Til hvers að fara í bíó? Þessi spurning hefur gerst æ háværari undanfarin ár í kjölfar heimabíóa, niðurhals og dvd-diska og þeir svartsýnustu telja að bíóferðir verði fljótlega aðeins áhugamál fáeinna sérvitringa með fortíðarþrá. En myndgæðin, hljómburðurinn og stærð tjaldsins hefur aldrei verið hin raunverulega ástæða þess að við förum í bíó. Ástæðan er fyrst og fremst myrkrasalurinn, þessi einkennilega athöfn að sitja í myrkrasal þar sem við getum notið listar með tugum, hundruðum og jafnvel þúsundum annarra gesta, flestra ókunnugra. Stundum finnum við vissulega einhverja einkennilega samkennd í salnum og það kemur fyrir að líflegar umræður kvikni eftir myndina. En oftast göngum við þó út úr bíóinu með okkar eigin upplifun og í mesta lagi óljósan grun um upplifun ókunnuga fólksins sem deildi stundinni með okkur. En það kemur þó fyrir að okkar eigin upplifun af bíómynd hverfur algjörlega í skuggann af upplifun fólksins í kringum okkur.
Þetta hefur tvisvar komið fyrir mig. Seinna skiptið var undir lok nýliðinnar kvikmyndahátíðar. Myndin sem við vorum komin til að sjá var danska fjölskyldudramað Listin að gráta í kór (Kunsten at græde i kor). Strax á fyrstu mínútum myndarinnar sakar Asger, elsti sonurinn sem fluttur er að heiman, heimilisföðurinn um að sofa með sinni eigin dóttur. Faðirinn hefur þann sið að gráta mikið og nær með því að sannfæra aðra fjölskyldumeðlimi að hann sé á barmi sjálfsmorðs – og fær þannig dótturina til þess að „hugga“ sig. Allan, yngsti sonurinn, reynir allt til þess að verja föðurinn og á tímabili virðist pabbinn ætla að arfleiða soninn að skrímslinu sem býr í honum. En framan af myndinni hló stór hluti salarins reglulega hástöfum, einn sessunautur minn sýnu mest, það virtist þurfa afskaplega lítið af föðurnum vafasama og syninum trygga til þess að kæta hann. Sifjaspellið var alltumlykjandi í mínum huga en það virtust allir aðrir vera búnir að gleyma því – og miðað við stikkprufu af dómum og bloggi um myndina að dæma virtist raunin einmitt sú að margir töldu að sifjaspellið kæmi ekki í ljós fyrr en um miðja mynd. Einhvern veginn virtist myndin ná að skapa sömu blekkingu og raunverulegir barnaníðingar ná iðulega að skapa; hann er jú alltof góður kall innst inni við beinið til þess að gera svona nokkuð, hvernig gæti nokkrum dottið önnur eins vitleysa í hug?
En síðan fór sannleikurinn að koma í ljós á nýjan leik um miðja mynd og nú með mjög afgerandi hætti. Og nú var áðurnefndur sessunautur minn að mestu hættur að horfa. Hann ríghélt báðum höndum fast fyrir vit sér og gott ef hann skalf ekki lítillega. Þegar myndinni lauk var hann svo öskugrár í framan og sjaldan hefur þögn nokkurrar manneskju verið jafn æpandi.
Fyrra dæmið var á hinum ástríðufulla vestra Brokeback Mountain. Tveir unglingspiltar á bak við mig virtust hafa mætt til þess að horfa á byssuleiki og voru ekki alveg tilbúnir að takast á við ástríðufullt samband tveggja karlmanna. Þessu brugðust þeir við með því að hlæja á öllum viðkvæmustu augnablikunum, öllum þessum dramatísku hápunktum þar sem þeir þurftu að horfast í augu við að þeir, töffararnir, hefðu rambað inn á hommamynd. Hláturinn átti að vera mannalegur en var auðvitað fyrst og fremst óöryggishlátur þeirra sem vissu ekki hvernig ætti að haga sér. En þetta hugsaði ég eftir á, meðan á þessu stóð var ég fyrst og fremst pirraður á því að þeir væru að eyðileggja myndina fyrir mér. Síðan taka þeir enn eina rokuna alveg undir lok myndarinnar í aldramatískasta atriðinu og þá var ég búinn að fá nóg og er um það bil að fara að snúa mér við til þess að biðja þá að gjöra svo vel að steinhalda kjafti. En áður en ég næ að snúa mér við tek ég eftir því að hljóðið hefur breyst. Þar sem áður hafði verið hlátur eru núna hávær ekkasog og samkennd þeirra með kúrekunum ástföngnu miklu fölskvalausari en mín.
Ég veit vitaskuld ekkert um þessa þrjá pilta. Ég veit ekkert hvaðan þeir eru eða hvaðan hlátur þeirra og grátur spratt. Ég veit ekki hvort hlátur sessunautar míns á dönsku myndinni spratt af afneitun eða sjálfsvörn, ég veit ekki hvernig sambandi piltanna bak við mig var háttað eða hvað þeir vissu um ástina. En þrátt fyrir það gáfu bíóferðirnar mér þó örlitla innsýn í líf fólks sem ég á sjálfsagt aldrei eftir að tala við – og er það ekki það sem list snýst venjulega um þegar öllu er á botninn hvolft?
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 13. október 2007.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson