Ég var á Tom Waits tónleikum í Prag fyrir nokkrum árum og spilamennskan var prýðileg – en vandinn var að enginn söngvarinn náði almennilega til mín. Það var alltaf bara einhver daufur endurómur af Waitsaranum sjálfum, án þess þó að ná þessum einstæða karakter sem Tom býr yfir, attitjúdinu, leikrænum fylliraftaharminum. En þó var ein stelpa sem gerði þetta mun skárr en strákarnir – og þá kviknaði eitthvað í hausnum á mér, kenning jafnvel, heimatilbúin kenning um ábreiður (eða cover-lög á góðri íslensku): þær eru oft bestar ef söngvarinn er ekki af sama kyni. Það er einfaldlega öruggasta leiðin til að sleppa frá því að vera lagið verði of líkt frumsmíðinni, aðeins dauft ljósrit, endurómur – það verður allavega eitthvað alveg nýtt til, af því það að herma er einfaldlega ekki valkostur.
En svo koma ýmsir aðrir hlutir til, stundum þarf einfaldlega utanaðkomandi til að finna kjarnann í laginu. Lag dagsins er af þeim meiði. „Ég veit, ég vona“ með Ojbarasta er ágætis lag um ást og von og drauma, en samt bara ágætt – það er eiginlega of mikið í gangi fyrir þennan lágstemmda og einfalda texta; þú ert með þessa risahljómsveit á bak við þig, þú þarft ekkert að vona – þetta reddast hvort eð er. Það heyrist á afslappaðri röddinni.
En þetta lag er einmana, það er eitt með sjálfu sér – eins og Lúpína er í sinni ábreiðu. Náttúrustemmurnar verða til þess að maður sér hana fyrir sér eina úti að hugleiða lífið, reyna að sjá fram úr baslinu og ástarsorginni, kannski situr hún á bekk í næsta kirkjugarði, kannski í klettunum við brimsorfna strönd í einhverjum smábænum. Hún er að sefa sjálfa sig og hugga, sannfæra.
Það er líka smá kraftballaða í þessu, sérstaklega þessar línur:
Ást er fítonskraftur
og eldsneytið á lífsins löngu leið
En einmitt þess vegna verða þessar línur göldróttari þegar þær verða lágstemmdari, þar sem söngkonan er að reyna að sannfæra sjálfa sig ekki síður en okkur. Orginallinn er kannski of fastur þarna á milli, nær ekki lágstemmdri einlægninni en fer aldrei í hæstu hæðir kraftbölluðunnar – en það mætti raunar alveg prófa þessar línur í kraftbölluðu líka.
En ég er að hugsa um að kanna þessar lendur aðeins betur, leyfa þessari ábreiðuseríu að vera smá hliðarsería inní föstudagslögunum. Og endilega komið með tillögur ef þið vitið um einhverja stórkostlega ábreiðu sem á heima í þessari seríu.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson