því að hún sló í gegn. Ásamt auðvitað markaðsherferðinni, sem er mjög á sömu nótum, enda runnin undan sömu rótum. Að ávarpa áhorfandann beint, segja honum að hann skipti máli, hann geti bjargað heiminum með að horfa á bíómynd um mikilvægt málefni og hamrað um það á næsta lyklaborð, stilla honum upp sem hetjunni sem berst gegn stúdíóunum, elítunni. Þess vegna fer fólk heim og berst fyrir myndinni, frekar en að gleyma henni um leið og þau leggjast á koddann eftir bíó.

Þegar út fyrir kvikmyndasalinn er komið blandast myndin svo saman við alls kyns samsæriskenningar og pólitík, sem til að gæta allrar sanngirni var ekki upphafleg ætlun leikstjórans Alejandro Monteverde. Hann er mexíkanskur innflytjandi sem sjálfur missti föður sinn og bróður í átökum glæpagengja og stór hluti teymisins á bak við myndina er upprunin handan landamærana, sem gerir klisjuna um hvíta bjargvættinn kaldhæðnislegri – en kannski hugsuðu þeir bara; best að segja söguna þannig að hvíti maðurinn skilji hana.

En eftir fimm ár í limbói tók hið nýstofnaða Angel Studios myndina upp á sína arma og fékk leikstjórann til að samþykkja að bæta þessum endi við – og herjaði um leið á trúarlega hópa, samsæriskenningahópa á internetinu og aðra sem þeim þótti einsýnt að væri hægt að selja þessa mynd – og þegar við bættist að bæði aðalleikarinn og viðfangsefnið, Tim Ballard sjálfur, tilheyra þessum hópum þá skipti skyndilega ósköp litlu máli að þetta var í raun nauðaómerkileg b-mynd, það sem skipti máli var að það var búið að selja hana sem peð í hinum bandarísku menningarstríðum sem geysa á internetinu.

Sem dæmi um þetta þá virðist Ben Shapiro og fleiri hægri öfgamenn elska Sound of Freedom jafn mikið og þeir hata Barbie, en hvorug myndin er þó sérstaklega góð bíómynd – en þær eiga það sameiginlegt að hafa markað sér ákveðið svæði á því pólaríseraða átakasvæði hugmyndanna sem internet bandarísku menningarstríðanna er, menningarstríð sem er sannarlega búið að flytja inn til Íslands í mýflugumynd.

Það er hins vegar erfitt að segja hvaða lexíur Hollywood mun læra af þessu sumri. Allar þessar myndir, góðar og slæmar, eru í raun passlega gamaldags kvikmyndagerð, en þær sem gengu best blönduðu því saman við afskaplega nýtískulega markaðsherferð. Að búa til stemmningu og gera áhorfandann að virkum þáttakanda, hvort sem það er með því að mæta í bleiku í bíó eða með því að tengja myndirnar við uppáhalds samsæriskenningarnar sínar. Markaðsherferð sem býr til stemmningu um leið og hún elur á sundrungu og gerir tiltölulega einfaldar myndir af táknmyndum fyrir eitthvað miklu meira; hvort sem það er femínisma, mansal, alheimssamsæri eða eitthvað annað. Sem bíður þeirri hættu heim að það skipti sífellt minna máli að myndirnar séu góðar, frumlegar, djúpar eða skemmtilegar. Það er algjört aukaatriði á vígvelli internetsins, þar sem mestu skiptir að myndirnar hjálpi fólki að slá sig til riddara í hverju því sjálfsmyndarstríði sem viðkomandi er að berjast í þá stundina.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson