Svona til að halda áfram með Simon & Garfunkel þráðinn frá síðasta ábreiðuþætti, þá er nú rétt að nefna eina bestu ábreiðu íslenskar tónlistarsögu: Sound of Silence þeirra félaga í meðförum Emilíönu Torrini.
Þetta er auðvitað ekkert flókið. Simon & Garfunkel geta alveg raulað þetta ágætlega – en það er ekkert samanborið við himneska röddina í Emilíönu. Það geta allir íslenskir unglingsstrákar á rúntinum in the 90s staðfest, enda vorum við allir jafn skotnir í henni þá.
Það má líka bæta við Frank Mills úr Hárinu í sarpinn. Emilíana náði einhvern veginn næntís rómantíkinni og framtíðardraum yngsta hluta X-kynslóðarinnar betur en flestir, hún var að lifa meikdrauminn sem við hin vorum öll að fara að elta eftir menntaskólann.
Þið vitið, þegar allt var hægt, þegar möguleikarnir voru endalausir og maður var blankur en samt ekki á sama hátt og núna, heldur blankur en samt enn með fulla trú á framtíðinni, samanber eitt af fyrstu frumsömdu lögum Emilíönu, um að vera atvinnulaus um mitt sumar og geta bara notið þess.
Eða eins og hún syngur:
I’ve only just turned 21, I’ll be okay
Unemployed in summertime
Don’t need money ’cause we’re young
Þið munið þetta; öldin var að verða búin, en næsta öld yrði betri, við vorum rétt að byrja og hann Fukuyama hafði lofað endalokum sögunnar, ekkert kjaftæði í loftinu eins og Úkraínu-, Sýrlands- eða Íraksstríð, við myndum redda þessum loftslagsbreytingum eins og við redduðum ósonlaginu með að nota minna hársprey og svo þyrfti bara að finna lausn á átökunum á Gaza og allt yrði gott í heiminum. Enda heimsfaraldur og heimskreppur og endalaus stríð eitthvað sem tilheyrði öldinni sem var að líða, við þyrftum í mesta lagi að hafa áhyggjur af 2000 vandanum – og fyrst það reddaðist var vitaskuld engu að kvíða.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson