Fyrir um áratug var ég á kvikmyndahátíð og fór á heimildamynd um líknardráp. Ég man ekki hvað myndin hét; hún var ágæt, ekki frábær, og ég væri sjálfsagt löngu búinn að gleyma henni ef það hefðu ekki spunnist mjög líflegar og heitar umræður í S&S (spurt & svarað) með leikstjóranum á eftir. Fólki var heitt í hamsi og það hélt áfram að debatta í reyknum á eftir (ég reyki ekki en finnst gaman að fara út í reyk, svo fær maður líka ferskt loft út úr því ef vindáttin er með manni í liði).
Ég hef farið á fjölmargar kvikmyndahátíðir og bókmenntahátíðir – en þetta er því miður undantekningin. Við erum flest of kurteis – og kannski líka bara þreytt og intróvertuð eftir 2 tíma bíómynd eða 50 mínútur af spjalli kynnis og höfundar á bókmenntahátíð. Og auðvitað bjóða viðburðir og verk misvel upp á rökræður.
Það er einfaldlega lítil hefð fyrir því að deila harkalega á svona hátíðum, þótt blessunarlega komi það fyrir – og það er kannski vegna þeirrar reynslu sem það vantar oftast möguleikann að koma og rífa kjaft, til viðbótar við möguleikana að sniðganga eða sniðganga ekki.
Enda á það vissulega misvel við. Þótt maður sé ósáttur við persónusköpun, stílbrögð eða plott er það sjaldan sambærileg ástæða til alvöru rifrilda á opinberum vettvangi og deilur um alþjóðastjórnmál, stríð og þjóðarmorð. En kannski þurfum við samt einmitt að rífast meira um fagurfræði á næstu bókmenntahátíðum, æfa okkur í því, en jafnvel þótt við gerum það þá er það samt allt annað leiksvið og það að rífa kjaft við fyrrum utanríkisráðherra og næstum því forseta voldugasta ríkis heimskringlunnar, þótt hún hafi komið eitthvað að ritun einnar skáldsögu.
Þannig að, sko:
Ég er almennt skeptískur á sniðgöngu á menningarsviðinu, ég vil að listamenn Rússlands og Ísraels geti mætt á alþjóðlega viðburði – bæði út af því að sumir þeirra eru sannarlega alveg jafn mikið – ef ekki meira – á móti stríðinu og þeir sem hvetja til sniðgöngu, og eru því mikilvægar raddir í þeirri baráttu, bara núna í vikunni var rússnesk listakona, Sasha Skochilenko, dæmd í sjö ára fangelsi fyrir að setja límmiða í stað verðmerkinga í matvörubúð. Svo eru líka þeir listamenn sem eru sammála sínum stjórnvöldum, það er sjálfsagt ágætt fyrir þá að hitta einhverja sem nenna að rífa kjaft við þá.
En til þess þarf að vera alvöru vettvangur til þess, nægur tími og fundarstjórn sem bíður ekki bara upp á slíkt heldur hvetur til þess – og eins þurfum við í áhorfendaskaranum að vera tilbúin í slaginn, jafn óþægilegt og það getur verið. Mun það gerast á Iceland Noir? Ég veit það ekki, það er uppselt þannig að þeir sem eru ekki þegar búnir að tryggja sér miða geta ekki látið reyna á það úr þessu, en mögulega er nóg af róttæklingum búnir að tryggja sér miða?
Og athugum; Hillary Clinton er vissulega með nafnið sitt framan á bókarkápu – en hún er fyrst og fremst pólitíkus. Hún hefur örugglega á köflum fengið ósanngjarnari meðferð en karlkyns kollegar hennar – en það breytir því ekki að hún er herskár stjórnmálamaður fyrir hönd Bandaríkjanna þegar kemur að stjórnmálum. Mögulega sker hún sig ekki mikið úr þegar kemur að Bandarískum ráðamönnum – en það er nú kannski einmitt bara til marks um það að við erum fyrir löngu búin að normalísera blóðþorsta Ameríkana á meðan við teljum blóðþorsta þjóðarleiðtoga margra annarra ríkja til marks um einræðisríki og barbarisma, geri þá ekki húsum hæfa, ólíkt bræðrum okkar og systrum í vestri.
Nú kom þessi umræða líka upp í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Kirill Serebrennikov var eini rússneski leikstjórinn sem var boðið á Cannes fyrst í kjölfar stríðsins – en hann hagaði sér eins og naívur kjáni sem vildi ekki styggja olígarkana sem fjármögnuðu myndina hans, það er alveg að stórum hluta honum að þakka að Rússunum er ekki boðið á margar kvikmyndahátíðir lengur. Þótt auðvitað sé það meira Pútín að kenna.
En þótt Kirill Serebrennikov sé kjáni eða heigull, þá er hann samt alvöru leikstjóri, þungaviktarleikstjóri, og hefur vonandi haft gott af því að gestir Cannes og heimspressan hafi potað aðeins í heimsmynd hans eða sérhagsmunagæslu (ég held að hann sé varla svona vitlaus í alvörunni). Ég var sannarlega ekki á móti því að honum væri boðið (en það voru margir á móti því, svo sannarlega) – en ég hefði verið á móti því ef að Pútín eða einhver núverandi eða fyrrverandi ráðherra eða ráðgjafi úr hans hirð hefði verið boðið – jafnvel þótt það megi alveg finna alvöru listamenn í þeim röðum.
Og þegar maður lítur inn á vef hátíðarinnar sér maður risastór nöfn – höfunda eins og Neil Gaiman, Irvine Welsh og Dan Brown. Það er eitthvað öfugsnúin menningarhátíð sem bíður slíkum kanónum – sem ég hef þó hvergi séð viðtal við í íslensku pressunni – og lætur þá annað árið í röð algjörlega standa í skugganum á pólitíkusum sem dýfa tánni í bókmenntaheiminn.
Mig langar samt alveg að sjá og hitta Gaiman og Welsh – en ég er að hugsa um að bíða þangað til ég frétti að þeir séu komnir á strangheiðarlega almúgabókmenntahátíð í einhverjum iðnaðarbæ og heimsækja þá frekar þá. En ég vona að þeir sem höfðu efni á Iceland Noir rífi kjaft á meðan.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson