Titillinn var dularfullur og seiðandi og Laura Poitras hafði heillað mig áður með Citizenfour, heimildamynd um uppljóstrararann Edward Snowden, sem var sannarlega um mikilvægt málefni, en það sem sat í mér var þó miklu frekar óvænt ljóðrænan og fínleg efnistökin. Og þessi ótrúlega rödd, Poitras er mögulega besti sögumaðurinn í leikstjórastétt, ef við tökum það hlutverk mjög bókstaflega í merkingunni narrator – helst að Samuel L. Jackson í I Am Not Your Negro hafi náð að ljá heimildamynd álíka dýpt með sinni sögumannsrödd.

En hún þarf þó lítið að nota þessa ofurkrafta í All the Beauty and the Bloodshed. Aðalpersónan Nan Goldin er einfaldlega meira en til í að segja sína sögu sjálf. Ágrip sem ég hafði lesið höfðu vissulega dregið aðeins úr áhuganum; gjörningalist, skandall hjá lyfjafyrirtæki og sitthvað fleira, þetta virtist á pappír vera nokkrar myndir í einni sem pössuðu illa saman.

Og þetta eru í raun tvær myndir í einni – en galdurinn er einmitt að sjá þær sameinast í eina.

Þetta byrjar allt með mótmælum í listasafni. En hér er ekki verið að hengja bakara fyrir smið, eins og í ófáum mótmælum (sem kannski fyrir misskilning voru að sækja innblástur í þessi) þar sem loftslagsvánni er mótmælt með að sletta málningu á verk listamanna sem hafa lítið eða ekkert með málið að gera. Hér er verið að fremja mótmælagjörning til að mótmæla einum helstu bakhjörlum listasafna heimsins, Sackler-fjölskyldunni, sem getur þakkað ríkidæmi sitt Purdue Pharma, lyfjafyrirtæki sem framleiðir oxycontin og ber heilmikla ábyrgð á ópíóðafaraldri heimsbyggðarinnar. Goldin hafði sjálf ánetjast lyfinu eftir læknisaðgerð, þetta er galdralyf fyrst og fremst í þeim skilningi að framleiðendur þess eru það góðir sölumenn að þeir hafa selt læknum út um allt lyf sem er sannarlega hættulega ávanabindandi. Hún stofnar PAIN samtökin – Prescription Addiction Intervention Now – og þetta er samhentur hópur, margir þar eiga mun sorglegri sögu en Nan þegar kemur að áhrifum ópíóða á líf þeirra og þeirra nánustu.

En svo byrjar hin myndin, myndin um Nan Goldin. Um djúpa sorg í uppvextinum, systurina sem lést, systurina sem upplifði sig jafn einmana og misskilda og Nan. Þessar tvær sögur eru sagðar samhliða til skiptis, ævisaga Nan og sagan um baráttu hennar í núinu.

Fyrst sjáum við týnda og hæfileikaríka stúlku sem verður hluti af neðanjarðarsenunni í New York á áttunda og níunda áratugnum, okkur birtist hér hedónískur og grimmur heimur, listrænn og kaótískur, ægifagur og forljótur í senn, heillandi neðanjarðarveröld sem nú er horfin – en okkur birtist hún ljóslifandi í gegnum myndir Goldin, sem Poitras tekst með merkilegu næmi að nýta til þess að byggja frásögnina á, í bland við Goldin að segja eigin sögu og það kvikmyndefni sem þó er til.

Það tók hana langan tíma að öðlast lýðhylli fyrir þessar myndir, til þess voru þær of mikið úr takt við það sem var að gerast í ljósmyndun á þessum tíma. Sem þýddi að hún var lengur á bólakafi í þessum heimi – en þarna fann hún líka sálufélaga, fallegar sálir, skyldar sálir – sem fóru allt of fljótt.

Þarna er viðkvæm sál samfélagsins, brotnar sálir en sterkar, en fólk sem er oft viðkvæmara en flestir fyrir sviptingum tímans. Þannig myndast ákveðinn þráður frá áföllum æskunnar í heimilisofbeldið og ströglið sem hún lendir í seinna meir og þaðan yfir í eyðnifaraldurinn sem tók marga af hennar bestu vinum. Og við sjáum hvernig einmitt þetta mótaði hana sem aðgerðasinna, hversu allir þessir atburðir hafa ræktað í henni hugrekki og innsæi og næmni, sem og djúpstætt óþol gegn öllu óréttlæti.

Þetta er einfaldlega svipmynd af því hvernig listamaðurinn og aktívistinn næra hvorn annan, hvernig þeir spretta úr sama jarðvegi, úr sama sársauka, frá sömu ást, frá sömu grundvallarsýn á lífið, frá ákveðinni fagurfræði sem gerir sér far um að vera bæði heiðarleg og hugrökk og sýna það sem þarf að sýna, afhjúpa það sem þarf að afhjúpa.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson