Ég var nýbúinn að hlaða niður Shazam í símann minn og hjó eftir því þegar ég renndi yfir lögin sem ég hafði Shazamað fyrstu vikuna að sama lagið kom tvisvar, hafði bæði verið í einni bíómyndinni á Karlovy Vary sem og eitt kvöldið á barnum. Já, og afsakið þetta með að taka símann upp í laumi í miðri bíómynd, en þegar maður pistlar fyrir útvarp og þarf hljóðskreytingar brýtur nauðsyn bíólög.

Nema hvað, þetta var samt sitt hvort útgáfan – og þegar ég hlustaði betur var önnur mun betri; og það var auðvitað uppreisn æru fyrir eitt helsta side-kick tónlistarsögunnar; ég var loksins búinn að finna æðislegt lag með Art Garfunkel.

Og jú, þetta var ábreiða – á einhverju vinsælasta lagi brasilískrar tónlistarsögu, Aguas de Março, Vötnin í mars. Tom Jobim samdi lagið og samdi líka textann við ensku útgáfuna – og ég ætla nú ekki að gera alla brasilíska lesendur mína brjálaða með að halda því fram að Art Garfunkel útgáfan sé betri en orginallinn – en af fjölmörgum enskum ábreiðum er hún langbest.

Hann færir lagið mjög sannfærandi úr stað, úr suður-amerískum fílingnum erum við komin í miklu kaldari og norrænni vetur, hvort sem er í New York eða einhvers staðar í Norður-Evrópu. Hann er rétt svo kominn í haustjakkann, en er samt ennþá pínu kalt.

En líka einhver leikur, það fer að sumra, það er að lyftast á honum brúnin. Textinn segir samt ekki sögu – þetta er fyrst og fremst upptalning. Maður sér ljóðmælandann sitja við glugga eða jafnvel úti á kaffihúsi og til skiptis lýsa því sem fyrir augu ber sem og óskalistann fyrir næsta sumar. Það er kúnst að syngja upptalningu, frekar en sögu með risi og falli – og það er akkúrat það sem Garfunkel gerir svo vel; nær hellings tilfinningu í hverja línu, án þess þó að bjóða upp á ris og fall, án þess að reyna að segja sögu. Þetta lag er uppskrift af sögu, ekki sagan sjálf. Það er eitthvað framhaldslag þarna úti.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson